Rafknúin farartæki á Íslandi

Mánudaginn 24. febrúar 1997, kl. 19:41:43 (3885)

1997-02-24 19:41:43# 121. lþ. 76.18 fundur 323. mál: #A rafknúin farartæki á Íslandi# þál., 327. mál: #A notkun vetnis í vélum fiskiskipaflotans# þál., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur

[19:41]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hafði eiginlega ekki áttað mig á því fyrr en hv. flokksbræður voru að skiptast á skoðunum að það væri svona broddur í þessum tillöguflutningi. Það er náttúrlega alveg ljóst eftir ummæli hv. 1. flm. að hann hefur talið sig þurfa að ýta við hæstv. ráðherra í þessu máli. Samhengið er auðvitað augljóst þegar hæstv. ráðherra leggur niður stjórnskipaða nefnd sem vinnur að ákveðnu verkefni án þess að koma málinu á hreyfingu með einhverjum öðrum hætti, þá þarf hv. þm. Hjálmar Árnason að taka sig til og flytja tillögu um það efni að hæstv. ráðherra endurreisi viðkomandi nefnd. Það er kannski þörf á þessu. Ég skynjaði það á hæstv. ráðherra að hann hefði veitt sitt góðfúslega samþykki fyrir því að málinu yrði hreyft en vakti athygli á því að þetta kostaði peninga. Það hefur ekki verið litið á það sem stórt mál að ráðuneytin setji menn til verka í nefndum sem fá lítils háttar þóknun eftir mati þóknunarnefndar, þannig að það sé stórt efni sem Alþingi þurfi að taka afstöðu til.

Væntanlega verður þetta til þess að málið komist á hreyfingu aftur og ég get alveg lofað hv. flm. að ég mun styðja framgang málsins kannski eitthvað ítarlegra en kemur fram í þessum texta ef málið kemur til þeirrar þingnefndar sem ég sit í, umhvn. þingsins, sem hugsanlega fær málið án þess að ég hafi tekið eftir því hvert hugmyndin væri að vísa því. Ég geri þó ráð fyrir að svo sé, með vísan til þess sem hér liggur fyrir.