Atvinnuleysistryggingar

Þriðjudaginn 25. febrúar 1997, kl. 17:51:04 (3922)

1997-02-25 17:51:04# 121. lþ. 77.8 fundur 171. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (heildarlög) frv., 172. mál: #A vinnumarkaðsaðgerðir# frv., Frsm. minni hluta RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur

[17:51]

Frsm. minni hluta félmn. (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er mín skoðun að félmrh. skilji fullkomlega gagnrýni okkar á samráð við verkalýðshreyfinguna þó hann velji að bregðast við með þeim hætti sem hann gerir. Ég tek eftir því að ráðherrann velur að þakka meiri hluta sínum fyrir störf við þessi mikilvægu frv. Ég vil af því tilefni taka það fram að formaður félmn. hefur sýnt skínandi verkstjórn allar þær vikur sem þessi mál hafa verið í vinnslu í nefndinni og enginn sem þar hefði komið hefði getað upplifað annað en að formaðurinn væri að vinna í hina bestu þágu ríkjandi meiri hluta og ríkisstjórnar. Þetta vil ég að komi fram.

Ráðherrann vekur athygli á nafni á skjölum sem við höfum sett fram með nál. Ég hafði ekki séð þau en hitt er annað mál að ég sat langt fram eftir kvöldi í gær við að fara ofan í mín gögn til að vinna nál. Sömuleiðis í morgun og ég hringdi á vinnumálaskrifstofu og bað um Margréti Tómasdóttur en hún var á fundi og þá bað ég um þá næstu manneskju sem mér kom í huga sem var Hólmfríður Sveinsdóttir, öflug stúlka á vinnumálaskrifstofu, og bað hana að útvega mér desember- og janúarhefti yfir atvinnuleysisskráningu. Hún varð ljúflega við því og ég sagði henni að ég yrði að fá það fyrir hádegi vegna þess að nefndadeildinni lægi á að fá skjölin. Það gerði hún. Það var mat okkar í minni hlutanum, af því að við höfum svo nauman tíma til að vinna þetta, að við gætum ekki boðið nefndadeildinni upp á það að fá þessi þykku skjöl til ljósritunar á svo skömmum tíma og þess vegna tókum við það sem brýnast var. Þetta er skýring mín á skjölunum. Okkur langaði mjög að hafa allan pakkann. Ég fullvissa ráðherrann um það.

Hæstv. ráðherra vekur athygli á tölum ungra kvenna á skránni. Ég tek undir að það er athyglivert að sjá konur 30--40 ára, 162 talsins, vera á atvinnuleysisskrá 13--25 vikur. Það er annað sem vekur athygli og það er að eiginlega er jöfn tala karla og kvenna 30--40 ára sem eru atvinnulaus í 4--12 vikur en það sem ég vil vekja athygli á er að þeir sem hafa verið atvinnulausir 52 vikur eða lengur eru 167 þegar aldurinn 50 ára og eldri er tekinn.