Atvinnuleysistryggingar

Fimmtudaginn 27. febrúar 1997, kl. 12:06:06 (4028)

1997-02-27 12:06:06# 121. lþ. 81.1 fundur 171. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (heildarlög) frv., 172. mál: #A vinnumarkaðsaðgerðir# frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur

[12:06]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil fagna þeim skilningi sem hér kemur fram í orðum hæstv. ráðherra á kjörum þeirra sem hafa á undanförnum árum og áratugum unnið sem verktakar bæði hjá hinu opinbera og á almenna markaðnum. Hann nefnir hér einn tiltekinn hóp sem eru þýðendur. Þeir eru fleiri. Ég hygg að hv. félmn. hafi orðið vör við fleiri slíka hópa sem væri mjög æskilegt að fengju að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og það yrði vissulega rós í hnappagat ráðherrans ef honum tækist í góðu samstarfi við Alþingi og hv. nefnd að leysa mál þess stóra hóps réttindalauss fólks sem hefur þurft að sæta þeim afarkostum á undanförnum árum að vinna sem verktakar við sitt starf, en leit eðlilega til þess nokkru vonarauga þegar það heyrði um einyrkjasjóðinn.