Atvinnuleysistryggingar

Þriðjudaginn 25. febrúar 1997, kl. 16:04:47 (3910)

1997-02-25 16:04:47# 121. lþ. 77.8 fundur 171. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (heildarlög) frv., 172. mál: #A vinnumarkaðsaðgerðir# frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur

[16:04]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hygg að hv. þm. hljóti að hafa fylgst með því í umræðum þings á síðustu tveimur árum hvaða stjórnmálaöfl það eru sem hafa einmitt lagt áherslu á þetta meginatriði, þennan rauða þráð um aðskilnað löggjafarþingsins annars vegar og framkvæmdarvaldsins hins vegar og svo aftur gagnvart þrýstihópum úti í bæ. Það eru ekki hans flokksmenn, það eru ekki sjálfstæðismenn hér á landi sem hafa haldið því til haga. Nei, það eru sko allt aðrir. Það eru jafnaðarmenn í landinu, þannig að hv. þm. í því sambandi er á vitlausum vistarstað. Ekki það að ég sé að kalla eftir honum í okkar hóp því (Gripið fram í.) ýmislegt annað gerir hann taglhnýting þeirra almennu viðhorfa einkareksturs og frjálshyggju sem ég vil ekki sjá eða heyra.

Það sem er merkilegt er þetta: Við vitum auðvitað hvernig gangur mála er í þinginu og hvernig stjórnarfrv. koma inn í þingið. Þau koma í stjórnarflokkana og ég hef sjaldnast heyrt það við 1. umr. að hv. þm. Pétur Blöndal hafi sett hnefann í borðið og sagt: Hingað og ekki lengra. Ég tek ekki við fleiri skipunum frá ráðherrum þessarar ríkisstjórnar eða frá þrýstihópum úti í bæ. Ég heyri það ekki oft og hafi það farið fram hjá mér, þá bið ég hann að rifja það þá upp fyrir mig.