Vísitölubinding langtímalána

Miðvikudaginn 26. febrúar 1997, kl. 13:50:21 (3951)

1997-02-26 13:50:21# 121. lþ. 78.1 fundur 269. mál: #A vísitölubinding langtímalána# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur

[13:50]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Eins og kom fram hjá hv. þm. er það mikilvægasta verkefnið hjá okkur að lækka raunvextina almennt. Það er alveg hárrétt sem hér kom fram. Ef við horfum dálítið til baka þegar við erum að velta fyrir okkur vísitölubindingu vaxta og slíkum kjörum og síðan óverðtryggðum lánum minnast menn þess kannski að á meðan lán voru óverðtryggð og verðbólgan há, þá hurfu lánin. En menn eru ekki að biðja um slíkt tímabil aftur þannig að fólk með langtímaskuldbindingar yrði ekki betur sett ef verðtrygging yrði afnumin, ef það þýddi aðeins að raunvextir nafnvaxta mundu hækka. Það yrði eingöngu betur sett ef verðbinding yrði afnumin, ef verðbólgan færi upp úr öllu valdi. Þetta þurfa menn að hafa í huga.

Þær upplýsingar sem við búum við núna sýna okkur að við normalástand er raunvaxtastigið sem fólkið er að borga lægra við vísitölubindinguna vegna þess að áhættuþátturinn minnkar. Við erum aðeins að horfa til glæstrar fortíðar 50% verðbólgu þegar við erum að horfa til þess að óverðtryggðir vextir geti hjálpað okkur í baslinu.