Staða eldri borgara í skatt- og almannatryggingakerfinu

Fimmtudaginn 27. febrúar 1997, kl. 14:02:06 (4043)

1997-02-27 14:02:06# 121. lþ. 81.95 fundur 215#B staða eldri borgara í skatt- og almannatryggingakerfinu# (umræður utan dagskrár), ÁJ
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur

[14:02]

Árni Johnsen:

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þann málflutning að mikilvægt er að tryggja í alla staði réttindi eldri borgara, taka undir orð hæstv. fjmrh. um að mikilvægt sé að einfalda alla hluti í framsetningu er varðar réttindi eldri borgara sem annarra í landinu og tryggja að ekki verði misvísun til lengri tíma í þeim efnum. Það er mikilvægt að eyða allri óvissu í málefnum sem varða réttindi aldraðra borgara, tryggja eðlileg og sanngjörn réttindi þeirra. Vissulega hefur margt áunnist í þeim efnum, bæði fyrir atbeina ríkisvalds, bæjarfélaga og ekki síst fyrir atbeina eldri borgara sjálfra sem hafa verið duglegir í að byggja upp starfsemi og nýta ýmsa möguleika sem þeir hafa ýtt á með athafnasemi sinni.

Ágætisvinur minn í Vestmannaeyjum, Þorsteinn Þorsteinsson, í daglegu tali Doddi í olíunni, hefur bent á fyrir stuttu sem einn úr hópi eldri borgara að það sé mikilvægt að ríkisvaldið fari ekki að gera út á eldri borgara landsins, það sé enginn bisness í því, eins og Doddi orðaði það. Mikilvægt sé að hugsa til enda samsetningu allra skatta og gjalda og tryggja eins vandlega og unnt er réttindi eldri borgaranna sjálfra.