Staða drengja í grunnskólum

Fimmtudaginn 27. febrúar 1997, kl. 12:19:04 (4030)

1997-02-27 12:19:04# 121. lþ. 81.3 fundur 227. mál: #A staða drengja í grunnskólum# þál., PHB
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur

[12:19]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur fyrir framlag hennar í þessu máli. Hér er til umræðu mjög brýn þáltill. sem tekur á miklum vanda. Ég ætla ekki að fara mikið í gegnum þetta, ég er að mestu leyti sammála hv. þm. En ég vil benda á að drengir hafa fyrirmyndir sem passa illa við það hlutverk sem þeim er ætlað. Þar á ég við þær fyrirmyndir sem felast í tölvuleikjum og kvikmyndum, það eru ofbeldiskenndar fyrirmyndir og á margan hátt neikvæðar sem brjóta niður í staðinn fyrir að byggja upp. Ég held að það sé mjög mikilvægt að reyna að átta sig á þeirri klemmu sem drengir lenda í í grunnskólunum þar sem fyrirmyndin fer ekki saman við það hlutverk sem þeim er hins vegar ætlað að uppfylla og því held ég að það sé mjög brýnt að taka á þessu. Og það er rétt sem hv. þm. nefndi að vandamál með börn í grunnskólum eru að mestu leyti vegna drengja. Sem dæmi má nefna þau börn sem þjást af ofvirkni sem er umtalsverður hluti. Ofvirkni lýsir sér öðruvísi hjá drengjum heldur en hjá stúlkum. Stúlkur verða bældar og niðurdregnar en hjá drengjum kemur þetta fram í árásargirni og uppivöðslusemi. Ég held að það sé mjög brýnt að skoða þessa hluti alla og reyna að ráða bót á þessu því að hér er um að ræða mikið mein sem er í allra þágu að sé lagað.