Framkvæmd á framtíðarsýn ríkisstjórnar Íslands um upplýsingasamfélagið

Miðvikudaginn 26. febrúar 1997, kl. 14:11:31 (3960)

1997-02-26 14:11:31# 121. lþ. 78.3 fundur 333. mál: #A framkvæmd á framtíðarsýn ríkisstjórnar Íslands um upplýsingasamfélagið# fsp. (til munnl.) frá forsrh., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur

[14:11]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil láta í ljós ánægju mína með það að ríkisstjórn Íslands hafi sett fram framtíðarsýn sína um upplýsingasamfélagið um leið og ég furða mig á því að í 20 manna nefnd skulu hafa verið valdir 18 karlar og tvær konur. Hvernig stendur á því, hæstv. forsrh., að enn þá eru nefndir skipaðar með þessum hætti þrátt fyrir ákvæði jafnréttislaga? Stendur e.t.v. til að skipa aðra nefnd um konur og upplýsingasamfélagið? Það er mjög mikilvægt að það sé tekið á því máli þar sem það mun að öllum líkindum skilja á milli feigs og ófeigs á vinnumarkaði framtíðarinnar hvort við náum tökum á þessari tækni eða ekki.