Stephansstofa

Þriðjudaginn 25. febrúar 1997, kl. 19:25:51 (3938)

1997-02-25 19:25:51# 121. lþ. 77.12 fundur 354. mál: #A Stephansstofa# þál., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur

[19:25]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. flm. ágæta ræðu og fagna þeirri hugsun sem fram kemur í tillögunni. Það er ástæða til að efla samskiptin við Vestur-Íslendinga eða fólk af íslenskum uppruna í Vesturheimi og halda á lofti minningu Stephans G. Stephanssonar, skáldbónda vestur við Klettafjöll. Mér finnst reyndar að við getum lært ýmislegt af sögu Vestur-Íslendinganna. Mér hefur komið það í hug, ég haft nokkra umsjón með og afskipti af flóttamönnum sem boðið var hingað til lands og fóru til Ísafjarðar, að það sé mjög mikilvægt að taka á móti þeim gestum sem hingað koma með þeim hætti að þeir verði fullveðja borgarar í ríkinu en jafnframt að gefa þeim tækifæri til að viðhalda sinni menningu þannig að rótin slitni ekki. Mér hefur oft komið í hug hvað það hefur verið mikilvægt líka fyrir Kanada og jafnvel Bandaríkin að Vestur-Íslendingarnir höfðu þessi tengsl til gamla landsins. Þetta tel mjög mikilvægt og ég held við eigum að reyna að örva samskiptin við þau eftir því sem við getum.

Varðandi staðsetningu Stephansstofu þá tel ég að það væri langeðlilegast að hún yrði staðsett á Hofsósi eins og hv. þm. ýjaði reyndar að með því að nefna hina skagfirsku búsetu Stephans G. Stephanssonar. Ég tel að þessi starfsemi færi best í tengslum við starfsemi Vesturfarasafnsins á Hofsósi sem er rekið með miklum myndarskap og hefur verið sett þar upp þannig að þjóðarathygli hefur vakið.

Ég tel líka að það hafi verið unnið stórvirki á Hofsósi við endurnýjun gamalla húsa. Þar eru alveg einstakar aðstæður til þess að varðveita gamla tímann, gamlan þorpshluta sem er tiltölulega ótruflaður af nútímanum. Það er þarna gamall þorpshluti niðri í kvos við ósinn og það eru tiltölulega mjög fá hús frá nýrri tíð sem sjást úr þessari kvos þannig að þarna er maður kominn í annan heim og það eru einstakar aðstæður hér á landi.

Ég vildi, herra forseti, leggja hér fáein orð í belg. Ég tel að þarna væri slíkri starfsemi best komið. Ég veit að forráðamenn Snorra Þorfinnssonar hafa haft í undirbúningi að heiðra minningu Stephans G. Stephanssonar og verið uppi með plön þar um. Ég tel að ef Alþingi afgreiðir þessa tillögu væri það vel við hæfi að ríkið kæmi að starfsemi einkaframtaksins Snorra Þorfinnssonar, en frumkvöðull þess er, eins og fram hefur komið í umræðunni, Valgeir Þorvaldsson á Vatni sem nýverið fékk landbúnaðarverðlaun fyrir brautryðjandastarf í ferðamennsku.

Herra forseti. Ég tel að við eigum að sinna þessu verkefni. Og ég tel að það yrði best gert í tengslum við þá starfsemi sem þegar er komin á legg á Hofsósi.