Stækkun járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga

Fimmtudaginn 27. febrúar 1997, kl. 10:44:19 (4022)

1997-02-27 10:44:19# 121. lþ. 81.92 fundur 217#B stækkun járnsblendiverksmiðjunnar á Grundartanga# (aths. um störf þingsins), HG
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur

[10:44]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það var ekki mikið að hafa upp úr hæstv. ráðherra um þetta mál. Þó sagði þögn hæstv. ráðherra varðandi það sem fram kom í mínu máli talsverða sögu. Er það rétt, hæstv. ráðherra, að í það stefni að íslenska ríkið afhendi norska fyrirtækinu Elkem meirihlutaeign í fyrirtækinu? Er það rétt að verið sé að knýja á um að Landsvirkjun gefi yfirlýsingar um að þeir eigi kost á því að ganga hér að íslenskri raforku, bestu raforkukostum landsmanna á næstu árum ef þeim hentar?

Það eru þessi stóru mál og þessar stóru spurningar sem Alþingi Íslendinga verður að geta rætt áður en málið er læst af hálfu ríkisstjórnarinnar sem fer með meiri hlutann, meirihlutaeign í fyrirtækinu, sem ætla að afhenda og hæstv. forsrh. hefur gefið yfirlýsingar um að eigi að setja hlutabréf á almennan markað. Hvers konar hagsmunagæsla er það sem hér er á ferðinni? Er það rétt, virðulegur forseti, að mat liggi fyrir á fyrirtækinu, á nafnvirði fyrirtækisins upp á 2,7 milljarða kr. sem eigi að leggja til grundvallar við hugsanlega sölu á meiri hluta í fyrirtækinu?

Þetta eru svo stórar spurningar, virðulegur forseti, að það er náttúrlega með fádæmum að hæstv. ráðherra skuli ekki þegar hafa gefið óumbeðið efh.- og viðskn. og iðnn. þingsins upplýsingar um þetta. Fyrir utan það sem hér var minnt á í sambandi við umhverfismál fyrirtækisins. Ég hélt að ekki væri nú bætandi á þá stöðu sem blasir við í sambandi við stóriðjustasjón uppi í Hvalfirði. Ég held að menn fagni því ekki að verið sé að falbjóða íslenska orku til Elkem sem því miður hefur ekki allt of góðan orðstír heima fyrir í sambandi við umhverfismál.

Þetta efni, virðulegur forseti, er þess eðlis að ég tel að (Forseti hringir.) forsetadæmið eigi að taka það upp að sínu leyti við hæstv. ráðherra að hann gefi hér skýrslu á næstunni. Mér er sagt að fundur verði í Noregi á morgun (Forseti hringir.) um þessi mál og kannski fleiri fyrirhugaðir eftir helgina og 8. mars nálgast. Áður en þetta gerist verður að fá þetta mál rætt á Alþingi.