Atvinnuleysistryggingar

Þriðjudaginn 25. febrúar 1997, kl. 18:25:24 (3932)

1997-02-25 18:25:24# 121. lþ. 77.8 fundur 171. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (heildarlög) frv., 172. mál: #A vinnumarkaðsaðgerðir# frv., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur

[18:25]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hvika ekkert frá því sjónarmiði mínu að ég tel að þetta kerfi sé í sjálfu sér mjög einfalt. Í meginatriðum ber ríkið ábyrgð á skipan þessara vinnumarkaðsmála en getur síðan falið einstökum aðilum, sveitarfélögum eða öðrum, að annast framkvæmdina og mundi þá væntanlega gera við þá samning. Hins vegar er alveg rétt hjá hv. þm. að þannig háttar til að það eru nokkur sveitarfélög í landinu, reynslusveitarfélög, sem hafa tekið yfir hluta af verkefnum sem ríkið annars annaðist, t.d. á sviði málefna fatlaðra, heilsugæslu og síðan vinnumiðlunar og fleira sem menn hafa hugsað sér að þessi sveitarfélög önnuðust. Það er ekki hugmyndin að raska því í neinum efnum enda hefði það náttúrlega verið fullkomlega óeðlilegt að standa þannig að því, svo mér finnst þetta ekki vera mjög flókið mál.

Í öðru lagi varðandi samráðið þá var ég að vekja athygli á því að í umræðunni sem fram fór á síðasta ári um skipan vinnumarkaðsmála að öðru leyti, sem miklar deilur urðu um, þá var það lykilatriði í málflutningi fulltrúa þáv. minni hluta félmn. að það ætti ekki að skipa þeim málum með lögum heldur ætti þetta að koma fram sem niðurstaða aðila vinnumarkaðarins. Ég var að vekja athygli á því að það væri auðvitað sérkennilegt að halda því fram annan daginn, og raunar í þessari umræðu, að hvetja til mikils samráðs við verkalýðshreyfinguna og þegar við stæðum síðan frammi fyrir því að taka afstöðu til frv. sem byggðist á sátt aðila vinnumarkaðarins, að þá færi minni hluti félmn. skyndilega þvert á þetta mál, þvert á vilja aðila vinnumarkaðarins í þessu máli og hvetti til þess að greiða atkvæði gegn þeirri niðurstöðu.