Framkvæmd á framtíðarsýn ríkisstjórnar Íslands um upplýsingasamfélagið

Miðvikudaginn 26. febrúar 1997, kl. 14:06:06 (3958)

1997-02-26 14:06:06# 121. lþ. 78.3 fundur 333. mál: #A framkvæmd á framtíðarsýn ríkisstjórnar Íslands um upplýsingasamfélagið# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur

[14:06]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég get nú huggað hv. fyrirspyrjanda á því að mitt svar verður á miklu meira stofnanamáli en var í skýrslunni sem hann gat um, ef það róar hann.

Í stefnumótun ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið felst, eins og hv. fyrirspyrjandi vitnaði til, að stefnt skuli að því að almenningur skuli geta náð sem mestu af upplýsingum um opinbera starfsemi og sem mestu af gögnum sem hið opinbera býr yfir með því að nýta sér rafræna upplýsingamiðla og fjarskiptatækni. Í þessu skyni er að því stefnt að ráðuneyti og ríkisstofnanir miðli slíkum upplýsingum um alnetið og er sú þróun þegar hafin eins og menn komast að raun um þegar þeir skoða netið, þótt hún sé e.t.v. ekki komin ýkja langt á veg. Hins vegar er á það að líta að þessi þróun er nýhafin og breytingar á því sviði eru mjög örar. Það efni sem hægt er að eiga aðgang að á netinu eykst stöðugt og þess er að vænta að almenningur muni eiga kost á aðgangi að mun meira efni frá opinberum aðilum á netinu í nánustu framtíð en nú er.

Ríkisstjórnin hefur með þeirri skýrslu sem fyrirspyrjandi vitnaði til markað þá stefnu að hægt verði að nálgast sem mest af opinberum upplýsingum á netinu. Varðandi það hvernig ríkisstjórnin mun standa að almennri framkvæmd þeirrar stefnu sem mótuð hefur verið má upplýsa að verið er að setja á stofn sérstakt þróunarverkefni meðal ráðuneyta undir forustu forsrn. þar sem unnið verður að þeim markmiðum sem fram koma í stefnu ríkisstjórnarinnar í upplýsingamálum. Á meðal þess sem sérstakri verkefnastjórn með fulltrúum fjögurra ráðuneyta verður falið er að leggja línurnar varðandi það hvernig ráðuneytið og ríkisstofnanir komi upplýsingum á framfæri með samræmdum hætti.

Eins og ég sagði áðan er þess að vænta að stefnt verði að því að aðgangur verði greiður að svo miklum upplýsingum sem kostur er. Það er bæði í þágu þeirra sem þurfa að leita sér upplýsinga hjá hinu opinbera og það er ekki síður í þágu ráðuneyta og ríkisstofnana að miðlun upplýsinga geti orðið eins einföld og skilvirk og þessi nýja tækni býður upp á.

Fyrirspyrjandi spyr um hver mikið af eldri gögnum verði aðgengileg á alnetinu. Erfitt er að fullyrða um það en þess er síður að vænta að áhersla verði lögð á að koma eldra efni á netið nema um eitthvað sérstaklega eftirsótt efni sé að ræða. Það skiptir væntanlega meiru að nýrra efni og efni sem eftirsótt er á hverri stundu sé til taks sem allra fyrst. Í þessu sambandi er rétt að nefna að verið er að leita leiða til þess að haga gerð þess hugbúnaðar sem notaður er í ráðuneytunum þannig að einfalt verði að koma gögnum og upplýsingum yfir á alnetið.

Rétt er að árétta að stjórnvöldum ber út af fyrir sig engin sérstök lagaskylda til að miðla gögnum og upplýsingum stjórnvalda á netinu. Lög skylda stjórnvöld til birtingar á afmörkuðu efni og þá á prenti og ákvæðin um að gera gögn eða efni aðgengilegt á netinu hafa ekkert að gera með þær kvaðir sem nýsett upplýsingalög leggja stjórnvöldum á herðar. Það er fremur hitt að það er í þágu almennings, ríkisins og ríkisstofnana að slíkar upplýsingar liggi fyrir á sem aðgengilegustan og auðveldastan hátt.

Hv. fyrirspyrjandi spyr sérstaklega um fjárveitingar sem veittar verði til að framkvæma þá stefnu í upplýsingamálum sem við erum hér að ræða og hvort heildarstefna um þær fjárveitingar liggi fyrir. Því er til að svara að á meðal viðfangsefna verkefnisstjórnarinnar sem fær þetta þróunarverkefni í sínar hendur í stjórnsýslunni og unnið verður að undir forustu forsrn., verður það meginverkefni hennar í fyrstunni að gera tillögur og áætla hversu mikla fjármuni eigi að veita til þessara þátta bæði almennt og eins á vegum hvers einstaks ráðuneytis.

Ég vil hins vegar einnig nefna að ekki er síður mikilvægt að fram komi frá þessum hópi tillögur um það hvernig þeim fjármunum verði best varið. Vitanlega er nú þegar umtalsverðum fjármunum varið til þessa málaflokks. Háar fjárhæðir veitum við árlega til endurnýjunar og kaupa á hugbúnaði og vélbúnaði fyrir ráðuneyti og opinberar stofnanir og það ber ríka nauðsyn til þess að slíkum fjármunum sé markvisst varið því að ekki er víst að svo hafi verið gert hér á árum fyrr.