Vísitölubinding langtímalána

Miðvikudaginn 26. febrúar 1997, kl. 13:36:53 (3945)

1997-02-26 13:36:53# 121. lþ. 78.1 fundur 269. mál: #A vísitölubinding langtímalána# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur

[13:36]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Svar mitt, sem ég byggi á upplýsingum frá Seðlabanka Íslands, við fyrstu spurningunni er eftirfarandi: Margt bendir til þess að verðtrygging á langtímalánum hafi jákvæð efnahagsleg áhrif. Verðtrygging á langtímaskuldbindingum dregur úr óvissu um raunvexti fjárskuldbindinga og verður það til þess að áhættuálag í vöxtum þeirra verður mun minna og raunvextir því lægri. Lánstími getur því yfirleitt orðið lengri. Til samans veldur þetta því að greiðslubyrði lántakenda verður lægri en ella. Hinn þjóðhagslegi ávinningur af minni óvissu birtist í því að raunvextir verða lægri fyrir vikið. Ekki verður séð að neinn viðlíka tilkostnaður sé því samfara að ná þessum ávinningi þar sem raunlækkun óverðtryggðra skulda með óvæntri verðbólgu verður nær örugglega dýru verði keypt við aðstæður frjálsra og opinna fjármagnsmarkaða. Afleiðingin yrði fjármagnsflótti og mun hærri vextir í framhaldinu en ella hefði orðið.

Þegar óverðtryggt lán er veitt til langs tíma þarf lánveitandinn að mynda sér einhverja skoðun á verðbólguhorfum á öllum lánstíma lánsins. Það segir sig sjálft að það kann að vera erfitt þegar t.d. er um að ræða tíu ára lán eða lengra. Fjárfestar eru einnig misvissir í sinni sök í þessum efnum. Af þessum ástæðum áskilja þeir sér því áhættuálag í vöxtum. Því hærri sem þeir telja að verðbólgan verði, því hærri verða nafnvextirnir og því hræddari sem þeir eru um verðbólgu, þá geta þeir þurft að reikna með enn þá hærri ávöxtun. Áhættuálagið veldur því ótvírætt að raunvextir verða hærri. En þeir verða einnig hærri en ella ef verðbólguvæntingar markaðarins reynast of svartsýnar. Það er aðeins ef óvæntur verðbólguskellur á sér stað að raunvextir verða lægri en fjárfestar ætluðu sér í upphafi. Aukin verðbólguhræðsla getur einnig valdið því að lánstími hinna óverðtryggðu lána sem í boði eru styttist.

Verðtrygging veldur því að lánveitandi losnar við verðbólguáhættu. Lántakandi nýtur þess í lægri raunvöxtum en á móti kemur að hann getur ekki átt von á að óvænt verðbólga éti upp höfuðstól lánsins. Það ætti þó ekki að vera vandamál enda væntingar um slíkt vart eðlilegt tilefni lántöku. Þar sem verðtryggð og óverðtryggð skuldabréf til langs tíma eru hlið við hlið á markaði, eins og t.d. í Bretlandi, kemur þessi raunvaxtamunur yfirleitt skýrt fram. Til dæmis má taka að um miðjan febrúar voru vextir verðtryggðra ríkisverðbréfa til tíu ára í Bretlandi um 3,34% en nafnvextir sambærilegra óverðtryggðra bréfa um 7,11%. Spáð er að meðaltali 3,1% hækkun framfærslukostnaðar í Bretlandi milli áranna 1996 og 1997 og fyrirliggjandi tíu ára verðbólguspár gefa svipaða niðurstöðu. Þetta felur í sér að raunvextir óverðtryggðra bréfa hafa um miðjan febrúar verið 3,9% eða 0,6% hærri en á verðtryggðum bréfum.

Í þessu sambandi má einnig benda á að undanfarin fjögur ár hafa raunvextir á óverðtryggðum útlánum banka og sparisjóða hér á landi verið um 1,7% hærri að meðaltali en af verðtryggðum lánum. Sem dæmi um þýðingu verðtrygginga hér á landi má benda á að húsnæðislán til 25--40 ára eru fjármögnuð með sölu verðbréfa á markaði. Án verðtryggingar væru slík bréf að líkindum óseljanleg. Afnám verðtryggingar mundi því annaðhvort leiða til mun styttri lánstíma húsnæðislána eða mikils fjáröflunarvanda húsnæðiskerfisins.

Ofangreindir kostir verðtryggingar langtímaskuldbindinga njóta nú æ meiri viðurkenningar á alþjóðlegum vettvangi. Það sést m.a. af því að æ fleiri ríki gefa nú út verðtryggð ríkisskuldabréf til langs tíma. Meðal iðnríkja eru slík bréf nú gefin út í Ástralíu, Bandaríkjunum, Bretlandi, Kanada, Nýja-Sjálandi og Svíþjóð. Rétt er að benda á að í Bandaríkjunum voru fyrstu verðtryggðu skuldabréf ríkissjóðs boðin út í janúar sl.

Þá var spurt um hugmyndir um að fella niður heimildir til að tengja lán við breytingar á vísitölu. Ekki eru uppi hugmyndir um slíkt, enda ekki hagstætt, samanber svar við fyrri spurningu. Hins vegar mótuðu ríkisstjórn og Seðlabanki sameiginlega stefnu vorið 1995 um að draga úr verðtryggingu á styttri enda markaðarins, enda eru kostir hennar þar minni og henni fylgja ýmis vandamál þegar um er að ræða styttri skuldbindingar eins og fram kom m.a. í áliti vaxtamyndunarnefndar sem starfaði haustið 1993 og einnig að nokkru leyti í áliti nefndar um endurbætur á innlendum skuldabréfamarkaði sem starfaði á vegum viðskrh. og skilaði af sér í apríl 1996. Ofangreind stefna felur í sér að verðtrygging innstæðna í bönkum verður óheimil frá og með 1. janúar árið 2000 og lágmarkstími verðtryggðra skuldabréfa verði sjö ár. Næsti áfangi þessarar þróunar mun eiga sér stað 1. janúar 1998 þegar lágmarksbinditími verðtryggðra innstæðna verður hækkaður úr einu ári í þrjú og lágmarkstími verðtryggðra skuldabréfa verður lengdur úr þremur árum í fimm.

Þá var spurt: Hve há voru vísitölubundin lán að meðaltali á fjölskyldu um síðustu áramót? Ekki liggja fyrir upplýsingar um þetta efni miðað við síðustu áramót. Hins vegar liggur fyrir uppgjör Seðlabankans á útlánum lánakerfisins í lok september á síðasta ári. Samkvæmt því eru skuldir heimila metnar á 342,9 milljarða kr. Af þeim eru 310,8 milljarðar verðtryggðir eða 90,6%. Fjöldi fjölskyldna er talinn um 140 þús. og eru þær þá skildgreindar sem hjón, sambýlisfólk og einstaklingar eldri en tvítugir. Meðalskuldir hverrar fjölskyldu eru því 2,4 millj. kr. Þar af eru um 2,2 millj. kr. með verðtryggðum kjörum. Ef aðeins eru teknar þær fjölskyldur sem skulda, en það eru taldar þær fjölskyldur sem skulda samkvæmt uppgjöri lánastofnana og gefa upp skuldir á skattframtali, verða meðalskuldir um 3,6 millj. kr. og verðtryggðar skuldir 3,2 millj. kr.

Síðan var spurt: Hve há voru vísitölubundin lán að meðaltali á fyrirtæki um síðustu áramót? Heildarskuldir fyrirtækja í lok september voru taldar 343,3 milljarðar kr. Af þeim eru 36,6% verðtryggðar eða 125 milljarðar kr. Meðaltalsskuld á fyrirtæki verður þá 18,5 millj., þar af 6,8 millj. verðtryggðar. Hafa verður þann fyrirvara á að skil á milli einstaklinga og fyrirtækja eru ekki alltaf glögg en hér er miðað við þá lögaðila sem eru með virðisaukaskattskylda veltu er nemur 1 millj. kr. eða meir. Þessir lögaðilar eru 18.539.

Í síðasta lagi var spurt: Hve langan tíma tæki að afnema vísitölubindingu lána eftir að ákvörðun um það væri tekin? Vísitölubindingu nýrra lána má afnema án fyrirvara sé aðeins litið til lögformlegra og tæknilegra hliða þess máls. Vísitölubinding á eldri skuldbindingum verður hins vegar vart afnumin nema með lögum en á markaði tíðkast nú lán til allt að 40 ára.