Netaðgangur að Lagasafni

Miðvikudaginn 26. febrúar 1997, kl. 17:34:02 (3987)

1997-02-26 17:34:02# 121. lþ. 79.91 fundur 212#B netaðgangur að Lagasafni# (aths. um störf þingsins), MÁ
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur

[17:34]

Mörður Árnason:

Forseti. Óhindraður aðgangur almennings að landslögum er eitthvert helsta skilyrði lýðræðislegs réttarríkis enda kveða lög okkar á um hvort tveggja, að hinu opinbera sé skylt að birta lögin og að menn geti ekki skotist undan ábyrgð á lögbroti vegna vanþekkingar um lagabókstafinn. Það leiðir af sjálfu að lögin séu á hverjum tíma birt með þeim hætti sem tækniþróun gefur tilefni til. Eitt sinn hrópaði kallari tilskipanir á götuhornum, nú treysta menn í síauknum mæli á nettækni tölvunnar. Á fyrra fundi þingsins í dag upplýsti hæstv. utanrrh. að í hans ráðuneyti sé í gangi könnun um að birta EES-gerðir á alnetinu.

Á heimasíðu Alþingis gefst almenningi kostur á að fylgjast með störfum þingsins. Þar er hægt að skoða öll þingmál, fylgjast með umræðum og kynna sér þau lög sem Alþingi setur á hverjum tíma. Aðgangur á netinu að sjálfu lagasafninu, helsta höfundarverki Alþingis, er hins vegar bannaður almenningi. Í fyrra var forseta sent innanþingsbréf um þetta mál en svar hefur ekki borist, svo mér sé kunnugt. Mér skilst hins vegar á mínum heimildum að hér strandi helst á einhvers konar einkarétti sem dómsmrh. hefur tekið sér og framselt til einkaaðila. Þetta ástand er óviðunandi fyrir nútímalegt þjóðþing. Ég fer fram á að forseti kynni sér málið og kippi því í liðinn hið snarasta. Þurfi til lagabreytingar, t.d. á lögum nr. 64/1943, er örugglega enginn hörgull á þingmönnum innan og utan forsn. til að leggja slíkt frv. fyrir þingið.