Staða drengja í grunnskólum

Fimmtudaginn 27. febrúar 1997, kl. 12:08:01 (4029)

1997-02-27 12:08:01# 121. lþ. 81.3 fundur 227. mál: #A staða drengja í grunnskólum# þál., Flm. SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur

[12:08]

Flm. (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég stend hér upp til þess, sýnist mér, að ljúka þeirri umræðu sem hófst fyrir viku síðan um stöðu drengja í grunnskólum. Þá varð hér býsna mikil og góð umræða um stöðu grunnskólans og um möguleika hans til þess að mæta þörfum nemenda sinna. Þeir hv. alþm. sem tóku þátt í umræðunni voru á einu máli um að hér væri mál sem þyrfti að skoða öðruvísi en gert hefur verið, þ.e. að þær niðurstöður, sá mælanlegi munur sem er á gengi stúlkna og drengja í þeim tilvikum sem hér eru rakin, hljóti að verða okkur tilefni til þess að skoða þessi mál betur en gert hefur verið.

Menn hafa nefnt það oft í umræðu um stöðu drengja í grunnskólum, og hún hefur verið nokkur á undanförnum árum, að það yrði að líta til stúlknanna einnig. Það er vissulega gert og hlýtur að verða gert ef farið verður að vilja flm. þessarar tillögu og nefnd sett á laggirnar til að skoða málin vegna þess að um leið og menn horfa til þess að drengir taka í rauninni 70% þeirrar þjónustu sem skólinn býður upp á, þá setja menn eðlilega spurningarmerki við það af hverju stelpurnar fá þá ekki nema þessi 30%. Er það vegna þess að þær eru látnar mæta afgangi eða hvernig er staða þeirra að öðru leyti?

Ég gat þess í framsöguræðu minni að jafnréttisbaráttan hefði á undanförnum árum og áratugum fyrst og fremst verið borin uppi af konum og svo virðist, herra forseti, sem hún hafi haft ákveðin jákvæð áhrif á stúlkurnar. Sumir vilja bæði rekja til þess batnandi námsárangur og einnig hitt að rannsóknir hafa sýnt að stúlkur hafa öðlast bæði félagslegan styrk og sjálfstraust á undanförnum árum. Þrátt fyrir þetta er enn þörf á því að styrkja stúlkurnar og sannfæra þær betur um að þær séu ekki veika kynið en við verðum að horfa til þess líka, og það er e.t.v. það sem er nú svo tímabært, að drengirnir hafa ekki síður en stúlkur liðið fyrir eða verið fórnarlömb kynbundinna fordóma og staðlaðra fyrirmynda. Rannsóknir benda einnig til þess að drengir séu nú undir mun meiri þrýstingi en stúlkur hvað það varðar að haga sér strákalega, leika sér með strákaleikföng o.s.frv. Jafnréttisbaráttu kvenna virðist hafa tekist að víkka út þann ramma sem stúlkur og konur ,,mega`` haga sér innan, en strákarnir virðast samkvæmt þeim rannsóknum sem ég er að vitna til enn vera undir mikilli pressu hvað það varðar að vera strákar.

Menn hafa líka nefnt það í þessari umræðu að ekki ætti að tengja þetta vandamál einungis skólunum. Það er auðvitað mikið rétt en það er hins vegar svo að samskipti einstaklinga í hópum, þegar um börn er að ræða, fara fyrst og fremst fram í skólunum, í leikskólanum, grunnskólunum og síðan í framhaldsskólum, þannig að sú félagsmótun sem fram fer í hópnum, og samskipti kynjanna þar með, þróast fyrst og fremst á þessum stöðum vegna þess að þar fara samskiptin í hópum fram. Þess vegna er svo mikilvægt að kennarar á öllum þessum skólastigum séu meðvitaðir um að það skiptir verulegu máli hvernig umfjöllunin er um kynferði og jafnrétti.

Í Kennaraháskóla Íslands er nú fjallað um þessi mál, þ.e. um kynferði og jafnrétti, á námskeiði í þróunarsálfræði á fyrsta ári vegna þess einmmitt að á síðustu árum hefur athygli fræðimanna í auknum mæli beinst að kynferði sem áhrifavaldi í þroska barna. Menn eru búnir að gera sér grein fyrir því að börn læra kyndbundna hegðun vegna þess að þeim er umbunað fyrir það sem kölluð er rétt hegðun eða viðunandi hegðun og svo fá þau aftur neikvæð viðbrögð gagnvart óæskilegri hegðun. Við getum svo velt því fyrir okkur hver hefur verið talin rétt og viðeigandi hegðun og framkoma, annars vegar stráka og hins vegar stelpna og við vitum öll að þar hefur ekki verið um sömu kröfur að ræða.

Á vegum starfshóps í menntmrn. var gefin út skýrsla árið 1990 þar sem gerðar voru tillögur um stefnu og markmið í skólastarfi. Þar var lögð áhersla á að jafnrétti yrði haft að leiðarljósi. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Í skólastarfi skal leitast við að efla sjálfstæði og sjálfsvirðingu bæði stúlkna og drengja og búa þau jafnt undir virka þátttöku í fjölskyldulífi og mótun samfélagsins alls.``

Hér eru háleit markmið og í raun sjálfsögð. Það er samt sem áður svo, herra forseti, að ef kennarar ætla sér að sinna þessu verkefni eins og þarna er lagt upp með, þá verða þeir að brjóta þær venjur sem ríkja í skólastarfinu og þeir verða einnig að leggja á sig vinnu við að móta eigin námskrá og námsefni. Það er þess vegna sem við flm. teljum að umfjöllun um þessi mál eigi heima við gerð nýrrar námskrár fyrir grunnskóla, að það sé þar sem eigi að byrja á því að leggja áherslurnar af virkilegum krafti til þess að við getum náð þeim árangri sem sóst er eftir, þ.e. að við náum því jafnrétti að hvort heldur börn eða fullorðnir einstaklingar geti náð árangri án tillits til þess hvort þau eru karlar eða konur og þau þurfi hvorki í skólum né annars staðar í samfélaginu að líða fyrir kynferði sitt eða þurfa að búa við svo þröngan ramma að þau fái ekki notið hæfileika sinna.

Aðeins að lokum, herra forseti. Í þessari umræðu hefur komið fram að 70% þeirra sem fá sérkennslu- og sálfræðiþjónustu í skólunum eru drengir. Rannsóknir hafa líka sýnt að drengir taka um það bil þetta hlutfall af tíma kennarans og sumir hafa nefnt þar til hærri tölur eða allt að 80%. Þess vegna veltum við auðvitað fyrir okkur hvað verður um stelpurnar á meðan og hvaða félagsmótun fer fram einmitt við þær aðstæður að drengirnir með fyrirferð taka athygli og tíma en þær bíða.

Við höfum líka nefnt það í þessari umræðu og nokkrir hv. þm. hafa komið inn á það að hlutfall drengja er óhugnanlega hátt þegar litið er til slysa, sjálfsvíga og svo einnig innilokunar á stofnunum ýmiss konar. Ég held að við verðum að fara að horfa af meiri alvöru á þessi mál, og um það hefur mér fundist menn vera nokkuð sammála, meiri alvöru en verið hefur. Það eru ýmsar tilgátur sem settar hafa verið fram um orsakir. Menn hafa sett fram tilgátur um mismunandi þroska og ekki bara tilgátur. Rannsóknir sýna á ýmsum sviðum að svo muni vera. Menn hafa talað um að það hafi sín áhrif að konur sinni uppeldisstörfum fyrst og fremst, bæði inni á heimilum og eins í skólum. Ég veit að frændur okkar á hinum Norðurlöndunum, ekki síst í Danmörku, eru nokkuð uppteknir einmitt af því. Í framhaldi af því hefur verið talað um að drengi vanti þar af leiðandi eðlilegar fyrirmyndir. Það hefur verið talað um að orsakirnar kunni að vera vegna erfiðleika drengja við að tjá tilfinningar og síðan hefur verið bent á að áhrif umhverfis á kynferðisvitund, þ.e. að börn læri ákveðna hegðun, svokallaða rétta hegðun, hafi einnig sín áhrif. Ég held að þetta séu allt hlutir sem þurfi að skoða og ég er sannfærð um að við hér á Íslandi höfum vegna fámennis einstakt tækifæri til þess að bregðast við þessum hlutum með þeim hætti að við getum boðið börnunum okkar, ef svo má að orði komast, upp á betra uppeldi að þessu leytinu til heldur en flestar aðrar þjóðir.