Menntun, mannauður og hagvöxtur

Þriðjudaginn 25. febrúar 1997, kl. 13:58:08 (3894)

1997-02-25 13:58:08# 121. lþ. 77.95 fundur 207#B menntun, mannauður og hagvöxtur# (umræður utan dagskrár), SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur

[13:58]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Umræða um skólamál hefur verið mikil og vaxandi á síðustu árum hér á landi og er það vel. Augu manna hafa opnast enn betur fyrir því að það skiptir sköpum fyrir velferð þjóðarinnar og lífskjör hennar í framtíð að forgangsraðað sé í þágu menntunar og þá dugar ekkert annað en það besta okkur til handa.

Á undanförnum árum hafa stjórnvöld lagt stóraukna áherslu á að bæta menntun í landinu. Ný lög hafa verið sett um grunn- og framhaldsskóla þar sem áhersla er á að lengja skólatímann, nýta hann betur, gera meiri kröfur til árangurs í skólakerfinu, auka fjölbreytni í framhaldsmenntun, einkum starfsmenntun en þar stöndum við öðrum þjóðum að baki.

Í kjölfar nýrrar lagasetningar hefur almenningur fengið meiri upplýsingar um skólastarf og árangur þess en áður hefur tíðkast. Tækniframfarir setja nú svipmót sitt á veröldina. Þær breytingar á atvinnuháttum sem þeim fylgja krefjast skjótrar aðlögunar vinnuaflsins að tækninýjungum. Leggja þarf aukna áherslu á tengsl menntunar og atvinnulífs. Starfs- og endurmenntun verður æ gildari þáttur í menntakerfinu og rekstri fyrirtækja. Það er liðin tíð að menn mennti sig til lífstíðar í eitt skipti fyrir öll. Nú er nauðsynlegt að einstaklingarnir geti tileinkað sér nýja þekkingu og tækni og nýtt hana í starfi.

Samkeppnisstaða og hagsæld þjóða ræðst í ríkum mæli af öflugri rannsóknarstarfsemi og nýtingu þekkingar og tækni í atvinnulífinu. Enginn vafi er á því að þær þjóðir sem lagt hafa kapp á góða menntun, einkum á lægri skólastigum, skara nú fram úr á ýmsum sviðum og hefur tekist að öðru jöfnu að auka framleiðni og þar með tekjur á mann. Með öðrum orðum er beint samband á milli menntunarstigs þjóða og efnahagslegrar hagsældar.

Við Íslendingar verðum að meta menntun betur til launa en gert er í dag því þrátt fyrir allt þarf fólk viðurkenningu á því að menntun borgi sig. Menntun og gæði hennar er undirstaða allra framfara og sterkasta vopnið til að byggja upp öflugt atvinnulíf þjóðinni til hagsældar og gagns.