Stækkun járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga

Fimmtudaginn 27. febrúar 1997, kl. 10:46:58 (4023)

1997-02-27 10:46:58# 121. lþ. 81.92 fundur 217#B stækkun járnsblendiverksmiðjunnar á Grundartanga# (aths. um störf þingsins), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur

[10:46]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Því miður átta ég mig nú ekki alveg á málflutningi hv. þm. Alþb. sem hér hafa talað. Í öðru orðinu er það alveg skelfilegt, þeir miklu fjármunir sem ríkið hefur sett í fyrirtækið og í hinu orðinu, að menn séu hugsanlega að setja fyrirtækið í hendur einhverra annarra aðila. Því miður gengur svona málflutningur ekki upp. (SJS: Hvernig væri að svara spurningunni?) Það er rétt að verulegir fjármunir hafa verið settir af fé skattborgaranna til að mæta þeim töpum sem þetta fyrirtæki hefur orðið fyrir í gegnum tíðina. Þær aðgerðir sem verið er að ræða núna í samvinnu við aðra eignaraðila okkar í fyrirtækinu byggjast á því að styrkja og treysta fyrirtækið í sessi þannig að við þurfum ekki, þegar við lendum í næsta erfiðleikatímabili í rekstri fyrirtækisins, að koma með fé úr ríkissjóði til að aðstoða fyrirtækið. Fyrirtækið verður þess vegna betur í stakk búið til að mæta þeirri niðursveiflu sem þá mun verða.

Það hefur engin ákvörðun verið tekin um hvort gerð verði breyting á eignarhlutum í fyrirtækinu eða ekki. Sú ákvörðun hefur ekki verið tekin vegna þess að ekki hafa enn náðst samningar milli eignaraðila með hvaða hætti verði staðið að stækkun fyrirtækisins ef sú ákvörðun verður á annað borð tekin, en um það eru skiptar skoðanir milli eignaraðila.

Í öðru lagi hefur verið gerður samningur milli Landsvirkjunar og fyrirtækisins um raforku ef af stækkun fyrirtækisins verður um einn ofn. Fyrirtækið hefur hins vegar ekki frest nema til 8. mars til að svara því hvort það sé tilbúið til að taka þeim samningi sem þar er í boði. Verði af stækkun og náist samkomulag er ljóst að fyrirtækið getur hugsanlega stækkað enn frekar. Þá þurfa eignaraðilar að hafa ákveðna vissu, ekki tryggingu, (Forseti hringir.) vissu fyrir því að ef um frekari stækkun verður að ræða á hvaða kjörum hugsanlega þeir raforkusamningar gætu orðið við Landsvirkjun ef til þess kæmi að þriðji, fjórði eða fimmti ofn eða enn þá fleiri ofnar yrðu að veruleika í rekstri fyrirtækisins.