Utandagskrárumræður

Fimmtudaginn 27. febrúar 1997, kl. 14:08:42 (4046)

1997-02-27 14:08:42# 121. lþ. 81.98 fundur 226#B utandagskrárumræður# (um fundarstjórn), GHall
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur

[14:08]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Enn ein utandagskrárumræða hefur farið fram og væntanlega er önnur hér á eftir. Ég verð að segja það og hef nefnt það áður hér á hinu háa Alþingi að það er vægast sagt sérkennilegt hvernig utandagskrárumræðu getur borið að. Í þingsköpum Alþingis segir svo í 50. gr. um utandagskrárumræður, með leyfi forseta:

,,Í allt að hálftíma á venjulegum fundartíma geta þingmenn fengið tekin fyrir mál utan dagskrár, hvort heldur er í formi yfirlýsingar eða fyrirspurnar til ráðherra. Skal þá þingmaður bera fram við forseta ósk sína hér um eigi síðar en tveimur klukkustundum áður en þingfundur hefst.``

Virðulegi forseti. Þetta er á stundum óviðunandi fyrir þá þingmenn sem jafnvel eru að störfum í nefndum annars staðar og koma hingað beint á þingfund og eru allsendis óundirbúnir að mæta þessum umræðum. Það er eindregin ósk mín, virðulegi forseti, að forsætisnefndin taki þetta til alvarlegrar íhugunar. Það er ekki eðlilegt fyrir flesta þingmenn að svo skammur fyrirvari sé varðandi þetta mál sem raun ber vitni um.