Atvinnuleysistryggingar

Þriðjudaginn 25. febrúar 1997, kl. 18:32:15 (3935)

1997-02-25 18:32:15# 121. lþ. 77.8 fundur 171. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (heildarlög) frv., 172. mál: #A vinnumarkaðsaðgerðir# frv., Frsm. minni hluta RG
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur

[18:32]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér hafa ágæt skoðanaskipti farið fram og áhugaverð. Mig langar að koma aðeins inn á orðaskipti hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar og formanns félmn. Það sem hann kom inn á er viðhorf stjórnarandstöðunnar á móti hinni pólitísku ábyrgð sem ríkisstjórn og stjórnarflokkar bera. Þar er pólitíska ábyrgðin á stjórnarfrumvörpum og það er grundvallarmunur á því eða viðhorfum stjórnarandstöðu til þeirra pólitísku sjónarmiða sem birtast í stjórnarfrumvarpi. Ef sjónarmið ráðherra sem er að flytja stjórnarfrumvarp er t.d. það að málum sé betur komið hjá sveitarfélögum og vinni hann samkvæmt því pólitíska markmiði þá hlýtur hann að leita eftir stuðningi við það sjónarmið hjá þeim trúnaðarmönnum sínum sem hann felur verkefni í nefndarstarfi. Niðurstaðan af vinnumálafrv. var að búa til vinnumálastofnun og flytja verkefnin frá sveitarfélagi. Þeirri niðurstöðu er ég ekki sammála. Ég hef aðhyllst þau pólitísku markmið að flytja verkefni sem snúa að fjölskyldunni og umhverfi fjölskyldunnar til sveitarfélaganna þar sem þekking er betri og þar sem ég trúi að málum sé betur fyrir komið. Hins vegar hef ég ekki, þó ég eigi sæti í félmn., það pólitíska forræði á máli sem hefði gert það kleift að fara öðruvísi af stað með það.

Ég skil vel að ráðherra félagsmála hafi talið sig á grænni grein með vinnumálafrv. enda hefur honum hugnast að ríkið tæki að sér þessi verkefni. Það breytir ekki afstöðu hans varðandi þau mál sem hann hefur keyrt hér fram í andstöðu við verkalýðshreyfinguna. Þetta er mitt sjónarmið.

Virðulegi forseti. Ég er líka á þeirri skoðun að við í minni hluta félmn. höfum haft áhrif í nefndinni. Við höfum haft áhrif á málið og eigum sjálfsagt meira í því að samkomulag varð við ASÍ um brtt. en hér kemur fram og nokkurn tímann verður kortlagt.

Virðulegi forseti. Við höfum rætt hér, eða alla vega ég í andsvörum við félmrh., nokkuð hvernig atvinnuleysisskráin birtist okkur og hefur verið vísað í skráða atvinnulausa í Reykjavík frá því í nóvember 1996. Ég ætla að leyfa mér að nefna örfá atriði sem skipta máli varðandi yfirlit um atvinnuástandið eins og það birtist nú í janúar 1997.

Nú í janúar voru 6.754 á atvinnuleysisskrá, þar af 2.963 karlar og 3.791 kona. Síðastliðna 12 mánuði voru um 5.616 manns að meðaltali atvinnulausir og er kannski ástæða til að auglýsa eftir góðærinu sem forráðamenn ríkisstjórnarinnar hafa svo mörg orð um þegar það hentar. Þegar litið er á yfirlit yfir atvinnuleysið frá janúar 1995 til janúar 1997 þá sýnir það talsverðar sveiflur. Þegar litið er á atvinnuleysistölur frá því í september sl. þá eru þær, virðulegi forseti, 3,3% í september, 3,7% í október, 4,0% í nóvember, 4,5% desember og 5,2% í janúar. Það er beint línurit upp á við í þessum tölum og þær valda mér áhyggjum. Þær valda mér verulegum áhyggjum vegna þess að mér finnst að úr þeim megi lesa að það sé kannski meiri óróleiki á vinnumarkaðnum heldur en við höfum talið. Þegar rætt er í þessu plaggi um vísbendingar um atvinnuleysi næsta mánaðar þá er bent á að ef loðnuveiðar og loðnufrysting og önnur aflabrögð í febrúar verða svipuð og í fyrra þá ætti atvinnuleysi að minnka nokkuð milli mánaða. ,,Hins vegar getur óvissa á vinnumarkaðnum nú haft áhrif á mannaráðningar,`` segir í þessu skjali félamrn. og staðfestir sú athugasemd nokkuð þau sjónarmið sem ég er hér að setja fram.

Enn eitt vil ég nefna, virðulegi forseti, varðandi atvinnuleysið og það er atvinnuleysið á Suðurnesjum. Atvinnuleysi á Suðurnesjum er um 5,5% en atvinnuleysi kvenna þar mælist nú 9,8%. Það var 6,8% í desember en er 9,8% nú og það er hvergi meira á landinu öllu. Þetta hlýtur að valda okkur áhyggjum, ekki bara mér sem er þingmaður Reykjaness og þingmaður þessa fólks, heldur öllum sem að máli koma. Þetta segir okkur að það þarf að taka markvisst á þessum málum. Það er áhyggjuefni hvernig þessi mál standa og að talað hefur verið með nokkurri léttúð um stöðuna á vinnumarkaði og að störfum sé að fjölga og úrbætur séu fram undan.

Ég ætla örlítið að koma inn á starfsmenntasjóðinn vegna þess að það er sannfæring mín að starfsmenntun í atvinnulífinu, endur- og símenntun, séu það sem til þarf að koma þó það hjálpi engan veginn. Það hjálpar ekki fólki sem er atvinnulaust ef engin störf finnast þótt við menntum það og menntum það og menntum það. Starfsmenntunin, símenntunin og endurmenntunin kemur því eingöngu til góða að það sé verið að stuðla að því að fjölga störfum, að skapa tækifæri til þess að það fólk sem hefur umskólað sig eða bætt sig á vinnumarkaði eigi möguleika á starfi. Þetta er mjög mikilvægt. Við megum aldrei gleyma því í umræðunni um þessi mál að það verða að koma störf þannig að hinn vinnandi maður eða sá sem vill vinna eigi möguleika.

En ég ætla að nefna starfsmenntasjóðinn, virðulegi forseti. Fyrir jól voru gerðar breytingar á 8. gr. laganna um starfsmenntun í atvinnulífinu, um að ráðstafa skuli ákveðnu fé á fjárlögum í sérstakan sjóð á vegum starfsmenntaráðs, það var fellt út og í staðinn kom þessi málsgrein, með leyfi forseta:

,,Félagsmálaráðherra og sjávarútvegsráðherra gera tillögur um fjárþörf vegna starfsmenntunar í atvinnulífinu að fengnum umsögnum starfsmenntaráðs og stjórnar starfsfræðslunefndar fiskvinnslunnar. Árlega skal verja fé úr Atvinnuleysistryggingasjóði til að styrkja starfsmenntun í atvinnulífinu, sbr. 4. gr., og skulu fjárhæðir ákvarðast við afgreiðslu fjárlaga ár hvert. Starfsmenntaráð fer með stjórn framlaga til starfsmenntunar.`` --- Takið eftir þessu orðalagi. En um leið og maður kemur í næstu grein í lögunum um starfsmenntun í atvinnulífinu þá segir:

,,Styrki úr starfsmenntasjóði er heimilt að veita til`` o.s.frv.

,,Umsóknir skulu`` o.s.frv.

,,Eftirtalin gögn skulu fylgja umsóknum`` o.s.frv.

Það sem ég bendi á hér er að flaustrið oft á tíðum í þessum málum er slíkt að þegar lögunum er breytt þá er ekki einu sinni haft fyrir því að lesa í gegnum lögin öll þannig að það standi ekki eftir starfsmenntasjóður sem búið er að aftengja með öllu, fyrst með ákvæðum í ríkisfjármálabandormi og síðan núna með staðfestingu á ákvæðum í þessum lögum um atvinnuleysistryggingar á meðan inni standa enn þá ákvæði sem vísa til starfsmenntasjóðs.

Virðulegur forseti. Hér hefur verið talað um starfið í félmn. Það hefur verið gott og vandað. Það verður að segjast eins og er að næstum hver einasta umsögn sem um þessi mál komu til okkar var neikvæð. Það verður að segjast eins og er að næstum hver einasti gestur sem til félmn. kom hafði áhyggjur og setti fram gagnrýni á þessi frv. Ég ætla að leyfa mér að nefna örfá atriði en ég er alveg staðráðin í því að lengja ekki þessa umræðu mikið og þess vegna mun ég aðeins stikla á stóru.

Bæjarráð Akureyrar bendir á að verið sé að auka miðstýringu og draga úr frumkvæði sveitarfélaganna með þessum frv. Og bæjarráð Akureyrar hefur verið að gera mjög miklar breytingar eins og hér hefur komið fram. Það hefur gert samninga um að taka að sér málefni fatlaðra fyrir allt Eyjafjarðarsvæðið sem reynslusveitarfélagsverkefni. Það hefur samþættað þau verkefnum sem fyrir voru og það hefur gert ráð fyrir að vinnumiðlun heyri til sömu deild og verndaður vinnustaður o.s.frv. Ég veit að búið er að bregðast við þessari gagnrýni með því að reynslusveitarfélögin fá að halda sínum verkefnum en það undirstrikar fyrir mér að sú ákvörðun að flytja verkefni frá sveitarfélaginu er ekki rétt vegna þess að þar sem sveitarfélögin hafa verið búin að fá verkefnin og þar sem gagnrýnin hefur verið hörðust þá er verið að ákveða að sveitarfélögin fái verkefnin aftur.

Hvað segir Hafnarfjörður? Flutningur verkefna frá ríkinu hefur stuðlað að auknu sjálfstæði og sjálfsforræði sveitarfélaga og án efa átt verulegan þátt í fækkun og stækkun þeirra á sl. árum. Með ákvæðum frv. er aukin miðstýring ríkisvaldsins með flóknu, þunglamalegu stjórnkerfi sem vafalaust mun auka kostnað hins opinbera. Í Hafnarfirði segja menn að þetta ákvæði, þ.e. um svæðisvinnumiðlanir, geti þýtt að þjónustu við atvinnulausa beri að sækja á eina stofnun sem þjónaði öllu Reykjaneskjördæmi og slíkt fyrirkomulag sé augljóslega óásættanlegt.

Það vitum við svo sem ekkert hvernig verður. Hafnarfjörður og Reykjanes eru reynslusveitarfélög. Öðru þeirra gæti svo sem verið falið að sjá um verkefni fyrir allt Reykjanes en andinn í breytingunum sem var verið að gera er þannig að sveitarfélögin bregðast við.

Af því að hér var vísað í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga þá segir í þeirri umsögn: ,,Flutningur vinnumiðlunar frá sveitarfélögum til ríkisins er ekki í samræmi við þróun breytinga á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga að undanförnu og markaða stefnu stjórnvalda um færslu verkefna frá ríki til sveitarfélaga. Með stofnun svæðisvinnumiðlana sem lúta eiga eftirliti vinnumálastofnunar eykst miðstýring ríkisins til mikilla muna en að sama skapi er dregið úr áhrifum sveitarstjórna.`` --- Þeir eru með frekari gagnrýni þarna en að sumu leyti var brugðist við. En þetta er tónninn í Sambandi sveitarfélaga um það verkefni að flytja vinnumiðlun til ríkisins.

Mér finnst mikilvægt út af því hvernig hér hefur verið talað að halda þessu til haga, láta það koma fram og vekja athygli þeirra sem með þessari umræðu fylgjast á hvernig staðreyndir mála eru.

Virðulegi forseti. Ég kom í ræðustól á ný vegna þess að ég talaði fyrir nál. um Atvinnuleysistryggingasjóð en kýs að hafa örfá orð um vinnumarkaðsaðgerðirnar og þá kannski fyrst og fremst breytingartillögurnar. Eins og ég hef komið inn á tel ég að það að opna samninga við sveitarfélögin og aðra gjörbreyti markmiðum frv., e.t.v. til góðs, en e.t.v. verður þetta of flókið og of dýrt af því að það er verið að ákveða að vinnumiðlanir geti verið á vegum sveitarfélaga, geti verið hjá ríkinu, geti verið hjá svæðismiðlunum og geti verið hjá öðrum, hjá Hagvangi þess vegna eins og Pétur H. Blöndal mundi segja. Þess vegna er ég ekki alveg viss um að við séum búin að bjarga því sem bjargað verður með þeirri brtt. sem hér er sett fram.

Ég vil líka nefna að önnur brtt. sem hér hefur verið gerð er að ekki verði gerðar starfsleitaráætlanir strax heldur innan tíu vikna frá skráningu. Af hverju er þetta? Það er vegna þess að fram kom ábending frá Reykjavík. Það er mikil og góð reynsla af uppbyggingu Vinnumiðlunar Reykjavíkurborgar sem hefur verið til fyrirmyndar. En það vekur að sjálfsögðu athygli að ekki var leitað eftir þeirri þekkingu í nefndarstarfinu sem var undanfari þessa frv. Við spurðum um það í félmn. og forstöðumaður þeirrar vinnumiðlunar hafði að engu komið að undirbúningi þessa frv. né heldur var leitað eftir reynslu hennar eða þekkingu varðandi þessi miklu mál.

[18:45]

En félmn. hafði vit á því að nýta sér þessar ábendingar og að það væru þúsundir sem þyrftu að gera starfsleitarsamninga við sem væru búnir að fá atvinnu, miðað við reynsluna hingað til, á ákveðnu tímabili og það mundi engin vinnumiðlun, ekki einu sinni Reykjavíkurborgar, ráða við það. Sömuleiðis var mikil óánægja hjá reynslusveitarfélögum með að þau voru búin að leggja í mikinn kostnað við að undirbúa sig undir að taka vinnumiðlanir sérstaklega fyrir og þess vegna er því breytt. Auðvitað eru þessar brtt. út af fyrir sig allar til bóta. Þær eru hver fyrir sig, ein og stök, til bóta í máli sem var vont. En það er ekki endilega þannig að þegar búið er að samþykkja þær þá verði málið gott. Og það hefur stjórnarandstaðan og minni hluti í félmn. verið að draga fram í þessari umræðu. Um það höfum við verið að tala þegar við óskum eftir að í svo viðkvæmum málum eins og vinnumarkaðsmálin eru sé reynt að taka tillit til stöðunnar í þessum málum og fara öðruvísi að.

Virðulegi forseti. Til að varpa ljósi á stöðuna í þessum málum setti félmn. nokkrar fyrirspurnir fram til vinnumálaskrifstofu félmrn. og fékk svör við þeim. Ég hafði hugsað mér að fara í gegnum þessi svör vegna þess að það hefði verið mjög fróðlegt og þau mundu varpa ljósi á það hversu vanbúnir menn eru til þess að fara í markvissar vinnumarkaðsaðgerðir sem við höfum verið að kalla eftir. Ég ætla ekki að gera það. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu með því að fara í gegnum þessi svör en ég ætla a.m.k. að leyfa mér að nefna hér eitt svar þar sem var kallað eftir því hvort væri verið að velta kostnaði yfir á sveitarfélögin. Hver er sá kostnaður? Hver er sparnaður sveitarfélaga við vinnumiðlanir? Hver er núverandi rekstrarkostnaður sveitarfélaga við vinnumiðlanir? Það hefði verið eðlilegt að reyna að leita svara við þessum spurningum áður en farið var af stað með frv. sem gerir þær breytingar sem hér er verið að fjalla um.

Svarið var þetta, með leyfi forseta:

,,Frumvörpin hafa ekki þann tilgang að velta neinum kostnaði yfir á sveitarfélögin. Vera má að sveitarfélögin óttist að markviss framkvæmd laga geti leitt til þess að fleiri falli út af bótum. Bótatími gæti einnig styst í ýmsum tilvikum, t.d. ef einstaklingurinn hefur verið lengur en fimm ár á bótum. Hins vegar er engan veginn sjálfgefið að þessir einstaklingar eigi möguleika á aðstoð sveitarfélaga vegna þessara tilvika. Þessir einstaklingar gætu t.d. átt rétt á tryggingabótum. Þessi bótakostnaður er þannig í fyrsta lagi háður því hvort einhver brotalöm er í núverandi framkvæmd, hvort hægt sé að uppgötva hana og leiðrétta og í öðru lagi kostnaðaráhrif sem koma fram í kostnaðarmati vegna sparnaðar af bótagreiðslum. Þessi stærð er mjög óviss og kostnaðurinn dreifist væntanlega á einstaklingana sjálfa, sveitarfélögin, almannatryggingakerfið og ríkissjóð að öðru leyti.

Þá er ósvarað hvað sveitarfélögin spara á því að þurfa ekki lengur að standa straum af kostnaði við vinnumiðlun og atvinnuleysisskráningu. Þessi kostnaður er áætlaður 70--80 millj. kr. samkvæmt kostnaðarmati frumvarps um vinnumarkaðsaðgerðir.``

Nú vitum við að mörg þeirra munu leita eftir samningum til að vera með vinnumiðlun áfram, og þar með að vera með þennan kostnað.

Það hefur verið fróðlegt að fara í gegnum þessi svör vegna þess að í þeim kemur fram veikleikinn í hugsuninni á bak við þessi frv. sem við höfum verið að gagnrýna.

Virðulegi forseti. Ég fór mjög ítarlega í gegnum þá gagnrýni sem uppi hefur verið varðandi atvinnuleysistryggingafrumvarpið. Hér hefur verið fjallað mjög ítarlega af formanni félmn. um vinnumarkaðsfrumvarpið og ég ætla því að láta mér nægja að koma með þessar athugasemdir og enn á ný vísa í hina góðu skýrslu starfshóps um þjónustu- og öryggiskerfi atvinnulausra sem skilað var sumarið 1994 og var undanfari þess að setja átti nefndarstarf í gang um það hvernig málum atvinnulausra yrði best varið samhliða því að reyna að fara í atvinnuuppbyggingu.

Ég harma það að ekki skyldi hafa verið betur reynt að nýta sér þá forvinnu sem hafði verið farið í til þess að skila góðu máli hér inn í þing. Þetta mál er að verða komið á enda. Við höfum haft okkar áhrif. Við munum bregðast við brtt. Við munum samþykkja þær flestar en það breytir því ekki að þau lög sem eftir munu standa eru veik vegna þess að fallið hefur verið frá markmiðum laganna, markmiðum sem ég var ósammála en þau markmið sem ég hefði viljað sjá í nýjum lögum um atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsmál er ekki að finna í þeim lögum sem verið er að setja hér.