Stækkun járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga

Fimmtudaginn 27. febrúar 1997, kl. 10:41:57 (4021)

1997-02-27 10:41:57# 121. lþ. 81.92 fundur 217#B stækkun járnsblendiverksmiðjunnar á Grundartanga# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur

[10:41]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég tek undir óskir um að hæstv. iðnrh. geri Alþingi grein fyrir stöðu þessa máls. Ég vil jafnframt upplýsa að ég hef óskað eftir því í efh.- og viðskn. að þangað komi upplýsingar um hvar þessi mál standa, sérstaklega í tengslum við fréttir sem hafa verið að koma fram nú upp á síðkastið að farið sé að ræða um breytt eignarhlutföll í fyrirtækinu án nokkurrar kynningar á þingi eða í þingnefndum. Ekki hefur reynst unnt að koma þeim fundi við m.a. vegna fjarveru þeirra manna sem um þessi mál véla í hinu háa iðnrn. og virðist þá skrifstofustjórinn vera innsti koppur í búri í öllu tilliti því ekki er talið mögulegt að veita um þetta neinar upplýsingar nema hann sé á landinu.

Herra forseti. Ég held að það liggi í hlutarins eðli að miðað við þá fjármuni sem íslenska ríkið hefur lagt í þetta fyrirtæki, þær geysilega stóru tölur sem liggja í virkjunum og öðru sem þessum málum tengjast, þá sé það með öllu óásættanlegt að þingmenn séu að fá flugufregnir utan úr bæ um stefnubreytingu í málum af þessu tagi, hvort sem heldur varðar breytta eignaraðild eða meðferð á eignarhlut ríkisins í þessu fyrirtæki í ljósi allra þeirra fjármuna sem í það hafa verið settir eða önnur áform sem tengjast þessum samskiptum íslenska ríkisins við meðeigendur, svo sem fréttir sem heyrst hafa um að inn í þetta gætu komið áform Elkem um að flytja hingað marga gamla ofna sem þeir eru að flýja með frá Noregi. Þá væri komin upp enn önnur hlið á þessu máli sem snýr að umhverfisþáttunum.

En fyrst og fremst, herra forseti, tel ég að það sé réttmæt krafa sem hæstv. iðnrh. beri að verða við, úr því að hann sá ekki sóma sinn í að gera það sjálfur óumbeðinn, að gera Alþingi grein fyrir hvar þessi mál standa þannig að menn þurfi ekki að byggja á óljósum fréttum úr fjölmiðlum um hluti af þessu tagi.