Menntun, mannauður og hagvöxtur

Þriðjudaginn 25. febrúar 1997, kl. 13:55:34 (3893)

1997-02-25 13:55:34# 121. lþ. 77.95 fundur 207#B menntun, mannauður og hagvöxtur# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur

[13:55]

Hjálmar Árnason:

Virðulegi forseti. Svo lengi sem ég man hafa Íslendingar, einkum á hátíðum og tyllildögum, talað um gildi menntunar. Aðeins einn mælikvarði er á slíka stefnu: Hvernig eru framkvæmdir? Þær má skoða á ýmsum sviðum þjóðlífsins, hvernig hin íslenska menntastefna er.

Ég nefni í fyrsta lagi að fjárframlög hins opinbera hér hafa um áratuga skeið verið með því lægsta sem þekkist í löndum OECD og þar er sekt allra stjórnmálaflokka söm.

Ég nefni í öðru lagi að enn þann dag í dag er verið að ráða kennara sem hafa nánast enga framhaldsmenntun í þeim greinum sem þeim er ætlað að kenna nemendum sínum. Laun eru ekki til þess að laða hæfasta fólkið að skólum landsins.

Ég nefni í þriðja lagi að um árabil hefur það tíðkast að fjömiðlar og foreldrar hafa haldið uppi neikvæðri umræðu um skólafólk og skólastarf með þeim afleiðingum m.a. að virðing nemenda fyrir starfinu dvínar og langt er komið með að brjóta niður sjálfsvirðingu kennarastéttarinnar.

Ég nefni í fjórða lagi að aðilar vinnumarkaðarins og skólar hafa einangrast hvor frá öðrum og ríkir jafnvel tortryggni á milli þeirra, enda er staða starfsmenntunar hér á land til skammar og smánarblettur.

Ég nefni í fimmta lagi að símenntun íslenskra fyrirtækja er 0,12% af launaveltu. Það land í Evrópu sem næst kemur hefur 0,79%, Grikkland, en Danir og Þjóðverjar til samanburðar hafa 5%, enda framleiðni íslenskra fyrirtækja afar lág.

Þessi dæmi segja okkur að á borði er skilningur á menntun sem tæki til framfara takmarkaður hér á Íslandi meðal stjórnmálamanna og þjóðarinnar. Það er þessi tvískinnungur sem er þjóðarböl. En ég fagna og þakka hæstv. menntmrh. fyrir það framtak að beita sér fyrir þessari skýrslu. Ég trúi því að hún geti orðið gott vopn fyrir skilningi á því að menntun sé forsenda fyrir framförum á Íslandi.