Menntun, mannauður og hagvöxtur

Þriðjudaginn 25. febrúar 1997, kl. 14:05:24 (3897)

1997-02-25 14:05:24# 121. lþ. 77.95 fundur 207#B menntun, mannauður og hagvöxtur# (umræður utan dagskrár), TIO
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur

[14:05]

Tómas Ingi Olrich:

Virðulegi forseti. Skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um menntun, mannauð og hagvöxt er velkomið framlag til umræðunnar um menntamál. Í raun er langur aðdragandi að þeim vandamálum sem rýr tengsl milli atvinnulífs og menntakerfis skapa. Á fjölmörgum sviðum er nú verið að taka á þessum vandamálum með nýjum og sérstökum hætti. Í framhaldsskólalögunum hefur verið tekið á þeim vanda sem samstarf atvinnulífs og skólakerfis er og er þar gert ráð fyrir auknu aðhaldi og ytra og innra eftirlit er líka styrkt. Innan kennaramenntunarstofnana þjóðarinnar er verið að efla faglegt eftirlit og faglega kennsluþætti.

Ég vil í þessari umræðu einnig vekja athygli á því að nú er verið að styrkja þann þátt sem fjarskipti og upplýsingar hafa í menntakerfi okkar á uppbyggingu menntakerfisins. Á þessu sviði hefur verið mikið unnið á vegum ríkisstjórnarinnar. Stefnumörkun hefur verið kynnt í þessum efnum og menntmrn. hefur með útgáfu sérstaks plaggs, sem heitir Í krafti upplýsinga, kynnt sína stefnu á þessu sviði.

Að mörgu leyti stöndum við mjög vel að vígi á sviði upplýsinga og fjarskipta og getum styrkt okkar menntakerfi afar vel með því og höfum þegar sótt fram á við í þeim efnum. Ég vil vitna til þess að þrátt fyrir hlutfallslega smæð okkar skólastofnana þá hefur tekist að gera þær mjög virkar á þessu sviði. Í þessu sambandi ætla ég að nefna sérstaklega að 88% safna á höfuðborgarsvæðinu veita aðgang að margmiðlunargögnum og 80% safna á landsbyggðinni. Þetta, borið saman við stöðuna í fjölmörgum Evrópuríkjum, er einstakt. Þessi uppbygging er á fullri ferð og hún heldur áfram og styrkir mjög stöðu þessara safna til að styrkja menntakerfið í heild.