Náttúruvernd

Mánudaginn 24. febrúar 1997, kl. 18:30:30 (3878)

1997-02-24 18:30:30# 121. lþ. 76.16 fundur 276. mál: #A náttúruvernd# (landslagsvernd) frv., 277. mál: #A námulög# (náttúruvernd) frv., Flm. HG
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur

[18:30]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd, nr. 93/1996. Frv. þetta hefur áður komið fyrir augu hv. þm. þar eð það hefur verið flutt tvívegis áður. Í fyrra skiptið var það sýnt síðla á þingi fyrir tveimur árum og síðan endurflutt að hausti eftir að umsagna hafði verið aflað við frv. og nú er það sem sagt flutt í þriðja sinn á þinginu og með lítils háttar breytingum á frumvarpstextanum sjálfum. Ég mun aðeins vekja athygli á því hvað þar er um að ræða en ég vil fara fáeinum orðum um málið almennt.

Hv. meðflm. mínir að frv. eru hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir og Gísli S. Einarsson.

Frv. felur í sér í senn nýmæli við náttúruverndarlöggjöf sem felst í í a- og b-lið 1. gr. frv. þar sem gert er ráð fyrir að inn í lög um náttúruvernd verði tekinn sérstakur kafli undir heitinu Landslagsvernd, sem fái efnislega skilgreiningu samkvæmt því sem lagt er til í frv. Hér eru ekki til slík ákvæði í löggjöf og hafa ekki verið og að því leyti til er frv. með nýmæli sem ég vona að leiði til þess að lögleidd verði ákvæði sem að þessu lúta.

Í seinni þáttum frv. sem er skipt niður í undirliði eins og menn sjá, þ.e. 1. gr., þar er um að ræða ákvæði sem varða efnistöku og efnisnám í landinu til verulegra bóta frá því sem er í gildandi löggjöf, sett skýrari og strangari ákvæði sem uppfylla þarf vegna efnisnáms. Þar er tekið með misjöfnum hætti á efnisnámi og skilyrðum fyrir efnistöku eftir eignaryfirráðum eða umráðum yfir landi eins og sjá má ef menn kynna sér einstakar greinar frv. Inn í frv. eru felld með smávegis breytingum ákvæði 23. gr. gildandi laga um náttúruvernd, ákvæði sem hefur verið í lögum frá árinu 1971 um samráð við Náttúruvernd ríkisins, áður Náttúruverndarráð. Ef fyrirhuguð mannvirkjagerð valdi hættu á að land breyti varanlega um svip eða merkum náttúruminjum verði spillt þá er gert ráð fyrir því að leitað verði álits Náttúruverndar ríkisins á frumstigi framkvæmdaundirbúnings og sama á að gilda varðandi hönnun stórra mannvirkja. Um hana skal haft samráð við Náttúruvernd ríkisins, sem og um vegalagningu að slíkum mannvirkjum.

Ég vek athygli á ákvæðunum um landslagsvernd samkvæmt a-lið 1. gr. þar sem gert er ráð fyrir því að tilteknar landslagsgerðir njóti almennrar verndar og ekki megi raska þeim nema samkvæmt ákvörðun skipulagsyfirvalda að fenginni umsögn Náttúruverndar ríkisins. Þessar landslagsgerðir eru taldar upp og skilgreindar og hefur verið höfð hliðsjón af löggjöf í öðrum löndum, m.a. í danskri náttúruverndarlöggjöf, við mótun þessara tillagna. Það er mjög þýðingarmikið að mati okkar flutningsmanna að slík almenn ákvæði um landslagsvernd verði lögfest þannig að menn þurfi ekki að kveða á um beina friðlýsingu, sérstaka friðlýsingu einstakra náttúrufyrirbæra sem hafa verndargildi heldur sé innleidd almenn regla þessa efnis að um vernd sé að ræða og það þurfi að leita undanþágu ef út af bregður og menn ætla sér að raska viðkomandi landslagi. Það á að vera meginreglan að það sé náttúran sem eigi að njóta verndarinnar en þeir sem ætla að breyta henni þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði.

Það sama er tekið fram varðandi jarðrask, efnistöku og mannvirkjagerð, að óheimilt er að breyta landslagi varanlega nema í samræmi við staðfest skipulag og að undangengnu mati á umhverfisáhrifum þar sem það á við. Hér er sama hugsun á ferðinni, þ.e. að innleiða þarna meginreglu og að fella slíkar framkvæmdir að skipulagi, skipulagslöggjöf. Í eftirfylgjandi greinum eru síðan ný ákvæði mótuð varðandi skilyrði fyrir jarðefnanámi og efnistöku eftir eðli umráðaréttar á landi, eftir því hvort land er í einkaeign, hvort um er að ræða jarðefnanám á afréttum og almenningum sem gætu talist í almannaeign eða þar sem eignarréttur er ekki ákvarðaður og síðan einnig að því er varðar efnistöku á lendum sem eru í umráðum sveitarfélaga.

Frv. gerir ráð fyrir því að sveitarfélög og nefndir á þeirra vegum ráði miklu um þessi efni. Það segir sig sjálft þegar verið er að vísa til skipulagslöggjafar í þessum efnum. En bæði nú, og enn frekar ef lögfest verða ákvæði þess frv. sem nú liggur fyrir þinginu og er til meðferðar í umhvn. um skipulagsmál, þá verða yfirráð sveitarfélaganna eða ákvörðunarvald þeirra varðandi aðalskipulag og deiliskipulag fyllri en verið hefur í löggjöf og mjög ákvarðandi þannig að hér koma sveitarfélögin inn í sem mjög gildur umráðaaðili í þessum efnum. Í lokin er að finna ákvæði til bráðabirgða þar sem gert er ráð fyrir að umhvrn. láti gera áætlun vegna frágangs eftir efnistök og jarðrask sem átt hefur sér stað fyrir gildistöku laganna og láti gera áætlun um úrbætur í samvinnu við sveitarstjórnir.

Þetta frv. var unnið í nánu samráði við ýmsa opinbera aðila sem láta sig þessi mál varða og hafa skyldum að gegna. Það er ekki svo að þeir hafi verið mótandi um tillögugerð en ég leyfði mér að leita ráða hjá aðilum eins og Skipulagi ríkisins, Náttúruverndarráði og fleiri aðilum sem eru nefndir í greinargerð og veittu góðfúslega ráð um einstaka efnisþætti og var tekið tillit til þeirra margra sem og umsagna sem bárust strax eftir að frv. hafði verið lagt fram til kynningar.

Það var mjög ánægjulegt hversu góðar undirtektir mikið af efni málsins fékk, þar á meðal frá Bændasamtökum Íslands sem eðli máls samkvæmt eru umbjóðendur hagsmunaaðila sem hafa skoðun á máli sem þessu og verulegra hagsmuna að gæta að sjálfsögðu hvernig með skuli farið. Ég er ekki að segja þar með að í umsögn bændasamtakanna hafi verið skrifað upp á alla hluti, en meginundirtektir þeirra voru ánægjulegar vegna þess að þær báru vott um meiri skilning heldur en menn kannski stundum ætla að komi úr þeirri átt. En bæði er að sjónarmið er að breytast og mikið af bændum landsins og þá eðlilega hagsmunasamtök þeirra, hafa áhuga á því í raun að vel sé gengið um landið. Ég vænti þess að áframhald verði á þeirri þróun mála og að það megi takast gott samstarf á milli umráðaaðila lands og þeirra sem eiga að halda á málum eins og t.d. efnistöku, þar á meðal viðkomandi sveitarstjórna.

Ég hlýt, virðulegur forseti, að nefna að eftir að málið kom fyrst fram, efndi hæstv. umhvrh. eða Náttúruverndarráð í umboði hæstv. ráðherra, til sérstakrar ráðstefnu um efnisnámur. Sú ráðstefna var haldin 17. nóvember 1995. Þar var lögð fram skýrsla af hálfu Náttúruverndarráðs undir nafninu Námur á Íslandi. Í þessari skýrslu kemur fram og var lögð á það áhersla af hæstv. ráðherra og mörgum sem túlkuðu mál og höfðu framsögu á þessari ráðstefnu, hversu brýnt það er að leitað sé úrbóta m.a. með lagabótum og skýrari ákvæðum í lögum um þessi efni og í skýrslunni er dregið fram hver staða mála er. Þar segir í upphafi, með leyfi forseta:

,,Að beiðni umhvrn. hefur Náttúruverndarráð gert könnun á ástandi efnistökumála. Hún leiðir í ljós að almennt séð er ástandið ekki viðunandi.``

Síðan er það dregið skýrt fram. M.a. segir hér, með leyfi forseta:

,,Flestar námurnar eru í einkaeign. Lítill hluti þeirra er í eigu sveitarfélaga eða ríkisins. Hins vegar`` --- og ég vek sérstaka athygli á því --- ,,nýta opinberir aðilar um það bil 90% allra náma í landinu og því er aðeins lítill hluti þeirra nýttur af landeigendum sjálfum. Ástandið virðist vera óviðunandi í öllum landshlutum. Námur eru of margar og umgengni í þeim er víða ábótavant. Sums staðar verður að telja að hætta stafi af vegna slæms viðskilnaðar. Í sumar námur hefur verið safnað sorpi og brotamálmum.``

Síðan eru ráð til úrbóta lögð fram þarna.

Ég hafði vænst þess að þegar mál þetta lá fyrir þinginu og unnið var að breytingum á lögum um náttúruvernd, m.a. á síðasta þingi, að það þætti ástæða til þess að taka upp þau ákvæði eða taka afstöðu til þeirra tillagna sem hér liggja fyrir í sambandi við þær lagabreytingar. Þó að þær vörðuðu að meginhluta stjórn náttúruverndarmála þá var farið inn á ýmis önnur atriði í þeim lagabreytingum. Það voru mér því vonbrigði að þetta var ekki gert. Ég hafði skilið umræðuna, m.a. af hálfu talsmanna umhvrn. og raunar hæstv. umhvrh., á þann veg að þar væri vilji til taka á brýnum þáttum eins og hér er um að ræða og ekki er ágreiningur um að þurfi úrbóta við.

Ég nefndi, virðulegur forseti, að lítils háttar breytingar hefðu verið gerðar frá því að málið lá fyrir á síðasta þingi. Ég vil nefna tvö atriði úr frv. Það er að í a-lið 1. gr., undirlið a. --- Þetta eru mjög einkennilegar merkjasetningar í frv. Þær eru ekki komnar frá höfundi laganna heldur er mér tjáð að þetta helgist af tölvuforritum í útgáfudeild þingsins og finnst mér það nú sérstakt rannsóknarefni því að það er mjög erfitt að vísa í þennan texta og hafði ég óskað eftir að fá breytingu á því. --- En þetta er sem sagt undirliður a í lið a sem hér er um að ræða og þar er bætt við hugtaki í sambandi við landslagsgerðir, þ.e. gosmyndanir frá nútíma, eldstöðvar, gervigígar, eldhraun og hraunhellar. Hugtakinu hraunhellar, er bætt inn í þetta.

Í f-lið frv., þar sem fjallað er um að óheimilt sé að láta efnistökustað standa ófrágenginn til lengri tíma, minnir mig að það hafi verið orðað á síðasta þingi í þeim texta sem þá lá fyrir, varð að ráði að setja: ,,... ófrágenginn lengur en tvö ár enda þótt frekara efnisnám sé fyrirhugað síðar.`` Þannig er að sá tímafrestur sem ætlaður er til að gera upp málin tiltekinn þó að leitað verði í sömu námu síðar. Það gengur auðvitað ekki að láta námur standa ófrágengnar og opnar og í reiðileysi um árabil með skírskotun til þess að menn hyggist grafa á sama stað eða taka efni á sama stað og því er það að hér er settur ákveðinn tímafrestur inn í málið.

[18:45]

Virðulegur forseti. Ég er að gera mér von um að stuðningur verði við þetta mál á þinginu þegar það er endurflutt. Það er vel kunnugt í umhvn. þingsins og í þinginu almennt. Það hefur ítrekað verið aflað umsagna um málið og þær liggja fyrir. Það ætti því ekki að vera neitt að vanbúnaði að taka efnislega afstöðu til málsins. Ég hlýt sem 1. flm. að lýsa vonum um að svo verði og fyrtist að sjálfsögðu ekki við þó að fram komi hugmyndir og tillögur um eitthvað sem betur mætti fara í frv. en tel að brýn nauðsyn sé að fá hér lagabætur á þessu sviði. Ég tel ekki nóg að vísa til þess að til standi að endurskoða lög um náttúruvernd í heild sinni sem punkturinn verður kannski settur aftan við um aldamótin eða innan nokkurra ára, því að af reynslu finnst mér varlegt að ætla að þó að nefnd hafi nýlega hafið störf ljúki því með lögfestingu á endurskoðuðum lögum fyrr en að nokkrum tíma liðnum. Af þeim ástæðum vænti ég þess að þetta frv. fái efnislega meðferð í þinginu.

Ég ætla að nefna hér annað frv. sem er 277. mál, tillaga um breytingu á námulögum, nr. 24/1973, með síðari breytingum. Námulögin varða að sjálfsögðu efni þessarar löggjafar og því varð að ráði að flytja nú litla breytingu við námulög sem heyra framkvæmdarlega séð undir iðnrh. af einhverjum ástæðum eða kannski sögulegum ástæðum þó ég teldi í raun að þau ættu í heild sinni að heyra undir umhvrh. en það er ekki meginatriði í sambandi við þetta og engin breyting gerð á þeirri skipan mála, heldur aðeins gerð tillaga um að bæta við eða skjóta inn í námulögin nýrri grein sem orðast svo:

,,Við framkvæmd laga þessara skal gæta ákvæða laga um náttúruvernd, nr. 93/1996.`` Þetta þarf raunar ekki skýringa við en slíkt ákvæði vantar nú í námulögin og hvergi er minnst á sérlög eða lög um náttúruvernd í því samhengi. Og þó að sitthvað hafi verið gert til bóta af hæstv. iðnrh. í þessum efnum, m.a. reglugerð sett varðandi námuvinnslu sem er viðleitni og sjálfsagt að virða, þá þarf að ganga miklu betur fram í sambandi við verndun lands í þessu sambandi, herða þar reglur og setja skýrari lagaákvæði.

Ég geri tillögu um það, virðulegur forseti, að að lokinni umræðu um frv. verði því vísað til hv. umhvn. Ég leyfi mér að nefna bæði málin í því samhengi þó að hitt komi vissulega til álita og bið virðulegan forseta að skoða það hvort unnt er talið að vísa frv. um námulög þar að lútandi til hv. iðnn. sé það talið rétt þó að þessi mál liggi saman hér í þinginu og séu flutt með sama meginefni í huga.