Staða eldri borgara í skatt- og almannatryggingakerfinu

Fimmtudaginn 27. febrúar 1997, kl. 14:05:50 (4045)

1997-02-27 14:05:50# 121. lþ. 81.95 fundur 215#B staða eldri borgara í skatt- og almannatryggingakerfinu# (umræður utan dagskrár), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur

[14:05]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þær umræður sem hafa orðið hér. Hv. þm. Svavar Gestsson talaði um kaldranalegan boðskap þegar rætt var um að samræma skerðingar vegna jaðaráhrifa í þessu kerfi, bótakerfi almannatrygginganna. Af hverju eru skerðingar? Þær eru ekki nýjar af nálinni. Þær voru einnig þegar hann var við stjórn. Það er vegna þess að menn eru að reyna að beina fjármununum til þeirra sem þurfa raunverulega á þeim að halda. Og það er nauðsynlegt að samræma þessar skerðingar og gera það sem allra fyrst til þess að út úr dæminu komi ekki sá óskapnaður sem sumir hv. þm. hafa gert hér að umtalsefni.

Kaldranalegasta kveðja til aldraðra er þegar stjórnmálamenn sitja í ríkisstjórnum og safna skuldum, láta ríkið safna skuldum þannig að ríkið hefur ekki efni á því að hjálpa þeim sem eru hjálparþurfi. Það eru kaldranalegustu kveðjurnar sem þingið getur sent frá sér.

Hér var sagt að það væri siðleysi að aftengja bætur við laun. Má ég minna á að það hafði engin hækkun orðið um sl. áramót, þessi 2% hækkun hefði alls ekki komið til skjalanna ef eingöngu hefði verið miðað við laun. Menn verða að átta sig á því hvað þeir eru að segja þegar þeir segja slíkt hér í ræðustólnum.

Það hefur komið skýrt fram í dag, bæði af minni hálfu og annarra, að þegar kjarasamningarnir liggja fyrir þá verða bæturnar endurskoðaðar. Kjör aldraðra eru misjöfn. Það sem skiptir máli er að horfa til lengri tíma og leysa málið með stefnu eins og hv. fyrirspyrjandi gat um. Ég hef bent á í mínum málflutningi að það er mikilvægast að koma í veg fyrir halla á ríkissjóði, í öðru lagi að það sé sem árekstraminnst samspil lífeyriskerfanna og í þriðja lagi að auka fjölbreytni sparnaðar, sérstaklega langtímasparnaðar. Þetta er það sem skiptir máli þegar til lengri tíma er litið.