Atvinnuleysistryggingar

Miðvikudaginn 26. febrúar 1997, kl. 18:02:09 (3996)

1997-02-26 18:02:09# 121. lþ. 79.2 fundur 171. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (heildarlög) frv., BH (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur

[18:02]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Það frv. sem hér er til umræðu er vond lagasetning ef af samþykkt frv. verður. Hæstv. ríkisstjórn réðst með offorsi til atlögu við atvinnuleysistryggingalögin í því skyni að spara og draga úr meintri misnotkun. Eins og stjórnarandstaðan benti á þegar frv. kom fram voru ýmis atriði í því gjörsamlega óviðunandi og beinlínis aðför að hinum atvinnulausu. Sem betur fer hefur hæstv. ríkisstjórn séð að sér með stærstu atriðin í frv. og dregið þau til baka, ekki síst fyrir þrýsting frá verkalýðshreyfingunni vegna yfirvofandi ófriðar á vinnumarkaði.

Þótt verstu atriðin hafi verið tekin út úr frv. þá stendur það eftir að verið er að róta í lögum um réttindi og skyldur atvinnulausra án þess að til bóta sé og tónninn í frv. gagnvart hinum atvinnulausu er gamaldags og óásættanlegur. Alþb. getur því ekki stutt efni þessa frv. en mun þó greiða sjálfsögðum brtt. sem til bóta eru atkvæði sitt. Ég sit hjá við þetta ákvæði, herra forseti.