Rafknúin farartæki á Íslandi

Mánudaginn 24. febrúar 1997, kl. 19:02:44 (3881)

1997-02-24 19:02:44# 121. lþ. 76.18 fundur 323. mál: #A rafknúin farartæki á Íslandi# þál., 327. mál: #A notkun vetnis í vélum fiskiskipaflotans# þál., Flm. HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur

[19:02]

Flm. (Hjálmar Árnason):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tveimur þáltill. og óskaði eftir að mæla fyrir þeim báðum samtímis þar sem rætur þeirra eru samliggjandi og markmið þeirra eru hin sömu. Önnur þeirra, till. til þál. um notkun rafknúinna farartækja á Íslandi, kveður á um það að umhvrh. verði falið að skipa nefnd til að athuga með hvaða hætti megi hvetja til almennrar notkunar rafknúinna farartækja á Íslandi. Ráðherra geri Alþingi grein fyrir tillögum nefndarinnar fyrir árslok 1997.

Hin tillagan er af sama meiði en kveður á um notkun vetnis í vélum fiskiskipaflotans og er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að fela umhvrh. að láta kanna möguleika þess að vélar íslenskra fiskiskipa verði knúnar vetni í stað olíu.``

Herra forseti. Í síðustu viku vöknuðu íbúar höfuðborgarsvæðisins upp við vondan draum þegar þeir litu upp til fjalla og sáu sitt fjall, þótt ekki sé í Reykjavík, Esjuna, lukta miklu eiturskýi eða skítaskýi eins og sumir vildu kalla það og brá mönnum mjög í brún. Upphófust af þessu miklar vangaveltur sem von er og voru ýmsar skýringar á lofti. Þarna töldu ýmsir að mætti greina mengun frá stóriðju við Hvalfjörð á Grundartanga, aðrir vildu kenna um Áburðarverksmiðjunni í Gufunesi. En þegar málið var skoðað nánar af Hollustuvernd kom í ljós að skýringanna á þessu ljóta eiturskýi sem lá yfir Esjunni hinni fögru reyndist að leita í mengun frá bílaumferð. Þetta kemur mér í sjálfu sér ekki á óvart. Það hagar nú þannig til að daglega ek ég Reykjanesskagann á leið til og frá vinnu. Og oft, einkum í vetrarstillum, má sjá slíkan hjúp liggja yfir höfuðborgarsvæðinu frá þeirri miklu bílaumferð sem þar er. Það er með öðrum orðum að færast stórborgarbragur yfir höfuðborg okkar enda er rúmur helmingur þjóðarinnar kominn hingað og notar sín farartæki óspart. Okkur er eðlilega brugðið. Við höfum enn í huga hendingar Jónasar Hallgrímssonar um að ,,landið sé fagurt og frítt og fannhvítir jöklanna tindar`` þegar við erum farin að sjá slíkar eiturgufur leggjast yfir okkar fallega land. Þá rifjast upp fréttir utan úr heimi úr ýmsum stórborgum þar sem íbúar þurfa að ganga með grímur fyrir vitum á mestu mengunardögum, einkum á sumrin. Ég nefni borgir eins og Tókíó, Aþenu og New York og þá kemur eðlilega sú spurning hvort það styttist í sama ástand hér hjá okkur.

Að undanförnu hefur verið mikil umræða um stjóriðju hér á landi og mengun af hennar völdum í kjölfar hugmynda um að reisa álver á Grundartanga. Ég vil taka fram, herra forseti, að sjálfur er ég mjög fylgjandi því, til þess að renna styrkari stoðum undir efnahagskerfi okkar, að við þurfum að nýta þá orku sem við eigum í jörðinni og að stóriðja að hæfilegu marki sé okkur nauðsynleg í því skyni. En ég lýsi jafnframt því að við þurfum að móta skýra stefnu í því hversu langt við viljum ganga í þeim efnum og hvaða svæði við viljum nýta í þeim tilgangi. Þar sem mér er kunnugt um að hæstv. umhvrh. og hæstv. iðnrh. vinna að því má segja að þeirri spurningu sé þegar svarað.

Ég nefndi hér Esjuna og hið mengandi ský yfir henni. Það kemur í ljós að 32% af koldíoxíðmengun Íslendinga stafa af samgöngutækjum, af bruna olíu og bensíns, þ.e. afurða olíu á samgöngutækjum. Og það sem meira er, önnur rúmlega 30% af koldíoxíðmengun okkar stafar af bruna í fiskiskipaflotanum. Með öðrum orðum, um það bil 2/3 af koldíoxíðmengun Íslendinga stafa af bruna annars vegar fiskiskipa og hins vegar samgöngutækja og mun vera um það bil 1,5 millj. tonna sem þannig brenna eða renna út í andrúmsloftið, meðan til samanburðar mun sams konar mengun frá álverinu í Straumsvík eftir stækkun vera um 237 þús. tonn.

Hver er niðurstaðan af þessu? Ýmsar ályktanir má auðvitað draga. En ég tel eðlilega og rökrétta ályktun að við reynum að ráðast á þann vanda sem þegar er til staðar, hafandi auðvitað í huga alþjóðlegar skuldbindingar okkar, svo sem frá Ríó-sáttmálanum, en það er að ráðast á þennan vanda sem annars vegar stafar af farartækjum eða samgöngutækjum og hins vegar fiskiskipaflotanum. Þar eigum við í rauninni mest sóknarfæri. Það má líka orða það þannig að þar sé synd okkar mest. Það ætti að vera rökrétt svar við þeim mengunarkröfum sem gerðar eru. Það ætti að vera rökrétt svar okkar þegar við af efnahagslegum ástæðum erum að byggja hér upp stóriðju.

Ég vil leyfa mér að víkja fyrst að þáltill. sem fjallar um notkun rafknúinna farartækja á Íslandi. Hvaða leiðir getum við farið til þess að draga úr mengun, þeim rúmum 30% sem samgöngutæki hér á landi, þ.e. bílar valda? Það eru auðvitað margar leiðir. Við þekkjum öll sem ökum í umferðinni, ekki síst á morgnana og síðdegis þegar fólk er á leið til og frá vinnu, að þær miklu bílalestir sem myndast hér á höfuðborgarsvæðinu einkennast af því að að öllu jöfnu er aðeins einn í hverjum bíl. Það felur auðvitað í sér að Bjartur í Sumarhúsum er mjög lifandi í umferðinni og við kjósum að fara einir frekar en margmenna í bílum okkar.

Ég nefni það að Norðmenn munu hafa farið þá leið í stærstu borgum sínum að leggja á sérstakan mengunarskatt í ákveðnum radíus út frá stórborgunum. Fólk þarf þó ekki að borga þennan mengunaskatt ef fleiri en einn eru í bílnum. Það getur verið ein leið.

Ég nefni það að í sumum borgum, ég nefni t.d. Vancouver-borg í Kanada, þar eru rafknúnir strætisvagnar. Í ýmsum borgum Evrópu og Ameríku eru rafknúnir sporvagnar. Sporvagnar eru ódýrir í rekstri og endast von úr viti og eru knúnir flestir hverjir raforku og raforkuna höfum við hér til staðar. Það er vistvæn græn orka.

Það má líka nefna rafknúin ökutæki. Hér hefur einn einstaklingur, prófessor Gísli Jónsson, mikið barist í því máli og ekki náð árangri sem skyldi. En ég vil vekja athygli á því að í Kaliforníu í Bandaríkjunum vestur hafa þegar verið sett lög sem kveða á um að 2% af seldum bílum árið 1998 skuli vera rafknúnir. Hvað felur þetta í sér? Þetta felur það í sér m.a. að Bandaríkjamenn, a.m.k. í Kaliforníufylki, hafa mótað þessa stefnu. Þetta er fyrsta skrefið í áttina að því að draga úr þeirri mengun frá bílum sem ég hef hér nefnt og taka upp vistvænni orku en verið hefur.

Þá er mér kunnugt um að á teikniborðum og í hönnunardeildum flestra bílaframleiðenda eru menn að skoða í dauðans alvöru leiðir til þess að fjöldaframleiða bíla knúna raforku eða jafnvel vetni en að því mun ég víkja rétt á eftir.

Fleiri atriði má nefna, en það er þetta í rauninni sem þáltill. ætlar nefndinni, ef tillagan verður samþykkt, að skoða að hinir hæfustu sérfræðingar skoði það, en ég legg þunga áherslu á að málið verði ekki einungis skoðað út frá efnahagslegum rökum heldur ekki síður umhverfislegum. Í allri umræðu okkar um aukinn hagvöxt, sem auðvitað er nauðsynlegur til að hér verði framfarir og við getum áfram haldið uppi velferðarkerfi, verðum við samt sem áður í tali um hagvöxt að taka áhrif hans á umhverfið líka í umræðuna.

Ég vil þá víkja aðeins að vetninu. Ég tel að á því sviði geti Ísland orðið forustuþjóð í heiminum. Við höfum alla burði til þess. Við höfum orkuna, við höfum þekkinguna. Það að framleiða vetni er í sjálfu sér ósköp einfalt ferli. Ekki þarf annað en vatn og raforku og af hvoru tveggja eiga Íslendingar nóg. Og það er það sem hin þáltill. gerir ráð fyrir, að skoðað verði hvort ekki megi nota vetni á fiskiskipaflota okkar Íslendinga sem eins og ég nefndi áðan er valdur að rúmlega 30% af koldíoxíðmengun hérlendis. Er þetta mögulegt?

Ég er sannfærður um að margar úrtöluraddir munu heyrast og ýmsir munu kalla þetta óþarfa bjartsýni, en til allrar hamingju er til bjartsýnisfólk. Það er nefnilega heilmargt að gerast einmitt á þessu sviði hér innan lands. En ég vil þó áður en ég nefni það sérstaklega minna á alþjóðaorkuráðstefnuna sem haldin var í Madrid árið 1992. Þar var því m.a. spáð að með óbreyttri olíunotkun mundu olíulindir jarðar tæmast um það bil árið 2025. Það felur auðvitað í sér að bílaframleiðendur og vélaframleiðendur hljóta að skoða aðrar leiðir, og mér er auðvitað kunnugt um það eins og fleirum að þeir eru þegar farnir að gera það. Það eru sem sagt ekki bara umhverfisrökin heldur og sú þekking að olíubirgðir kunni að renna til þurrðar áður en langt um líður.

Í framhaldi af þessari orkuráðstefnu skrifuðu þrír íslenskir vísindamenn. Ég nefni sérstaklega prófessor Braga Árnason, sem hefur verið ötull talsmaður og mjög trúaður á möguleika vetnis hér á Íslandi. Hann skrifaði ásamt prófessor Þorsteini Sigfússyni m.a. grein í tímaritið Hydrogene Energy þar sem þeir fjölluðu m.a. um þennan möguleika á notkun vetnis á íslenska fiskiskipaflotann.

[19:15]

Það er skemmst frá því að segja, herra forseti, að í framhaldi af þessari grein urðu mjög sterk viðbrögð, ekki hér á Íslandi heldur úti í hinum stóra heimi. Nefna má að fyrirtækið Deutsche Aerospace, sem fjallar m.a. um geimferðir, sýndi málinu slíkan áhuga að í dag liggja fyrir upplýsingar, Icelandic Fishing Fleet, þ.e. hugmyndir um það hvernig ætti að standa að því að nota vetnið til brennslu á íslenska fiskiskipaflotanum. Ég hef hér skýrslu um það með merki Deutsche Aerospace. Þá geta menn spurt hvers vegna slíkt fyrirtæki hefur áhuga á þessu máli. Svarið er í rauninni þegar komið fram. Það er hugmyndin um að gera tilraunir hér á landi í því skyni að geta nýtt vetni til að knýja vélar og tæki í Evrópu. Það liggja fyrir yfirlýsingar m.a. frá Deutsche Aerospace um að gera Ísland að tilraunalandi á þessu sviði.

Ég nefni í framhaldi af þessu, herra forseti, að nú þegar eru framleidd um það bil tvö þúsund tonn af vetni í Áburðarverksmiðjunni í Gufunesi. Það er til komið í framhaldi af áður nefndri grein prófessoranna þar sem Max Planck Institut í Þýskalandi, Áburðarverksmiðjan í Gufunesi og Háskóli Íslands standa að tilraunaverkefni að keyra Caterpillar-vél á vetni. Sú tilraun hefur staðið nú um hríð og farið hljótt en lofar mjög góðu.

Ég nefni auk þess, herra forseti, að ég starfa um þessar mundir í nefnd á vegum hæstv. iðnrh. ásamt Þorsteini Sigfússyni prófessor. Til þeirrar nefndar kom ekki alls fyrir löngu sendiherra okkar í Þýskalandi, Ingimundur Sigfússon, ásamt þremur einstaklingum tengdum bílaiðnaði í Þýskalandi. Þessir einstaklingar lýstu gífurlegum áhuga á því að gera tilraunir og fjárfesta á Íslandi í tilraunum með vetni vegna þess að bílaiðnaðurinn kallar á það.

Ég nefni auk þess, herra forseti, að í Þýskalandi, bæði í borginni Erlangen sem og í München eru nú þegar keyrðir í tilraunaskyni strætisvagnar knúðir vetni. Ég nefni auk þess bréf frá strætisvögnunum í Ósló þar sem kemur fram að árið 1998 munu þeir ætla í tilraunaskyni að aka fjórum strætisvögnum knúðum vetni. Áfram má telja en tíminn leyfir það ekki, hann er að renna frá mér. Ég tel að öll umhverfisleg, efnahagsleg og gjaldeyrisleg rök séu fyrir því að stefna sé mótuð í þessu, að þessi mál séu könnuð allrækilega og það er það sem þessar þingsályktunartillögur gera ráð fyrir. Ég óska eftir því, herra forseti, og vonast til þess að þær fái farsæla afgreiðslu og verði beint til hv. umhvn.