Menntun, mannauður og hagvöxtur

Þriðjudaginn 25. febrúar 1997, kl. 13:44:34 (3891)

1997-02-25 13:44:34# 121. lþ. 77.95 fundur 207#B menntun, mannauður og hagvöxtur# (umræður utan dagskrár), Flm. GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur

[13:44]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Menntamál hafa verið á hvers manns vörum að undanförnu, ekki síst vegna svokallaðrar TIMSS-könnunar vegna þess að ákveðið hefur verið að birta niðurstöður samræmdra prófa. Í síðustu viku var greint frá tveimur athugunum á arðsemi menntunar. Önnur könnunin var gerð af Hagfræðistofnun háskólans að beiðni menntmrh. og hin af hagfræðingum BHM og Félags ísl. hjúkrunarfræðinga. Þrátt fyrir mismunandi aðferðafræði og forsendur eru niðurstöður beggja kannananna samhljóma að því leyti að almennt er arðsemi menntunar neikvæð á Íslandi. Með öðrum orðum tapar fólk fjárhagslega á því að afla sér menntunar ef miðað er við ævitekjur.

Tilkostnaðurinn við það að afla sér menntunar er of mikill og launin of lág að lokinni menntun til að það borgi sig efnahagslega að afla sér háskólamenntunar með nokkrum undantekningum. Námslánin, vinnutap vegna færri starfsára og skattalegt óhagræði við styttri starfsævi, t.d. varðandi persónufrádrátt og barnabótaauka, kosta meira en svo að launin sem eru í boði standi undir sambærilegum kjörum og t.d. hópar án háskólamenntunar njóta í VR eða BSRB.

Nýleg könnun Verslunarmannafélags Reykjavíkur leiddi í ljós að meðallaun félagsmanna sem lokið höfðu grunnskólaprófi eru ríflega 160 þús. kr. og meðallaun háskólamenntaðra VR-félaga reyndust hin sömu. Sama könnun sýndi að meðallaun karla innan VR er um 180 þús. á meðan meðallaun kvenna eru um 120 þús. Enn einu sinni kemur hinn illræmdi launamunur kynjanna í ljós en könnun Félagsvísindasstofnunar frá árinu 1995 á kynbundnum launamun benti til að launamunur kynjanna ykist með vaxandi menntun.

Þjóðhagsleg arðsemi menntunar þykir lág á Norðurlöndum en var þó jákvæð upp á 6% fyrir karla í Svíþjóð árið 1991. Eina menntunin sem gefur viðunandi arðsemi samkvæmt greinargerð Hagfræðistofnunar er stúdentspróf eða bóklegt framhaldsnám hjá körlum og BS-nám kvenna. Samkvæmt skýrslu BHM er arðsemi menntunar almennt neikvæð nema hjá verkfræðingum og viðskiptafræðingum þar sem hún er 5--11%. Þó að fólk fái vissulega ýmislegt annað út úr menntun sinni en efnahagsleg gæði, þá er það alvarleg staðreynd að arðsemi menntunar skuli almennt vera neikvæð, alvarleg vitneskja sem verður að bregðast við strax. Að öðrum kosti verður erfitt að sjá hvernig á að telja ungu fólki trú um að menntun borgi sig, ungu kynslóðinni sem ef eitthvað virðist meira efnishyggjufólk en kynslóðirnar á undan.

Af þessu tilefni vil ég beina eftirfarandi spurningum til hæstv. menntmrh. sem talsmanns ríkisstjórnarinnar í menntamálum:

1. Hyggst menntmrh. og ríkisstjórnin grípa til einhverra aðgerða strax eða á næstunni í því skyni að minnka námskostnað fólks, t.d. með breytingum á lögum og reglum um Lánasjóð ísl. námsmanna? Ef svarið er já, hvaða aðgerðir eru fyrirhugaðar? Ef svarið er nei, hvers vegna ekki?

2. Mun menntmrh. og ríkisvaldið, sem einn stærsti vinnuveitandi háskólamenntaðs fólks, taka mið af ofannefndum staðreyndum í komandi kjarasamningum og þá hvernig? Að mati BHM þurfa laun BHM-manna að hækka um 42,5% til að einstaklingarnir tapi ekki fjárhagslega á því að mennta sig miðað við ævitekjur. Hvernig hyggst menntmrh. bregðast við þessum upplýsingum í bráð og lengd?

Virðulegi forseti. Í áðurnefndri greinargerð Hagfræðistofnunar til menntmrh. um menntun, mannauð og framleiðni kemur skýrt fram að Íslendingar byggja afkomu sína að langmestu leyti enn á náttúruauðlindum landsins og að verulega þarf að efla mannauðinn til að við verðum samkeppnisfær við annað vinnuafl Evrópska efnahagssvæðisins. Þá eru færð rök fyrir því að aukin og bætt menntun auki framleiðni og hagvöxt þjóða og bent á að stjórnvöld geti haft áhrif á mannauðinn með því að hvetja einstaklinga til menntunar og að efla rannsóknir og menntakerfið sjálft. Auk niðurskurðar sem snertir grunnskólann á undanförnum árum eins og fækkun lögbundinna kennslustunda, fjársvelti Námsgagnastofnunar og frestun á lengingu B.Ed.-prófsins í kennaraháskólanum og almennur niðurskurður til framhaldsskólans og vanræksla á uppbyggingu á starfsnámi þar, þá er verulegt áhyggjuefni hvað hefur verið að gerast í Háskóla Íslands. Einn aðalmælikvarðinn sem notaður er til að meta gæði háskólanáms auk afkasta kennara við rannsóknir er hlutfallið á milli kennara og nemenda. Á undanförnum árum hefur verulega sigið á ógæfuhliðina að því leyti þar sem fjárveitingar til háskólans hafi ekki aukist samfara fjölgun stúdenta. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Því vil ég af þessu tilefni spyrja að lokum hvort menntmrh. eða ríkisstjórnin hyggjast grípa til aðgerða til að efla menntun, mannauð og rannsóknir og þá hverra.

Þar sem hagrannsóknir nota oft opinber útgjöld hins opinbera til háskólamenntunar sem mælikvarða á mannauð spyr ég að síðustu hvort fyrirhugað er að setja aukið fé í menntakerfið og til rannsókna það sem eftir lifir kjörtímabilsins.