Atvinnuleysistryggingar

Þriðjudaginn 25. febrúar 1997, kl. 16:13:22 (3916)

1997-02-25 16:13:22# 121. lþ. 77.8 fundur 171. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (heildarlög) frv., 172. mál: #A vinnumarkaðsaðgerðir# frv., Frsm. meiri hluta SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur

[16:13]

Frsm. meiri hluta (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var mjög merkileg ræða sem var flutt áðan af hv. þm. Pétri Blöndal. Fór hann stórum orðum um að Alþingi væri að framselja vald sitt. Segja má að það sé rétt að einhverju leyti að framkvæmdarvaldið hefur mikil áhrif og hagsmunasamtök úti í bæ, eins og hv. þm. kaus að orða það, hafa líka mikil völd og minnir mig á tillögu sem ég hef flutt um að ráðherrar eigi ekki að sitja sem þingmenn líka, sem hefur reyndar fallið í frekar grýttan jarðveg hér. En það var okkar val að fara þessa leið sem við gerðum í meiri hluta félmn. Og það er alveg rétt að ASÍ hafði áhrif á okkar afgreiðslu. ASÍ sendi mjög ítarlega umsögn inn til nefndarinnar og færði mjög sterk rök fyrir sínu máli og hafði unnið þetta afar vel. Við tókum tillit til ýmislegs þar. Við hefðum hins vegar getað sleppt því að taka tillit til raka ASÍ en við kusum sjálf að fallast á ýmsar athugasemdir sem þeir gerðu. Það er í okkar tillögum sem við lögðum hér fram og það er rétt sem hv. þm. Pétur Blöndal segir, hann er með fyrirvara um málið en það er einungis um eitt atriði þannig að væntanlega mun hv. þm. samþykkja önnur atriði.

En ég vil að það komi hér skýrt fram að þetta er okkar val þannig að við getum ekki algerlega sagt að við séum að framselja valdið úti í bæ. Það er ekki rétt. Við völdum að fara þessa leið sjálf í félmn. og meiri hlutinn stendur að tillögunum með þó þessum eina fyrirvara hv. þm. Péturs Blöndals. Ég vil líka benda á að minni hlutinn ætlar að samþykkja þessar tillögur allar, nema eina trúlega, þannig að hér mun myndast breið samstaða um brtt. Það er Alþingi sem er að mynda breiða samstöðu um málið. Það er ekki að framselja valdið úti í bæ, að öllu leyti.