Stækkun járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga

Fimmtudaginn 27. febrúar 1997, kl. 10:36:08 (4019)

1997-02-27 10:36:08# 121. lþ. 81.92 fundur 217#B stækkun járnsblendiverksmiðjunnar á Grundartanga# (aths. um störf þingsins), HG
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur

[10:36]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það er af allgildu tilefni sem ég kveð mér hljóðs um störf þingsins. Við höfum fylgst með því í fréttum að hæstv. iðnrh. og Landsvirkjun hafa verið að undirbúa samninga við eigendur Íslenska járnblendifélagsins í sambandi við hugsanlega stækkun verksmiðjunnar. En það hefur lítið heyrst frá hæstv. ráðherra í þinginu um þetta mál. Okkur er sagt að verið sé að ganga frá samningum um stækkun verksmiðjunnar og í tengslum við það afhendingu á meiri hluta íslenska ríkisins í Íslenska járnblendifélaginu til norska fyrirtækisins Elkem sem nú á 30% í verksmiðjunni. Landsvirkjun hefur sem kunnugt er sett eindaga varðandi þegar gerðan raforkusamning miðað við að svör liggi fyrir frá Íslenska járnblendifélaginu fyrir 8. mars nk. Þá er reynt að knýja fram pólitískar yfirlýsingar frá Landsvirkjun þess efnis að Elkem verði tryggður aðgangur að raforku frá hagkvæmustu virkjunarkostum landsmanna til frekari stækkunar járnblendiverksmiðjunnar á næstu árum ef þeim hentar að flytja hingað starfsemi sína.

Það liggja fyrir útreikningar, virðulegur forseti, að ég best veit á verði járnblendiverksmiðjunnar samkvæmt mati þar sem gengið er út frá svartsýnustu forsendum um afkomu fyrirtækisins og háum vöxtum. Þessir útreikningar er sagt að skili nafnvirði hlutafjár í verksmiðjunni upp á aðeins 2,7 milljarða kr. sem er lægri upphæð en stofnkostnaður við stækkun verksmiðjunnar gæti skilað. Það verður að hafa í huga, virðulegur forseti, að íslenska ríkið hefur þegar lagt 4 milljarða kr. í verksmiðjuna frá upphafi, reiknað á núvirði og án vaxta. Á síðasta ári skilaði verksmiðjan 600 millj. kr. hagnaði og raunar gott betur vegna raforkusamningsins þar sem á annað hundrað millj. kr. gætu orðið afturkræfar.

Samkvæmt þessu, virðulegur forseti, stefnir í það að Elkem verði nánast gefin þessi verksmiðja og Landsvirkjun skuldbindi sig í þokkabót til að afhenda nýjum meirihlutaeiganda orku næstu ár og áratugi á kostakjörum. Þetta er nú hagsmunagæsla eða hitt þó heldur. Hæstv. iðnrh., hefur (Forseti hringir.) ekki haft fyrir því að gera Alþingi Íslendinga grein fyrir því hvert stefnir. Ég hlýt að gera kröfu til þess að ráðherrann gefi Alþingi skýrslu hið allra fyrsta og (Forseti hringir.) áður en gengið verður frá samningum. Það er með öllu óviðunandi að fastmælum verði bundið efni í þá veru sem ég hef frétt af að standi til og að Alþingi fái ekki að ræða málin og fái ekki greinargóð svör frá ríkisvaldinu um þessi efni. Það er ekki (Forseti hringir.) hægt að segja okkur það, virðulegur forseti, að við verðum að knékrjúpa fyrir Norðmönnum eða norska fyrirtækinu Elkem og eigum engra kosta völ í þessu máli að gera annað.