Atvinnuleysistryggingar

Þriðjudaginn 25. febrúar 1997, kl. 16:01:19 (3908)

1997-02-25 16:01:19# 121. lþ. 77.8 fundur 171. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (heildarlög) frv., 172. mál: #A vinnumarkaðsaðgerðir# frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur

[16:01]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var býsna merkileg ræða hjá hv. 16. þm. Reykv. og er kannski eðlilegra að kalla hana predikun því að hér kemur þessi hv. þm. sem hefur samviskusamlega ýtt á græna takkann og stutt ríkjandi ráðherra og ríkisstjórn með ráðum og dáð þrátt fyrir röfl annað slagið því þegar til kastanna hefur komið hefur hann ævinlega lotið þessu sama valdi og hann lýsti svo snautlega áðan, þ.e. ráðherravaldinu, valdi hagsmunasamtaka úti í bæ. Ekki hef ég heyrt þennan sama hv. þm. ræða mikið um vald Verslunarráðsins sem situr t.d. vikum saman yfirleitt í nóvember og desember þegar menn eru að setja saman fjárlög og skattareglur komandi árs --- hann situr nefnilega, hv. þm., í efh.- og viðskn. --- ég hef ekki heyrt hann tala um það. En nú kemur hann líkt og faríseinn forðum, og telur mikilvægt að hv. alþingismenn haldi ró sinni og hlutlægni gagnvart þessum þrýstihópum úti í bæ. Ég nefndi Verslunarráðið. En nú bregður svo við þegar allt í einu samtök fólksins í þessu landi vilja láta til sín taka og í sér heyra um hagsmuni sinna skjólstæðinga, þá á allt í einu að skella við skollaeyrum.

Ég segi enn og aftur, virðulegi forseti. Það væri þá ástæða til og eftir því kallandi að hv. þm. framkvæmdi í anda þeirra orða sem hann fór með hér áðan en léti vera að halda einhvers konar farísearæður á borð við þær sem hann lét yfir okkur dynja rétt í þessu.