Starfsemi og nám í stýrimannaskólum

Miðvikudaginn 26. febrúar 1997, kl. 14:40:22 (3972)

1997-02-26 14:40:22# 121. lþ. 78.6 fundur 372. mál: #A starfsemi og nám í stýrimannaskólum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur

[14:40]

Hjálmar Árnason:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa málinu og hæstv. menntmrh. fyrir greinargóð svör. Hér er hreyft afskaplega stóru máli sem snýst m.a. um það hvers vegna svo fátt ungt fólk sækir í skipstjórnar- og stýrimannanám.

Ég get tekið undir það meginsjónarmið hjá hv. fyrirspyrjanda um að færa námið að ákveðnu marki inn í hið almenna framhaldsskólakerfi, en ég er ekki sannfærður um að það leysi vandann. Þegar í dag hafa nokkrir fjölbrautaskólar úti á landsbyggðinni heimild til að starfrækja stýrimannanám en aðsóknin er engin. Það er kannski spurningin sem þarf að svara. Hvers vegna sækir ungt fólk ekki stýrimannanám? Það er hægt að benda á að við höfum verið að fækka í fiskiskipaflotanum og benda má á þá tilhneigingu að skrá kaupskip okkar undir hentifána og ráða erlendar áhafnir. Það eru skilaboð til ungs fólks.

Þá er líka vert í þessu samhengi að benda á þá sorglegu mynd sem við blasir í eitt sinn glæsilegasta skólahúsnæði landsins, Stýrimannaskóla Íslands, sem vígt var 1945 og hefur nánast staðið óhreyft síðan þannig að nemendur þurfa að vaða þar elginn í orðsins fyllstu merkingu á rigningardögum. Það eru auðvitað ákveðin skilaboð til nemenda og er brýnt að á verði tekið. (Forseti hringir.) Rétt að lokum, herra forseti. Það er líka mikilvægt að sinna hásetanámi en við höfum ekki sinnt því og er mikið umhugsunarefni.