Atvinnuleysistryggingar

Fimmtudaginn 27. febrúar 1997, kl. 11:49:57 (4026)

1997-02-27 11:49:57# 121. lþ. 81.1 fundur 171. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (heildarlög) frv., 172. mál: #A vinnumarkaðsaðgerðir# frv., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur

[11:49]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Við erum að ræða hér um gríðarlega stór mál sem snúa að atvinnuleysistryggingum og vinnumarkaðsmálum og ég tek undir orð þeirra sem hafa nefnt að æskilegra hefði verið á þessum tímum að það mál sem hér liggur fyrir hefði eilítið annað snið en raun ber vitni.

Atvinnuleysistryggingar eru hluti af því öryggisneti sem langt samkomulag er um í okkar þjóðfélagi að þurfi að vera í lagi. Það er hins vegar rétt sem fram hefur komið að e.t.v. varð okkur ekki ljóst fyrr en á allra síðustu árum að ýmsir þættir þessa hluta öryggisnetsins voru orðnir fúnir og þurftu endurnýjunar við, en þá hefði verið ráðlegra að litið hefði verið til þeirrar þróunar og þeirrar breytingar sem ekki er bara orðin á okkar vinnumarkaði, heldur er fyrirsjáanleg.

Þegar þetta frv. kom fyrst inn í Alþingi mætti það harðri andstöðu, ekki bara minni hlutans hér á Alþingi heldur einnig verkalýðshreyfingarinnar. Það hefur orðið til þess að nú undir lokin á vinnslu málsins í nefnd voru teknir út úr frv. ákveðnir þættir, þeir sem þrengdu helst kosti fólksins í landinu og frv. stendur nú eftir með veigamiklum breytingum en í rauninni óskiljanlegum tilgangi og uppbyggingin líður að sjálfsögðu fyrir þessi vinnubrögð.

En ef við lítum, herra forseti, til þeirra breytinga sem eru að verða á vinnumarkaði, þá kom það fram í máli hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur að ekki er eftirspurn eftir ófaglærðu fólki. Það er ekki einstakt við íslenskan vinnumarkað. Þetta er staða sem er komin upp um öll Vesturlönd. Það er sótt eftir sérþekkingu eða menntun af einhverju tagi, einfaldlega vegna þess að störfin eru að verða flóknari og æ færri störf krefjast vöðvaorkunnar einnar. Þess vegna er það svo að þeir sem missa atvinnu vegna þess að störf þeirra hafa úrelst, vegna þess að vélar eða ný tækni hefur leyst störf þeirra á annan hátt en áður var gert, þurfa alveg sérstakra ráðstafana við. Og frv. eins og það var upphaflega var ekki ýkja vinsamlegt gagnvart þessum hópi.

Síðan er annar hópur á markaðnum sem einnig verður atvinnulaus en má kannski frekar rekja atvinnuleysi til tafar, þ.e. það fólk fær ekki atvinnu umsvifalaust heldur verður á töf vegna þess að menn eru að leita bæði að vinnu við hæfi sinnar þekkingar og menntunar og markaðurinn er líka að leita e.t.v. nákvæmar en fyrr að réttum starfsmönnum.

Þannig hafa orðið miklar breytingar að þessu leytinu til á íslenskum vinnumarkaði. En það eru líka að verða breytingar á vinnumarkaðnum hvað það varðar að fjarlægðir, sem áður gerðu það að verkum að vinnumarkaður í litlu plássi úti á landi gat verið mjög einangraður, eru að styttast vegna bættra samgangna og vegna allt annarra aðstæðna. En þó svo að þær aðstæður hafi breyst, þá þýðir það ekki endilega að fólk sé alveg tilbúið til þess að breyta því munstri sem það hefur komið sér upp varðandi atvinnuþátttöku og það er ekki nema sanngjarnt að fólki sé gefinn ákveðinn aðlögunartími til þess að takast á við þessar breytingar. Að svipta fólk atvinnuleysisbótum vegna þess að það treystir sér ekki til þess að taka atvinnu í öðru byggðarlagi, þar sem samgöngur kunna að vera hæpnar yfir vetrartímann, er ekki aðferð til þess að aðlaga þann hugsunarhátt sem einu sinni var bundinn við hið þrönga svæði sveitarfélagsins því að möguleikar eru í raun breyttir. Mér finnst að þessar miklu breytingar hafi ekki verið íhugaðar nógu nákvæmlega við gerð þessa frv. og að til þeirra hafi ekki verið tekið það tillit sem við hefðum þurft á að halda einmitt núna vegna þess að það eru miklir breytingatímar. Við þurfum löggjöf sem tekur á eða mætir þeim aðstæðum sem nú eru og eins og ég rakti áðan eru ekki einstakar fyrir Ísland, heldur er sama tilhneigingin á öllum Vesturlöndum.

Tilurð þessa frv., herra forseti, hefur verið rakin hér prýðilega af öðrum þeim sem rætt hafa um þessi mál og ég vil nota þetta tækifæri til að deila áhyggjum með þeim sem hér hafa komið upp, áhyggjum vegna þess hvernig frv. lítur út núna og hvernig löggjöf við erum að fá. Í hana vantar því miður, eins og ég hef reynt að benda á, þá framsækni og í rauninni þá víðsýni, þá opnun gagnvart þeim breytingum sem eru að verða á vinnumarkaði sem við þurfum helst á að halda.

Það er forvitnilegt, herra forseti, að velta því fyrir sér hvernig hæstv. ráðherra ætlar að snúa sér gagnvart 1. gr. frv. þar sem fjallað er um skilyrði bótaréttar. Ég hafði skilið það svo að svokallað einyrkjafrv. mundi fylgja þessum tveimur inn í þingið og verða rætt samhliða, enda kemur fram í 1. gr. frv. að það er búið að taka út ákvæði um það að einyrkjar þurfi að hafa hætt atvinnurekstri. Það segir í greinargerð með frv. að talin hafi verið þörf á sveigjanlegri reglum heldur en þar voru inni, en við höfum ekki séð eða heyrt önnur svör varðandi þann sveigjanleika en þann að þrír hópar einyrkja eru teknir út úr og að þeim virðist eiga að snúa tilteknu öryggisneti. Hvað aðra varðar höfum við engin svör fengið enn. Þess vegna væri fróðlegt að heyra hver er hugsun hæstv. ráðherra með framhald þess máls.

Það eru margir hópar svokallaðra einyrkja í íslensku samfélagi og þeim hefur verið að fjölga á undanförnum árum. Eftir því sem fleiri hafa verið ráðnir á svokallaða verktakasamninga, sem hefur verið mjög áberandi ráðningarform á undanförnum árum bæði hjá ríkinu og á almenna markaðnum, þá hafa menn ekki notið þess öryggisnets sem verkalýðshreyfingin hefur þó hannað og búið til fyrir sína félagsmenn. Þessum einkstaklingum hefur verið að fjölga og þeir eru í mun fleiri greinum en bara í hópi vörubílstjóra, bænda eða smábátasjómanna eins og einyrkjafrv. lýtur að. Því hljótum við einhvern veginn að verða að leysa mál þessara hópa og ég auglýsi eftir þeim hugmyndum sem liggja að baki þeirri breytingu sem í þessu tilfelli á að gera á lögunum, ef þetta verður verður að lögum. Og auðvitað hlýtur að hafa verið einhver hugsun varðandi þessa hópa að baki þessari breytingu fyrst rökin eru þau að þurft hafi sveigjanlegri reglur.

[12:00]

Ég vil ekki, herra forseti, ljúka máli mínu án þess að víkja að því frv. sem snýr að vinnumarkaðsaðgerðum. Ég tek undir og ítreka þá gagnrýni sem hér hefur komið fram á það fyrirkomulag sem verið er að setja á. Markmið þessarar löggjafar er að hafa eða koma á jafnvægi á milli framboðs og eftirspurnar vinnuafls í landinu. Það er býsna stórt markmið en ég er ekki viss um, herra forseti, að ríkisstofnun sé endilega best til þess fallin að ná slíku markmiði.

Það hefur komið fram af hálfu þeirra sem talað hafa fyrir hönd minni hlutans, og ég vil ítreka það, að sveitarfélögin, þ.e. vettvangur þar sem til er staðarþekking hlýtur að vera betri til þess að taka á vinnumarkaðsmálum, til að koma inn með vinnumarkaðsaðgerðir heldur en ríkisstofnunin. Það hlýtur að vera eðlilegt að setja bæði ábyrgð og framkvæmd á þann aðila sem líklegastur er til að leysa verkefnið best af hendi. Ég veit að stofnanir af þessu tagi eru rótgrónar víða annars staðar, en ég er ekki endilega viss um að ef verið væri að taka þetta fyrirkomulag upp í dag þá væri það nákvæmlega svona. Það hefur orðið mikil þróun hvað varðar verkefni, hverjir fara með hin ýmsu velferðarverkefni og hjá okkur hefur tilhneigingin á undanförnum árum verið sú að flytja þessi verkefni frá ríki og til sveitarfélaganna. Þess vegna er það sem hér er verið að gera í fullkominni andstöðu eða mótsetningu við annað sem gert hefur verið og óskiljanlegt í því samhengi líka.

Ég vil svo að lokum taka undir það sem kom fram áðan að starfsmenntun í atvinnulífinu og stuðningur við ýmis verkefni kvenna, sá sjóður sem kenndur hefur verið við Jóhönnu Sigurðardóttur, þau verkefni sem hafa verið unnin og það nám sem fram hefur farið á vegum þessara aðila eiga ekki heima í Atvinnuleysistryggingasjóði. Þessi verkefni, hvort sem um er að ræða nám eða vinnu, eru hugsuð sem hluti af nýsköpun, af sókn en ekki sem hluti af lausnum varðandi atvinnuleysi eftir að það er orðið.

Mér fannst sú hugmynd sem fram kom áðan um að nær hefði verið að tengja þessa þætti nýsköpunarsjóði sem ríkisstjórnin hefur verið að fjalla um, mér fannst sú hugmynd reyndar þess eðlis að ég skora á hæstv. ráðherra að líta til þess. Þar væri annar bragur á þessum málum og öllu líklegri að mínu mati til þess að gera þessum sjóðum tveimur fært að sinna því hlutverki sem þeim var upphaflega ætlað.