Staða eldri borgara í skatt- og almannatryggingakerfinu

Fimmtudaginn 27. febrúar 1997, kl. 13:58:00 (4041)

1997-02-27 13:58:00# 121. lþ. 81.95 fundur 215#B staða eldri borgara í skatt- og almannatryggingakerfinu# (umræður utan dagskrár), PHB
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur

[13:58]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við Íslendingar búum við tvöfalt kerfi lífeyristrygginga. Í fyrsta lagi almannatryggingar, sem veita 53 þús. kr. á mánuði fyrir mann sem aldrei hefur unnið á vinnumarkaði eða aldrei greitt í lífeyrissjóð, og svo hins vegar fjölda lífeyrissjóða sem greiða 60--80% af launum þegar menn eru búnir að vera í þeim svona 30--40 ár.

Þessi tvö kerfi eru mjög góð og fullnægjandi hvort fyrir sig. Þegar þau fara saman veita þau greinilega oftryggingu. Og vegna þess að þau veita slíka oftryggingu, þá hafa menn búið til ákaflega, og ég segi bara verulega flókið kerfi á skerðingum til þess að mæta þessari oftryggingu sem sífellt verður meiri og meiri.

Frá 1980 og jafnvel frá 1974 var skylduaðild að lífeyrissjóði. En reglurnar taka ekki mið af því. Það er ekki gert ráð fyrir að menn hafi borgað í lífeyrissjóð frá þessum tíma og það er þar sem vandinn liggur.

Herra forseti. Ef gert væri ráð fyrir því að fólk hefði farið að lögum frá 1974 og frá 1980 og borgað í lífeyrissjóð og gert væri ráð fyrir því að menn væru með þann lífeyri, þá þyrftum við ekki þetta kerfi skerðinga sem við höfum í dag. Þeir sem hafa borgað í lífeyrissjóð í 20--30 ár fá í rauninni sáralítið fyrir það umfram hina sem hafa svikist um að greiða í lífeyrissjóð þrátt fyrir lagaskyldu. Þetta er mjög hart fyrir fólk að horfa upp á. Það sem er nauðsynlegt og brýnt er að koma á eðlilegum samskiptum almannatrygginga, lífeyrissjóða og skattkerfisins.

Það er svo önnur saga að það er sjálfsagt að veita öldruðum alla þá heilbrigðisþjónustu sem þeir þurfa á að halda án tillits til tekna. Það er óeðlilegt að skattleggja tekjurnar aftur eftir að búið er að skattleggja þær einu sinni.