Vinnumarkaðsaðgerðir

Miðvikudaginn 26. febrúar 1997, kl. 18:38:28 (4011)

1997-02-26 18:38:28# 121. lþ. 79.3 fundur 172. mál: #A vinnumarkaðsaðgerðir# frv., BH (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur

[18:38]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. 1. gr. frv. hefur vissulega háleitt markmið. Það er hvorki meira né minna en það að stuðla að jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar eftir vinnuafli í landinu. En þótt markmiðið sé gott og gilt í sjálfu sér þá er ég mótfallin aðferðinni sem ríkisstjórnin ætlar að nota til þess að koma þessu markmiði sínu á. Það á að koma hér á fót ríkisstofnun utan um málaflokk sem miklu fremur á heima hjá sveitarfélögunum en hjá ríkinu og báknið kostar mannafla sem mér sýnist að sé á annað hundrað manns þegar allt er talið. Það á að færa verkefni frá sveitarfélögum til ríkis, sem vissulega er ný stefna, og þjónustuna frá fólkinu inn í ríkisbáknið. Ég er ekki sammála þeirri pólitík sem birtist í þessu frv. og mun því greiða atkvæði gegn sumum greinum þess en sitja hjá við aðrar eftir atvikum og svo er um þessa 1. gr., herra forseti.