Aðbúnaður Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 26. febrúar 1997, kl. 14:23:30 (3965)

1997-02-26 14:23:30# 121. lþ. 78.5 fundur 368. mál: #A aðbúnaður Ríkissjónvarpsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., MÁ
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur

[14:23]

Mörður Árnason:

Forseti. Það hlýtur að vera furðulegt að hæstv. menntmrh. skuli ekki svara spurningum hv. þm. Svanhildar Kaaber því að það gerir hann ekki. Hann segir að hann hafi fengið skýrslu frá nefnd, lagt hana fyrir ríkisstjórnina og ætli ekkert að gera með hana, meðan hv. þm. hins vegar upplýsir að samkvæmt hans heimildum kosti þetta ástand 50 millj. á ári. Hæstv. menntmrh. fer með smáar tölur um hækkað framlag til fréttastofu og innlendrar dagskrárgerðar en allir landsmenn vita að báðir þessir þættir í rekstri sjónvarpsins hafa verið í það algeru svelti undanfarin ár að innlend dagskrárgerð í sjónvarpi hefur aðallega beinst að einum föstum þætti. Og menn hafa beinlínis sagt þar upp sem forstöðumenn innlendrar dagskrárgerðar vegna þess að þeir sjá engan tilgang í því að stjórna svona stofnun eða hafa ekki til þess metnað.

Það sem er auðvitað að gerast með Ríkisútvarpið er það að vegna þess að hæstv. menntmrh. og útvarpslaganefnd hans, en formaður hennar situr hér fyrir framan okkur, hafa ekki komið sér saman um hvað þeir ætla að gera við Ríkisútvarpið, þá er það í sífelldri óvissu um framtíð sína. Þar er ekki mörkuð nein dagskrárstefna til framtíðar, (Forseti hringir.) starfsmenn búa við óöryggi, bæði um sín eigin störf og um það sem þeir eiga að vera að gera. Á meðan það stendur hjá Sjálfstfl. að hann hvorki þorir, getur né vill segja okkur hinum frá því hvað hann ætlar að gera við Ríkisútvarpið og koma því í almenna umræðu, þá verður Ríkisútvarpið alltaf slappara og slappara. Þannig ætla þeir sennilega að kyrkja úr því síðasta lífsdráttinn svo að það deyi af sjálfu sér eins og sjálfdauð rolla úti í haga.