Vísitölubinding langtímalána

Miðvikudaginn 26. febrúar 1997, kl. 13:42:20 (3946)

1997-02-26 13:42:20# 121. lþ. 78.1 fundur 269. mál: #A vísitölubinding langtímalána# fsp. (til munnl.) frá forsrh., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur

[13:42]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Í kjölfar fyrirspurnar hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur í haust kom fram að skuldir heimilanna eru nú yfir 350 milljarðar. Í tíð þessarar ríkisstjórnar hafa skuldir heimilanna hækkað um 100 millj. á hverjum einasta degi. Lán heimilanna eru 90% verðtryggð en verðtrygging þekkist varla erlendis. Stjórnvöld hafa ákveðið að banna verðtryggingu innlána frá árinu 2000 en áfram á að lána út með verðtryggingu. Að mínu mati á að banna verðtryggingu útlána alveg eins og það verður bannað að verðtryggja innlán. Við verðum, herra forseti, að hafa hugrekki til að treysta stöðugleikanum. Þó sjö ár séu ekki langur tími í hagsögu og óverðtryggðir vextir verði fyrst um sinn hærri en verðtryggð kjör, þá er brýnt að koma vaxtakjörum lána í eðlilegan farveg og afnema verðtryggingu sem er arfur fortíðarinnar.

Ég skora á ríkisstjórnina að fylgja eftir fyrirhuguðu banni á verðtryggð innlán með banni á verðtryggingu útlána.