Menntun, mannauður og hagvöxtur

Þriðjudaginn 25. febrúar 1997, kl. 14:14:44 (3901)

1997-02-25 14:14:44# 121. lþ. 77.95 fundur 207#B menntun, mannauður og hagvöxtur# (umræður utan dagskrár), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur

[14:14]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil þakka þessar umræður. Það er fast að orði kveðið að segja að ekki hafi verið lagt neitt fé í verknám og ekki sé verið að gera það þegar teknir hafa verið í notkun á undanförnum mánuðum tveir skólar sem eru hvað best búnu verknámsskólarnir á öllum Norðurlöndunum, annars vegar í matvælagreinum og hins vegar í bílgreinum og að það sé til marks um að menn hafi ekki áhuga á að efla hér verknám er náttúrlega algjörlega út í hött hjá hv. þm. eins og ýmislegt annað sem kemur fram þegar menn fara að hallmæla hvernig staðið er hér að menntakerfinu. Það er algjörlega órökstutt að gagnrýna með þeim hætti sem hér hefur komið fram. Það hefur verið staðið markvisst að uppbyggingu menntakerfisins innan þess ramma sem fjárhagur ríkisins hefur leyft á hverjum tíma. Það er unnið metnaðarfullt starf í skólunum og varðandi verknámið þá hafa skapast algjörlega nýjar forsendur á undanförnum mánuðum til þess að sinna því.

Ég vil aðeins í lokin, herra forseti, draga fram það sem Hagfræðistofnun leggur áherslu á þegar hún tekur til þeirra atriða sem leggja beri áherslu á til að auka hagvöxt með góðri menntun. Það er að leggja áherslu á að auka gæði menntunar en ekki fjölda prófgráða svo sem með lengra skólaári, bættu námsefni og betur menntuðum kennurum. Hvetja nemendur til dáða með einhvers konar umbunarkerfi. Efla öll skólastig og rannsóknir innan þeirra, þó þannig að arðsemi mismunandi tegundar menntunar sé að einhverju leyti höfð til hliðsjónar, sérstaklega á framhalds- og háskólastigi. Efla atvinnugreinatengda menntun og starfsþjálfun. Hvetja til að launþegum sé greitt í samræmi við menntun sína og hæfileika og gera þannig menntun eftirsóknarverðari fyrir einstaklinginn en hún er nú. Styrkja rannsóknar- og þróunarstarf fyrirtækja almennt, t.d. með skattívilnunum en ekki með sértækum aðgerðum. Leita leiða til að auka beina erlenda fjárfestingu fyrirtækja sem mundu stunda rannsóknar- og þróunarstarf innan lands. Afnema viðskiptahindranir til að auðvelda sem mest flutning þekkingar til landsins. Og beina heilsugæslu- og forvarnastarfi að yngstu kynslóðunum til að tryggja að heilbrigði og góð menntun eigi samleið.

Þetta eru mjög mikilvægir þættir í skynsamlegri menntastefnu. Og eins og ég sagði í upphafsræðu minni mun ég taka mið af því í mínum störfum sem menntmrh.