Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

Mánudaginn 24. febrúar 1997, kl. 18:25:40 (3877)

1997-02-24 18:25:40# 121. lþ. 76.15 fundur 266. mál: #A vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum# (veiðar jarðeiganda) frv., Flm. GMS
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur

[18:25]

Flm. (Gunnlaugur M. Sigmundsson):

Herra forseti. Þetta hafa verið ágætar umræður. Ég vildi aðeins í lokin fá að ítreka nokkur atriði í máli mínu en fyrst varðandi það sem kom fram í máli hæstv. landbrh. og umhvrh., Guðmundar Bjarnasonar.

Ég er ekki sammála ráðherranum um mikilvægi þessara veiðiskýrslna. Ég lýsti því yfir í máli mínu áðan að ég væri ekki mjög trúaður á það sem fram kæmi í þessum skýrslum. Ég held ekki að neinn sé í sjálfu sér að reyna að segja rangt frá. Ég bara veit einfaldlega að flestir gera þetta ekki upp um leið og þeir veiða. Það er nú svo með veiðimenn að löngunin til þess að veiða meira en þeir gera er býsna sterk þannig að ég gef svo sem ekki mikið fyrir þessar veiðiskýrslur eða þennan áhuga einstakra embættismanna á því að geta skoðað hvað veiðist mikið úr einstökum stofnum. Einhvern veginn hafa þessir stofnar lifað af Íslandsbyggð hingað til. Auðvitað hefur skotveiðimönnum fjölgað. En það er líka svo að þetta blessaða kerfi þarf alltaf að vera að finna upp á einherju fyrir það fólk sem hjá því vinnur til þess að hafa ofan af fyrir því og ég held að veiðiskýrslurnar séu einn þáttur í því að hafa ofan af fyrir einhverjum opinberum starfsmönnum sem hafa sérmenntað sig á því sviði sem atvinnulífið þarf ekki að öðru leyti á að halda.

Ég fagna því sem hæstv. umhvrh. og landbrh. lýsti yfir að rétt væri að skoða hvort þessi löggjöf bryti í bága við eignarréttinn. Ég fagna því og ég hef í sjálfu sér ekki farið fram á annað en að það sé skoðað og ef svo er, þá verði það lagfært strax. Það er engu að síður mín skoðun að menn eigi ekki að þurfa að greiða fyrir veiði á eigin jörðum. Það mál byggist ekki á einhverjum 1.500 kr. Málið snýst ekki um það. Þetta snýst um prinsipp og ég veit að bændur landsins eru margir hverjir mjög ósáttir, ekki við gjaldið, heldur að þurfa að greiða fyrir að veiða á eigin landi. Og menn spyrja sjálfa sig: Hvar stoppar þetta með þessu áframhaldi? Hvar stoppar það ef Rannsóknastofnun landbúnaðarins, hæstv. landbrh., vill nú fara að kanna kal í túnum, kemur þá næst gjald sem menn þurfa að greiða áður en þeir fara að slá túnin? Mundi það verða fjármagnað með gjaldi sem rynni til RALA til þess að kanna kal í túnum ef mönnum dytti það í hug?

Menn spyrja sig: Hvar stoppar þetta ef ekki er spyrnt fótum við þessari endalausu ásælni ríkisvaldsins í að velta kostnaði af því sem ríkisvaldið er að föndra yfir á borgara landsins?