Atvinnuleysistryggingar

Þriðjudaginn 25. febrúar 1997, kl. 14:32:40 (3905)

1997-02-25 14:32:40# 121. lþ. 77.8 fundur 171. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (heildarlög) frv., 172. mál: #A vinnumarkaðsaðgerðir# frv., Frsm. minni hluta RG
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur

[14:32]

Frsm. minni hluta félmn. (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um atvinnuleysistryggingar frá minni hluta félmn.

Það er ástæða til að geta þess hér að félmn. hefur verið mjög ábyrg í umfjöllun þeirra mála sem hér koma inn í þingið eftir að hafa verið í umfjöllun nefndar. Minni hlutinn hefur hvergi látið sitt eftir í þeirri vinnu sem fram hefur farið í félmn. Að vísu vantar það þriðja frv. sem hangir með þessum vinnumarkaðsfrv. sem eru frv. til laga um atvinnuleysistryggingar, frv. um vinnumarkaðsaðgerðir og tryggingasjóður einyrkja sem er sérstakt frv. fyrir þá sem eru sjálfstætt starfandi, þ.e. þrjá hópa þeirra sem eru sjálfstætt starfandi. Það er enn þá til umfjöllunar í nefnd og ég vil geta þess hér að ég hef talið að hin réttu og góðu vinnubrögð hefðu verið að öll þrjú málin kæmu saman út úr nefndinni þar sem ef eitthvað ætti eftir að breytast í meðförum með einyrkjafrv. þá væri hugsanlegt að það hefði á einhvern hátt þurft að taka tillit til þess í frv. um atvinnuleysistryggingar. En það er mín skoðun.

Virðulegi forseti. Ég hefði óskað að sú umfjöllun, sem ég vísa hér til í félmn., hefði leitt til annarrar niðurstöðu en hér birtist. Það hefur margt verið lagfært, sérstaklega eftir samkomulag sem ríkisstjórnin gerði við ASÍ, en það hefði þurft að gera víðtækar breytingar á báðum þeim frv. sem hér eru til umræðu í dag.

Virðulegur forseti. Ég ætla að fylgja nál. úr hlaði. Þegar frumvarp til laga um atvinnuleysistryggingar kom til umræðu á Alþingi mætti það harðri gagnrýni minni hlutans. Frumvarpið bar í sér mjög neikvæða afstöðu til atvinnulausra og reyndist innihalda fjölmörg skerðingarákvæði um réttindi atvinnulausra. Í því birtist sú sýn ríkisstjórnarinnar að hinn atvinnulausi sé vandamálið, ekki atvinnuleysið sjálft sem stafar af skorti á störfum. Fólkið er gert að meginvandamáli, ekki verkefnaskorturinn. Það virðist nokkuð ljóst að við munum búa við atvinnuleysi enn um sinn og þótt hlutfall atvinnulausra sé lægra nú en þegar atvinnuleysið var mest hefur það samt mælst um og yfir 5% að undanförnu. --- Ég vek athygli þingmanna á því að sem fylgiskjal með nál. minni hlutans er að finna yfirlit frá vinnumálaskrifstofu um atvinnuleysi eins og það er skráð bæði í desember og janúar og einnig skýrslu um skráð atvinnuleysi í Reykjavík 30. nóv. 1996. Það sem er að finna í fylgiskjali minni hlutans gefur glögga mynd af stöðunni í atvinnumálum í landinu síðustu mánuðina.

Atvinnuleysið er langmest í þéttbýlinu á suðvesturhorninu og staða kvenna er verri en karla. Ríkisstjórnin sýnir enga tilburði til að bregðast við þessum staðreyndum. Í frumvarpinu birtust eingöngu kröfur á hinn atvinnulausa á meðan atvinnurekendum er ekki ætlað neitt hlutverk í atvinnuuppbyggingu, eins og algengt er hjá öðrum þjóðum, m.a. þeim þjóðum sem við lítum helst til í kringum okkur. Aukinn hagvöxtur og efling atvinnulífsins hefur ekki skilað sér í samsvarandi fjölgun starfa. Fyrirtækin virðast fremur auka vinnuna hjá þeim sem fyrir eru en leitast við að fjölga störfum.

Mig langar að geta þess hér í tengslum við þennan þátt í nál. að ég var að skoða skýrslu frá Þjóðhagsstofnun um lítil og meðalstór fyrirtæki í Evrópu og á Íslandi og starfskjör lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Þar kemur fram á einum stað að árleg fjölgun fyrirtækja er um 10% í Evrópusambandinu og að svipað hlutfall leggur upp laupana á hverju ári innan Evrópusambandsins. Athuganir Þjóðhagsstofnunar á stofnun og slitum fyrirtækja hér á landi sýna að árlega eru stofnuð um 2.200--2.500 fyrirtæki eða sem svarar til 13% aukningar. Mér fannst þetta mjög athyglisverð staðreynd sem ég hafði ekki áttað mig á. Það kemur jafnframt fram að slit fyrirtækja vegna gjaldþrots o.s.frv., nemur svipuðu hlutfalli sem þýðir þá að ef stofnuð eru 2.200--2.500 fyrirtæki hér á landi árlega þá hætta 2.200--2.500 fyrirtæki jafnframt rekstri vegna gjaldþrots. Það kemur fram hjá Þjóðhagsstofnun að ný störf verða til einkum við stofnun fyrirtækja fremur en að starfandi fyrirtæki fjölgi starfsfólki. Þetta er mjög merkileg staðreynd sem við sem hér störfum höfum kannski talið okkur hafa vissu fyrir en er hér sett fram í útdrætti úr skýrslu Þjóðhagsstofnunar. Það eru ekki að verða til fleiri störf innan fyrirtæja sem eflast og blómstra, m.a. af því að það eru komnir betri tímar og þeim hefur verið gert kleift að bæta stöðu sína með skattalækkunum og ýmsum breytingum á umhverfi sínu, heldur eru það hin nýju fyrirtæki og hreyfingin á þeim sem skapa störf.

Virðulegi forseti. Í nokkurn tíma hefur staðið til að endurskoða lög um atvinnuleysistryggingar og flestir áttu von á að þegar frumvarp til breytinga á lögunum kæmi fram væri því ætlað að efla réttindi og skapa úrbætur fyrir atvinnulaust fólk. Atvinnuleysisbætur eru hluti af því félagslega öryggisneti sem búa þarf launafólki og fjölskyldum í velferðarþjóðfélagi.

Ég vísaði til þess við fyrri umræðu þessa máls hversu ítarleg skýrsla var unnin af starfshópi um réttindi atvinnulausra sem skilað var í júní 1994. Þá var lögð mikil áhersla á það einmitt að skoða ólíka hópa, skoða stöðu annarra tryggingabótaþega, skoða stöðu ungra mæðra með lítil börn og að það hlyti að þurfa að meta það hvort ástæða væri til að skoða lengd fæðingarorlofs fremur en að skoða stöðu þeirra sem atvinnulausra á bótum eigandi að vera úti á vinnumarkaðnum eins og við höfum heyrt hér. Enn fremur var farið inn á það í þessari skýrslu að reyna að greina hópa, takast á við almannatryggingakerfið samhliða því að þessir hlutir yrðu skoðaðir. Það hefur ekki verið gert. Þetta fór á annan veg.

Í frumvarpinu var ekki að finna framtíðarsýn, það treysti ekki rétt hins atvinnulausa heldur skerti hann. Þann mikilvæga þátt að bregðast við vanda einstaklingsins í langtímaatvinnuleysi og byggja hann upp er aðallega að finna í óljósum hugmyndum í greinargerð með vinnumarkaðsfrumvarpinu. Frumvarp um atvinnuleysistryggingar vakti upp þá grundvallarspurningu hvort líta bæri á atvinnuleysisbætur sem atvinnuleysistryggingu með réttindum eða hvort um ölmusu hins opinbera væri að ræða. Frumvarp ríkisstjórnarinar ber því miður keim þess síðarnefnda og er því áratuga skref aftur á bak í réttarstöðu atvinnulausra. Mikilvægt er að halda því til haga að launafólk samdi um atvinnuleysistryggingar eftir harðvítugt verkfall árið 1955 og gaf þá eftir 1% af launum sínum í staðinn.

Í umræðunni er gjarnan rætt um allar bætur út frá svipuðu sjónarhorni en það verður að hafa það í huga að atvinnuleysistryggingar hafa sérstöðu.

Ríkisstjórnin hefur komið fram með fljótfærnislega unnin frumvörp í hverju málinu á fætur öðru, sérstaklega hvað varðar vinnumarkaðinn og minni hlutinn spyr hvað vinnist með slíkum vinnubrögðum. Frumvarp um atvinnuleysistryggingar er því miður engin undantekning frá því.

Minni hlutinn gagnrýnir það harðlega að í annað sinn sé lagt fram frumvarp sem snýr að réttindum fólks á vinnumarkaði með valdboði og án raunverulegs samráðs við verkalýðshreyfinguna. Í fyrravor voru sett lög, einhliða af hálfu ríkisstjórnarinnar, um stéttarfélög og vinnudeilur og um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Þau vinnubrögð hafa haft mjög neikvæð áhrif á þróun kjaraviðræðna undanfarna mánuði og síst verið til að einfalda samningsferlið eða greiða fyrir kjarasamningum, eins og markmiðið var þó.

Þetta hefur komið fram í viðræðum við forustumenn verkalýðshreyfingarinnar aftur og aftur og þess vegna hefði maður talið að miðað við það að byrjað var að ræða saman þó nokkrum vikum fyrir jól þá hefði ríkisstjórnin tekið mið af þessari staðreynd áður en lengra var haldið.

En leikurinn var endurtekinn í desember með því að leggja fram frumvarp um atvinnuleysistryggingar sem mikill ágreiningur var um við samtök launafólks. Nú þegar stefnir í átök á vinnumarkaði er hlaupið til og sest yfir frumvarpið með fulltrúum ASÍ og þess freistað að gera á því viðunandi breytingar. Þetta eru vond vinnubrögð og hætta á að lögin sem sett verða reynist innantóm umgjörð og alls ekki það framfaraskref sem ný löggjöf á þessu sviði ætti að verða. Meiri hluti félmn. hafði áður kynnt tillögur sem gengu mun skemur í breytingum á frumvarpinu og þrátt fyrir þá ítarlegu yfirferð sem ég hef verið að vitna til í félmn. þá léði meiri hlutinn ekki máls á öðrum hugmyndum sem fram höfðu komið hjá minni hlutanum. Minni hlutinn telur hins vegar þær breytingartillögur sem nú eru komnar fram allar til bóta, eða réttara sagt flestar, ég undanskil tillögur um starfsmenntun í atvinnulífinu og kvennasjóðinn, og mun minni hlutinn samþykkja þær flestar. Einnig telur minni hlutinn jákvætt að opnað sé á að námsmenn og heimavinnandi geti öðlast rétt til bóta en í því efni er réttur einnig lítt skilgreindur og óljós.

[14:45]

Líka má nefna, virðulegi forseti, að eitt ákvæði hefur fallið út sem var í lögum áður sem er líka jákvætt og ég vil leitast við að halda því til haga sem jákvætt er. Það er jákvætt að bótalausa tímabilið skuli fellt út. En á það er þó að líta að um leið munu atvinnulausir missa möguleika á námskeiðahaldinu sem þeir áttu rétt á meðan þeir voru án vinnu nema til komi fjármagn sem tryggi þeim aðgang að markvissu námi og aðstöðu til að sinna félagslegu starfi og það er mjög brýnt að svo verði gert. Það eru ýmis slík markmið í vinnumarkaðsfrv. en því miður er mjög erfitt að átta sig á að hvaða leyti tekst að hrinda þeim í framkvæmd vegna þess að það er fullkomlega óljóst hvaða fjármagn á að veita til þessara mikilvægu stuðningsaðgerða. Minni hlutinn telur hins vegar að mörgu sé enn þá ábótavant í þeirri lagasetningu sem hér er að verða staðreynd.

Óbreytt er það ákvæði frv. að atvinnulaust fólk falli út úr bótakerfinu þegar það hefur verið atvinnulaust í fimm ár. Bótaréttur hefst ekki á ný fyrr en að tólf mánuðum liðnum og þá því aðeins að viðkomandi eigi a.m.k. sex mánaða vinnu að baki eftir að bótatímabilinu lauk.

Í umsögn Bandalags háskólamanna segir að með því að setja hámarkstíma atvinnuleysisbóta í fimm ár þrátt fyrir að hinn atvinnulausi hafi e.t.v. engar úrbætur fengið í atvinnumálum sínum feli þetta ákvæði í sér fullkomna afneitun á langtímaatvinnuleysi.

Í sama streng tekur BSRB sem segir að verði bótatímabil stytt í fimm ár verði jafnframt að gera þá kröfu á hendur samfélaginu að réttur til atvinnu eða viðunandi úrræða verði tryggður.

Í umsögn Reykjavíkurborgar segir um þetta ákvæði að með lögfestingu þessarar breytingar muni þeir sem lengst hafa verið atvinnulausir, þ.e. fimm ár eða lengur, í raun missa bótarétt sinn. Með þessum hætti sé verið að vísa þeim einstaklingum á framfærslu sveitarfélaga og þá um leið verið að auka fjárhagsbyrðar þeirra. Í sama streng taka önnur sveitarfélög sem sendu inn umsögn.

Erfiðast fyrir hinn atvinnulausa er þó að reglur um fjárhagsaðstoð hafa ekki verið samræmdar hjá sveitarfélögum og mikil óvissa því samfara að missa bótaréttinn eftir því hvar á landinu viðkomandi býr. Þetta er mjög stórt mál og ég leyfi mér, virðulegi forseti, að minna á það hér, meðan ég er að fylgja nál. úr hlaði, að ekki eru nema u.þ.b. fimm ár síðan sett var rammalöggjöf um félagsþjónustu sveitarfélaga. Sú rammalöggjöf tók við af úreltri löggjöf um framfærslu frá 1942, ég held að rétt sé með farið, og þessi löggjöf um félagsþjónustu sveitarfélaga gaf íbúunum í fyrsta sinn lögbundinn rétt til stuðnings og aðstoðar hjá sveitarfélaginu sem það bjó í. Þetta eru lög um víðtæk réttindi en hvað varðar fjárhagsaðstoð sem slíka þá er sveitarfélögunum í sjálfsvald sett að setja sérreglur um fjárhagsaðstoð. Auðvitað er gert ráð fyrir því að á þeim árum sem hafa liðið hafi sveitarfélögin beitt sér í þessu efni, búið til afmarkaðar og skýrar reglur og það hafa mörg þeirra gert en ljóst er að mjög mismunandi er hvernig reglurnar eru og hver réttur íbúans er.

Ég get nefnt það af því við vorum mörg sem störfum á Alþingi á ráðstefnu hjá Umhyggju, Samtaka félags langveikra barna, sl. laugardag. Þar kom fram að mjög misjafnt er hvernig sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, hér á þéttbýlissvæðinu, fara í raun með mat á því sem kallast tekjur fjölskyldunnar og var m.a. bent á að í mínu sveitarfélagi væru umönnunarbætur sem foreldri fær til að sinna langveiku barni flokkaðar sem tekjur þegar verið væri að meta framfærsluþörf fjölskyldunnar.

Í áliti sem ég nefndi áðan frá 1994 er lögð mikil áhersla á að áður en lög verði sett um atvinnuleysistryggingar og úrbætur verði búið að ganga frá því að samræma reglur sveitarfélaga eins og unnt er, alla vega tryggja rétt íbúanna til fjárhagsstuðnings og fjölskylduaðstoðar þegar sverfur að. Þetta hefur heldur ekki gerst.

Minni hlutinn telur að skilgreina eigi hópa langtímaatvinnulausra og setja í lög hvernig bregðast eigi við ólíkum hópum. Í hópi atvinnulausra eru til að mynda óvinnufært fólk, sumt hvert vegna sjúkdóma eða einhverra alvarlegra annmarka og þessu fólki þarf að beina ákveðið og faglega inn í tryggingakerfið. Í skýrslu starfshópsins sem ég gat um áður var líka lögð áhersla á að atvinnuleysisbótakerfið væri fyrir þá sem eru atvinnulausir í atvinnuleit og ekki fyrir aðra. Að kanna hverjir ættu fremur að vera á öðrum bótum en atvinnuleysisbótum. Starfshópurinn lagði til að endurskoða ætti örorkuhugtak almannatryggingalaganna eins og ég hef vikið að. Aðrir hópar atvinnulausra þurfa markvissa þjálfun áður en þeim er beint inn á vinnumarkaðinn. Enn aðrir þarfnast endurmenntunar svo þeim sé unnt að sækja inn í ný störf. Það verður að tryggja atvinnulausum slíka skólun eða þjálfun og þá leið hafa nágrannaþjóðir okkar valið.

Ég hef afar oft staðið í þessum ræðustól, virðulegi forseti, og minnt á þennan mikilvæga þátt og hversu starfsmenntun og símenntun er mikilvæg fyrir vinnumarkað okkar og vegna þróunar á vinnumarkaði fyrir utan það þegar þeir sem verða atvinnuleysi að bráð þurfa á skólun að halda til að geta tekist á við ný störf. Mér finnst ástæða til að nefna tvö atriði án þess að fara dýpra í það í þessu stutta inngangserindi meðan ég fylgi nál. úr hlaði. Norðmenn tóku þá stefnumarkandi ákvörðun að ungt fólk ætti ekki að vera á atvinnuleysisbótum. Þeir gerðu það ekki með því að koma með frv. eins og þetta og segja: Þeir sem eru yngri en 18 ára eiga ekki að fá atvinnuleysisbætur. Þeir gerðu það með því að fara í markvissar aðgerðir fyrir ungt fólk. Tryggja að ungt fólk væri annaðhvort í námi, í starfsþjálfun eða í starfi og ef þess þyrfti fengi þetta unga fólk bætur eða laun meðan það væri að afla sér þessarar skólunar eða þjálfunar sem til þyrfti til að komast á vinnumarkaðinn. Þetta er pólitík. Þetta er stefnumörkun um að ungt fólk, yngra en tvítugt, eigi ekki að detta út af vinnumarkaði vegna þess að það flosnar út úr skóla, fer í vinnu, missir vinnuna og er þarna ,,af því bara``. Þetta er pólitík um að leggja áherslu á það í velferðarþjóðfélagi að ungt fólk fái eins traust og gott veganesti og unnt er. Þetta er munurinn á viðhorfi annars staðar og þess anda sem ríkti í frv. félmrh. sem við erum að fjalla um. Það hefur verið hopað frá því að yngri en 18 ára fái ekki atvinnuleysisbætur en einungis er hopað undan þrýstingi í skjóli átaka á vinnumarkaði. Það er ekki verið að bregðast við af einhverri reisn.

Ég vil líka nefna annað. Í Danmörku þar sem hefur verið víðtækt atvinnuleysi hafa menn farið þá leið að hjálpa fólki til að komast í störf í sex mánuði í trausti þess að á þeim sex mánuðum nái þetta fólk fótfestu, verði eftirsóknarverðir starfsmenn og fái starf áfram. Það kom fram í máli fulltrúa Bandalags háskólamanna á fundi félmn. að reynslan er sú að þegar staða þeirra sem höfðu fengið slík störf í sex mánaða tilraunaverkefni var skoðuð eftir 18 mánuði, þeirra sem voru háskólamenntaðir, voru 75% þeirra enn þá í starfi. Ég veit að vísað verður til þess hér á eftir að úrræði séu í vinnumarkaðsfrv. Ég get ekki rætt það nú, það á eftir að mæla fyrir nál. minni hlutans um vinnumarkaðsfrv. og mun koma nánar að því síðar en ég legg áherslu á að öll þau úrræði sem þar eru nefnd eru fljótandi og í lausu lofti. Hvergi er unnt að sjá hvort á að veita fjármagn til þeirra úrræða sem til þarf. Það er punctum saliens í þessum málum.

Minni hlutinn gagnrýndi það harðlega við fjárlagagerðina að liðirnir Starfsmenntasjóður og Atvinnumál kvenna sem hafa hingað til verið sjálfstæðir fjárlagaliðir voru felldir undir Atvinnuleysistryggingasjóð. Samkvæmt brtt. meiri hlutans með frv. til laga um atvinnuleysistrygginar er sú breyting lögfest. Það er sem sagt verið að passa upp á að setja inn lagaákvæði í brtt. með frv. að innan Atvinnuleysistryggingasjóðs eigi þessir þættir --- starfsmenntun í atvinnulífinu og kvennasjóðurinn --- heima. Með því er horfið frá grundvallarhugsun laganna um starfsmenntun í atvinnulífinu sem byggir á hugmyndafræðinni um sí- og endurmenntun fólks á vinnumarkaði. Minni hlutinn telur þessi vinnubrögð algjörlega óviðunandi.

Það eru ekki ýkjamörg ár síðan lög um starfsmenntun í atvinnulífinu voru sett. Ætli það hafi ekki verið 1989 eða 1990. Þetta var mikið framfaraspor og í lögunum er Starfsmenntasjóðurinn festur í sessi. Hann hefur ekki ýkjamiklar fjárhæðir. Ég held ég muni rétt að hann hafi 48 millj. til ráðstöfunar á þessu ári en umsóknir í hann núna eru upp á 160 millj. Hins vegar þó hann hafi ekki haft nema um 50 millj. á ári hefur hann ár hvert veitt ótrúlegum fjölda einstaklinga styrki til starfs- og endurmenntunar. Ég man að ég skoðaði þetta fyrir svona fjórum árum og þá voru um níu þúsund manns búin að fá á einhverjum tíma stuðning eða styrki úr þessum sjóði. Það er afskaplega mikilvægt að hafa slík úrræði til staðar og vera meðvitaður til hvers þau eru og hafa pólitíkina á hreinu sem snýr að starfsmenntun og fyrir hvað starfsmenntunin stendur. Að dengja sjóðunum inn í Atvinnuleysistryggingasjóð þar sem þeim, ég fullyrði, er hætta búin. Það er fávíslegt og það er gagnrýnivert.

Litli sjóðurinn sem veitt hefur verið úr til atvinnumála kvenna hefur verið konum í eigin atvinnurekstri mjög mikilvæg stoð þó framlög væru lág og skilyrt. Þetta eru konur sem hafa verið að leitast við að setja á fót lítil fyrirtæki, ekki síst á svæðum eins og Austfjörðum og víðar þar sem var mjög víðtækt atvinnuleysi kvenna. Oft voru þær saman um húsnæði og það var alveg ótrúlegt að sjá hvaða hugkvæmni og frumkvæði var að finna hjá þessum konum. Upphæðirnar voru ekki stórar, þær voru kannski 150--200 þús. kr. til hverrar en það skipti samt sköpum að þær gátu gert þetta. Þær voru ekki að taka peninga frá heimilinu, matarpeningana hreinlega, til að reyna að fara af stað með eitthvað.

Ég veit að festar eru í sessi fjárhæðir í fjárlögunum í ár upp á 65 millj. til beggja þessara sjóða samanlagt og það er sagt að halda eigi áfram að veita úr þeim í Atvinnuleysistryggingasjóðnum en það er skoðun minni hlutans að þessum mikilvægu sjóðum sé hætta búin í Atvinnuleysistryggingasjóðunum því sú skoðun hefur komið fram hjá hugmyndasmiðum frv. að ríkið eigi ekki að kosta námskeið annarra en atvinnulausra. Starfsmenntasjóður og kvennasjóðurinn eiga þar að auki alls ekki heima undir Atvinnuleysistryggingasjóði að mati minni hlutans.

Virðulegi forseti. Alþingi er ekki ætlað að kjósa fulltrúa í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs samkvæmt þessu frv. Nýlega var afgreitt frv. um Landsvirkjun þar sem samsvarandi breyting var gerð um kjör í stjórn. Þess vegna er ástæða til að spyrja hvort ríkisstjórnin eða stjórnarflokkarnir séu búnir að marka þá stefnu að Alþingi hætti að kjósa fulltrúa í stjórnir og ráð á vegum ríkisins. Því sé svo þá hefur sú stefnumörkun ekki verið kynnt en fróðlegt fyrir okkur að vita hvort það sé sú stefna sem muni birtast í frv. sem lúta að þeim stofnunum þar sem Alþingi hefur hingað til kosið fulltrúa í.

[15:00]

Ég er ekki hér og nú að setja fram einhverja skoðun á því hvort Alþingi eigi endilega að halda þessu áfram eða hvort það sé slæmt að fellt sé úr einhverju ákveðnu frv. eða lögum að Alþingi kjósi fulltrúa. En þannig hefur þetta verið og sé verið að hverfa víðtækt frá slíku, þá finnst mér að það eigi að ræða það á Alþingi og kynna það sérstaklega og leyfa okkur að taka umræðu þar um.

Ríkisstjórnin ætlar að spara með þessu frv. Það átti að henda ungu fólki út úr kerfinu, það átti að lækka bætur hinna lægst launuðu og það átt að koma í veg fyrir meinta misnotkun kerfisins. Nú hafa verið gerðar breytingar á frv. sem koma í veg fyrir þessi hæpnu áform. Ég bendi á að brtt. sem frsm. meirihlutaálitsins vísaði til eru allar í þessa átt og ég ætla að leyfa mér, virðulegi forseti, að renna yfir nokkrar þeirra eins og þær birtast mér.

Bótaréttur mun miðast við 16 ár eins og áður, ekki 18 ár. Það er fellt út að fólk fái ekki bætur fyrstu tvær vikurnar sem það er atvinnulaust. Sá biðtími mun verða þrír dagar eins og áður. Það er fellt út að þeir sem sagt hafa starfi lausu eða eiga sök á að hafa misst vinnuna sem þeir voru í verði bótalausir í 55 daga. Þeir dagar verða áfram 40 eins og var í lögum.

Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs er heimilt að setja reglur um að þeir sem hætta námi fyrir lok námsannar skuli eiga bótarétt undir sérstökum kringumstæðum í stað þess að réttur til bóta samkvæmt þessum tölulið átti að falla niður í jafnlangan tíma og eftir stóð af námsönn og bótatími átti að skerðast sem því nam.

Það er fellt brott að bótaréttur sé háður því að tekjur hafi ekki verið hærri að meðaltali en sem nemur tvöföldum atvinnuleysisbótum og það er fellt út að hækka megi bótafjárhæð allt að 3% á bótatímabilinu. Það var mjög gagnrýnt að ríkisstjórnin væri að ákveða með lögum að jafnvel þó að forsendur breyttust mættu bótafjárhæðir ekki hækka meira en 3%. Nú verður slíkt endurskoðað með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála.

Það er fellt brott að tímabil sem atvinnulaus tekur þátt í úrræðum teljist til bótatímabils. Til að skýra út hvað það þýðir, þá þýðir það að viðkomandi gat verið allan bótatímann á svokölluðu úrræði sem er eins konar vinna. Fyrir hann væri greitt tryggingagjald en samt væri bótaþeginn eða launþeginn sem í úrræðinu tæki þátt réttlaus eftir að hafa verið allan tímann í vinnu samkvæmt slíku úrræði.

Því er ekki breytt, virðulegi forseti, að það geti varðað missi bótaréttar að hafna vinnu fjarri heimili. Það er mjög mikilvægt að vel verði farið með það ákvæði. Þeir sem telja að þetta ákvæði sé í lagi eru alveg sannfærðir um að það verði farið varlega með það, en með þessu ákvæði væri hægt að brjóta mjög á einstaklingi í atvinnuleit.

Ég vil líka geta þess að málskotsrétti er breytt úr tveimur vikum í þrjá mánuði. Og ég vil leggja áherslu á það enn á ný að fimm ára hámarksbótaréttur er óbreyttur og gagnrýni okkar, virðulegi forseti, ég vil ljúka yfirferð nefndarálits míns á því að gagnrýni okkar er ekki um að við viljum að atvinnulaus geti verið á bótum atvinnuleysistrygginga í 5, 7, 10 eða 12 ár, aldeilis ekki. Við teljum hins vegar að það sé skylda í velferðarþjóðfélagi eins og okkar að búa til tryggingarnar fyrst. Það skuli vera alveg ljóst hvað tekur við að loknu bótatímabili því að eins og hér hefur komið fram er verið að vísa fólki á miðjum aldri út af vinnumarkaði með þessu fimm ára hámarki. Og það er kannski fyrst og fremst verið að vísa konum milli fimmtugs og sextugs út af vinnumarkaði með þessu hámarksákvæði því í ljós hefur komið að það er langmest um að ófaglærðar konur á aldrinum fimmtugs til sextugs séu stórir hópar atvinnulausra. Þessar konur eru enn þá vel innan við sextugt þegar þær eru búnar með þessi fimm ár og takist ekki til með úrræði þeim til handa er verið að vísa þeim út úr bótaréttinum án þess að nokkuð sé skilgreint hvað í velferðarþjóðfélaginu taki við annað en fjárhagsaðstoð sveitarfélaga.

Virðulegi forseti. Nokkrar þessara brtt. voru komnar fram af hálfu meiri hlutans í félmn. en flestar þeirra urðu til núna rétt fyrir helgina eftir samráð ASÍ og félmrn. Af hálfu ráðuneytisins var hins vegar ekki haft samráð við önnur launþegasamtök, ekki einu sinni þau sem áttu fulltrúa í nefndinni eins og BSRB og við höfum gagnrýnt það.

Ég vil líka að lokum, virðulegi forseti, láta það koma fram að í umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga segir, með leyfi forseta:

,,Eftir 5 ára bótatímabil hefst bótaréttur ekki fyrr en a.m.k. eftir 12 mánuði enda eigi viðkomandi þá a.m.k. að baki 6 mánaða vinnu eftir að bótatímabili lauk. Nú er bótalaust tímabil 16 vikur og með þátttöku í átaksverkefnum eða námskeiðum hefur bótatímabil getað fallið saman.

Með lögfestingu þessara breytinga um skerðingar á bótarétti er þeim sem þeirra hafa notið að stórum hluta vísað á framfærsluúrræði sveitarfélaganna. Fjárhagsbyrðar sveitarfélaganna munu því aukast mjög verulega verði frv. að lögum.

Því er beint til félmn. Alþingis að hún láti fara fram ítarlega skoðun á fjárhagslegum afleiðingum þeirra breytinga sem frv. gerir ráð fyrir og að sérstaklega verði könnuð áhrif þess á fjárhag sveitarfélaganna.``

Virðulegi forseti. Ég verð því miður að upplýsa hér að ekki liggur fyrir úttekt á því hvaða áhrif þessi ákvæði munu hugsanlega hafa á fjárhag sveitarfélaganna. Mér liggur meira á hjarta, virðulegi forseti, varðandi þessi mál. Ég vil rifja upp að þegar mælt var fyrir þessum málum þá óskaði félmrh. eftir því að fá að mæla fyrir báðum frumvörpunum saman og umræða yrði tekin um málin saman. Minni hlutinn lagðist gegn því fyrst og fremst vegna þess að ekki hafði verið um þetta rætt og minni hlutinn var því óviðbúinn að ræða málin saman. Hins vegar gerðum við okkur mjög vel grein fyrir því að það hefði verið æskilegt að vinna málið þannig og þess vegna var það að frumkvæði okkar nú að leggja til að frv. um atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir yrðu rædd saman því að þetta eru samfléttuð mál og nærri því óframkvæmanlegt að ræða annað án þess að koma inn á hitt.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.