Rafknúin farartæki á Íslandi

Mánudaginn 24. febrúar 1997, kl. 19:28:29 (3883)

1997-02-24 19:28:29# 121. lþ. 76.18 fundur 323. mál: #A rafknúin farartæki á Íslandi# þál., 327. mál: #A notkun vetnis í vélum fiskiskipaflotans# þál., umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur

[19:28]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að segja út af upphafsorðum hv. seinasta ræðumanns að auðvitað er ekki löng leið milli okkar, mín og hv. 1. flm. þessara tillagna beggja. Það er auðvitað hárrétt. Við höfum rætt þessi mál sem og önnur okkar í milli. Það er hins vegar niðurstaða þeirra flutningsmannanna að leita eftir vilja þingsins um þau tvö mikilvægu mál sem hér eru undir og auðvitað hef ég ekki á móti því, síður en svo. Og það sem meira er, það er nú einu sinni svo að sé lagt í athugun eins og þá sem hér er lögð til og töluverð vinna er henni fylgjandi, þá fylgir líka töluverður kostnaður. Og það er mjög erfitt að setja alltaf ný verkefni á ráðuneyti öðruvísi en að fyrir því sé séð eða um það fjallað hvernig á að standa straum af t.d. nefndarstarfi eins og lagt er til í öðru tilfellinu eða í hinu tilfellinu athugun sem líka getur kostað mikla fjármuni eftir því hvernig staðið er að. Það þyrfti og mætti gjarnan vera svo að þegar samþykktar eru till. til þál. og þær gerðar að þingsályktunum þá sé jafnframt séð fyrir því með einhverjum hætti hvernig viðkomandi ráðherrar eða ráðuneyti eigi að standa að málinu.

Það er líka rétt sem fram kom hjá hv. seinasta ræðumanni, hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni, að sá sem hér stendur lagði af nefnd sem var að fjalla um svipað verkefni og hér er lagt til snemma á seinasta ári. Það var vegna þess að nákvæmlega eins og hv. þm. lét liggja að, að hún hafi kannski verið orðin södd lífdaga eða þreytt á verkefninu, þá var hún búin að vera að störfum, vonandi að einhverjum störfum, um nokkurn tíma, en ítrekað var ráðuneytið búið að ganga eftir svörum frá nefndinni og biðja beinlínis um niðurstöðu eða skýrslu, bæði með viðræðum við nefndarmenn og skriflega, formlega biðja um að einhver niðurstaða eða upplýsingar kæmu frá nefndinni þó ekki væri nema áfangaskýrsla, en án árangurs. Það var því niðurstaða mín að þarna yrði að verða breyting á.

[19:30]

Ekki hef ég á móti því að gera aðra tilraun verði þessi tillaga samþykkt, en þessu greindi ég hv. 1. flm. frá þannig að hann vissi af þessu ferli þegar hann var að gera mér grein fyrir sínum áhuga á að flytja tillögu af þessu tagi.

Við vitum að rafbílarnir hafa átt undir högg að sækja hvað varðar samkeppni við bensínið eða dísilbifreiðarnar. Það er m.a. fyrir það að þeir eru hreinlega dýrari, hafa verið dýrari í framleiðslu. Það hafa verið nokkur vandamál eða vandkvæði við að gera þá þannig úr garði að menn teldu þá vera æskilega eða skemmtilega, þægilega fararskjóta. En auðvitað geta þeir átt við í ýmiss konar almenningssamgöngum t.d. hvað varðar sporvagna eins og hv. frsm. málsins gerði grein fyrir. En þetta er nú staðreyndin og þó að nokkrir bílar hafi sést á götum --- ég hef meira að segja gripið í slíkan bíl sjálfur --- þá hafa þeir ekki náð að njóta neinna vinsælda og ekki getað keppt við hin hefðbundnu farartæki. Ég held þess vegna að til að gera þetta raunhæft þurfi að koma til annaðhvort breyting á verðlagi á olíu, með álögum eða einhverjum breytingum á grunni verðlagningarinnar eða þá sérstökum afsláttum eða meðhöndlun á álögum á rafknúnu bílana eða á einhvern annan hátt að breyta þeirri samkeppnisstöðu til að gera þennan kost raunhæfan en það er sjálfsagt að skoða og taka til umræðu auk þess sem viðhorfin í þessu sambandi eru alltaf að breytast dag frá degi.

Um hitt málið, vetnisframleiðsluna eða að fiskiskipaflotinn okkar sé knúinn vetni í stað olíu, þá hefur verið nokkuð fjallað um möguleika á vetnisframleiðslu hér á landi og m.a. var unnin skýrsla fyrir þáv. iðnrh. um eldsneytisframleiðslu á Íslandi og kom hún í október 1993. Þar segir m.a. að niðurstaða þeirrar nefndar á þeim tíma í það minnsta væri sú að það væri innlendum eldsneytisiðnaði í óhag. Við hefðum ekki möguleika til raunhæfrar samkeppni, en ég segi eins og um hitt málið að auðvitað breytist þetta nokkuð ört og það er gaman að vitna til bréfsins sem var skilabréf til hæstv. þáv. iðnrh. Sighvats Björgvinssonar og dags. 27. október 1993. Þar segir eftir að ráðgjafarhópurinn er búinn að gera grein fyrir helstu niðurstöðum sínum í seinasta stjörnumerktum punkti, með leyfi forseta:

,,Ráðgjafarhópurinn telur æskilegt að upp úr miðjum þessum áratug verði gerð ný úttekt á hagkvæmni þess að nýta innlendar orkulindir til að knýja farartæki og framleiða eldsneyti.`` Þannig að það kann að vera komið að því að skoða þetta mál aftur eða taka það til endurskoðunar.

Hæstv. forseti. Ég vil að lokum nefna í sambandi við umræður um loftslagsbreytingarnar að þessi viðhorf eru stöðugt að breytast. Við erum núna í mjög ítarlegum samningum á alþjóðavettvangi um hvernig við getum uppfyllt okkar skuldbindingar varðandi losun gróðurhúsalofttegunda og rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Eins og fram kom hjá hv. þm. áðan eru samgöngurnar og fiskiskipaflotinn verulegur gerandi í þessu efni og þó umræðan seinustu daga hér á landi hafi mest snúist um stóriðju og loftmengun af hennar hálfu, þá er sannleikurinn sá að við erum með um það bil þriðjung af okkar útblæstri eða losun á gróðarhúsalofttegundum frá flutningum á landi og sjó, sem sagt samgöngumálunum í víðum skilningi, og fiskiskipaflotinn okkar er með álíka, um eða yfir þriðjungi af þessum svokölluðu CO2 efnum eða koltvísýringsefnunum. Ef allar gróðurhúsalofttegundir eru teknar inn í dæmið, útreikningana, þá mun skiptingin vera nokkurn veginn þannig að 1/4 hluti er samgöngur, 1/4 fiskiskipaflotinn, 1/4 það sem við köllum stóriðju og 1/4 hluti annað. Ef okkur tekst að gera róttækar eða umtalsverðar breytingar varðandi samgöngur og fiskiskipaflotann og fá menn til alvarlegrar umhugsunar um það, þá er sannarlega hreyft hér þörfu máli og þess vegna ekki ástæða til annars en að lýsa stuðningi við það.