Menntun, mannauður og hagvöxtur

Þriðjudaginn 25. febrúar 1997, kl. 14:00:35 (3895)

1997-02-25 14:00:35# 121. lþ. 77.95 fundur 207#B menntun, mannauður og hagvöxtur# (umræður utan dagskrár), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur

[14:00]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Um hvernig menntun biður atvinnulífið og fyrir hvaða þekkingu er það tilbúið að borga? Íslenskt atvinnulíf byggir enn fyrst og fremst á nýtingu auðlinda náttúrunnar. Landbúnaður og sjávarútvegur virðast hins vegar, líka þegar horft er til umheimsins, gera minni menntunarkröfur en t.d. iðnaður og þjónusta ýmiss konar. Hagsaga heimsins birtir okkur líka þá mynd að það sem mestu ráði um auðlegð þjóðarinnar sé mannauðurinn, menntun og menning fólksins en ekki endilega auðlindir náttúrunnar. Við höfum byggt hagvöxt okkar á því að sækja fastar í auðlindir sjávar og færa út landhelgina. Í kjölfar þeirrar kreppu sem hófst árið 1987 og stóð allt fram á síðustu ár, og orsakaðist m.a. af lækkandi fiskverði og minnkun þorskstofnsins, hefur okkur hins vegar orðið ljósar að góð og batnandi lífskjör í landinu verða í framtíðinni því aðeins tryggð að við finnum okkur og þróum aðrar arðbærar atvinnugreinar við hlið hinna hefðbundnu. Þær atvinnugreinar verða að byggja á mannauði, á þekkingu því við verðum að líta til þess að lífskjörin hér almennt verði samkeppnishæf við það besta. Spurningin er hvernig við getum hraðað þróuninni, hvernig við getum ýtt undir vöxt þeirra atvinnugreina sem krefjast þekkingar og eru tilbúnar að greiða fyrir hana.

Við jafnaðarmenn höfum flutt frv. til laga um skattívilnanir handa þeim sem leggja fjármuni til menningarmála og vísindalegrar rannsóknarstarfsemi. Það er ein þeirra leiða sem mælt er með til að örva nýsköpun. Það er auðveldast í bili, herra forseti, að leggja áfram fjármuni í fortíðina til að viðhalda óbreyttu ástandi. Þá tilhneigingu sjáum við hjá ríkisstjórninni. Það sjáum við á framlögum til menntunar og rannsókna. En hversu lengi verður það ástand óbreytt? Það er full ástæða til að óttast að sú byggðaröskun sem stjórnvöld reyna að hamla með óbreyttri atvinnustefnu muni þá ekki aðeins ná til landsbyggðarinnar heldur til Íslands alls.