Netaðgangur að Lagasafni

Miðvikudaginn 26. febrúar 1997, kl. 17:36:08 (3988)

1997-02-26 17:36:08# 121. lþ. 79.91 fundur 212#B netaðgangur að Lagasafni# (aths. um störf þingsins), Forseti RA
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur

[17:36]

Forseti (Ragnar Arnalds):

Í tilefni af athugasemd hv. 13. þm. Reykv., sem hann gerði reyndar forseta viðvart um fyrr í dag, telur forseti rétt að höfðu samráði við skrifstofustjóra Alþingis að eftirfarandi komi fram:

Það er hárrétt sem fram kom hjá hv. þm. að á heimasíðu Alþingis gefst almenningi kostur á að fylgjast með störfum þingsins. Má í því samandi geta þess að skrifstofa Alþingis var meðal fyrstu stofnana ríkisins til að opna almenningi frjálsan aðgang að tölvuformi gagna um flestallt er lýtur að starfsemi þingsins. Nú má finna á heimasíðu Alþingis m.a. tölvutexta þingskjala, þingræðna, laga frá Alþingi, þ.e. samþykktra frv., yfirlit yfir feril þingmála og ýmis gögn sem tengjast þeim, svo sem niðurstöðutölur atkvæðagreiðslna, upplýsingar um þingmenn og margt fleira.

Öðru máli gegnir um lagasafnið sjálft, helsta höfundarverk Alþingis, eins og hv. þm. komst réttilega að orði. Skv. 19. tölul. 3. gr. reglugerðar um Stjórnarráð Íslands, nr. 96/1969, er útgáfa lagasafns í höndum dóms- og kirkjumrn. Hefur reglugerðin verið túlkuð svo að hún veiti dómsmrn. höfundarrétt á lagasafninu, þ.e. á hönnun þess, uppsetningu, uppfærslu lagatextans, niðurröðun efnis, atriðisorðaskráa o.s.frv. Í þessu felst að dómsmrn. hefur talið sig hafa einkarétt á dreifingu lagatextans hvort sem er í prentuðu eða tölvutæku formi. Sökum þessa einkaréttar og sölu dómsmrn. til gagnamiðlunarfyrirtækja á dreifingu tölvutextans hefur hvorki skrifstofa Alþingis né aðrir aðilar getað dreift texta lagasafnsins á internetinu þannig að almenningur hafi frjálsan aðgang að því.

Rétt er að það komi fram hér að um nokkurra ára skeið hefur skrifstofa Alþingis séð um vistun lagasafnsins á tölvuformi, uppfærslu þess og umbrot samkvæmt samkomulagi þar um við dómsmrn. og hefur ráðuneytinu verið afhent uppfært lagasafn tvisvar á ári. Texti lagasafnsins er varðveittur í notendavinsamlegu vefkerfi í tölvukerfi Alþingis og væri ekkert tæknilega því til fyrirstöðu að opna það til frjálsra afnota fyrir almenning. En af fyrrnefndum ástæðum hefur þvert á móti orðið að grípa til sérstakra ráðstafana til að loka þessu kerfi þannig að það vinnur aðeins innan staðarneta Alþingis. Lagasafnið hefur því orðið að undanskilja og einskorða við innanhússnot en að öllum öðrum gögnum, sem lúta að starfsemi þingsins, hefur almenningur frjálsan aðgang.

Því er ekki að leyna að hér á Alþingi hafa verið uppi aðrar hugmyndir, um það hvernig staðið skuli að miðlun lagatexta til almennra nota á internetinu og að þörf sé nýrrar stefnumótunar í þessum efnum, m.a. hvað varðar sívinnslu lagasafnsins og ritstjórn þess. Ef veittur yrði frjáls aðgangur að lagasafninu í tölvukerfi Alþingi mundu opnast möguleikar til beinnar tengingar annarra vefkerfa við lagasafnið. Þarf ekki að orðlengja hvílíkt hagræði það hefði í för með sér að geta ávallt gengið að gildandi lögum vísum á einum og sama stað.