Öryggismál fiskiskipa og stöðugleikamælingar

Fimmtudaginn 27. febrúar 1997, kl. 14:13:19 (4050)

1997-02-27 14:13:19# 121. lþ. 81.96 fundur 216#B öryggismál fiskiskipa og stöðugleikamælingar# (umræður utan dagskrár), Flm. KPál
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur

[14:13]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég fullyrti í utandagskrárumræðu á hinu háa Alþingi í byrjun vikunnar að um 100 skip væru á sjó sem ekki ættu að vera þar. Þessi yfirlýsing hefur vakið mikla athygli og er ég mjög ánægður með það því að umræða af þessu tagi styrkir kröfuna um að öryggismál sjómanna séu í lagi.

Sem annar af tveim þingmönnum á Alþingi sem hefur próf úr sjómannaskóla og langa reynslu af sjómennsku tel mig af þeirri ástæðu hafa meiri skyldum að gegna í að upplýsa hér í hvílíku óefni öryggismál sjómanna eru. Það er ástæðan fyrir þessari utandagskrárumræðu.

Það hefur lengi verið máltæki sjómanna: Flýtur á meðan ekki sekkur, og á það að sýna hetjulund sjómanna sem alla tíð hafa sýnt ótrúlegt afskiptaleysi þegar kemur að því að vernda sitt eigið líf og öryggi. Það hefur lítið breyst, enda allt of mörg sjóslys sem rekja má beint til þess að öryggi var ábótavant og eftirlit ekki sem skyldi.

Ég hef verið spurður að því hvort ég geti staðfest töluna um 100 skipin. Það vill svo til að hin nýja stofnun, Siglingastofnun Íslands, er nýbúin að gera úttekt á stöðugleika 728 skipa af 2.525 skipum á skipaskrá. Í könnuninni kom í ljós að um 80% tréskipa undir 15 metrum að lengd stóðust ekki kröfur um stöðugleika. Um 52% tréskipa 15--24 metra löng stóðust ekki kröfur og um 28% málmskipa 15--24 metrar að lengd stóðust ekki kröfur um stöðugleika. Af þessum 728 skipum sem skoðuð voru stóðst ekki 191 skip stöðugleikakröfur. Mín tala er því allt of lág. Þá er ekki tekið tillit til þeirra skipa sem hafa haffæriskírteini með athugasemdum vegna annarra óuppfylltra krafna um öryggi, eins og neyðarútganga úr vél, káetu, breytinga vegna vélaskipta, skilrúmabreytingar og fleira.

Það er heldur ekki vitað hve mörg skip af þeim sem stóðust tvo stöðugleikapunkta og eru talin í lagi í dag uppfylli kröfur um 6 eða 8 punkta hallamælingar sem krafist er til að fá haffæriskírteini. Það er því spurningin hvort hér sjáist aðeins toppurinn af ísjakanum. Þetta eru einhverjar verstu fréttir sem ég hef fengið um ástand íslenska fiskiskipaflotans.

Fjöldi skipa eru hreinar dauðagildrur þar sem endalausar undanþágur frá eðlilegum öryggiskröfum hafa tíðkast ár eftir ár og haffæriskírteini jafnvel gefin út hrein þó skipin væru vart sjófær. Ótrúleg staða. Því hefur verið borið við að lög sem farið er eftir um eftirlit með skipum sé ekki afturvirk og nái ekki yfir skip sem eru byggð eftir setningu reglna frá 1975. Samkvæmt mínum heimildum er þetta ekki rétt. Hér þarf aðeins að breyta reglugerð, sbr. lög nr. 35/1993, um eftirlit með skipum, en öryggiskröfur hafa ávallt verið háðar reglugerðarvaldi ráðherra. Málið er grafalvarlegt og grípa verður til aðgerða strax.

Ég bind miklar vonir við að nýstofnuð Siglingastofnun Íslands, sem er nýtekin við hlutverki Siglingamálastofnunar, taki vel utan um þessi mál. Tillögur stofnunarinnar eru skynsamlegar að mínu mati nema að einu leyti: Að gefa fimm ára aðlögun svo að öryggismál komist í lag. Þetta er allt of langur frestur, hann má ekki vera lengri en eitt ár.

Ég vil hér og nú fara þess á leit við hæstv. samgrh., herra forseti, að hann kynni sem allra fyrst aðgerðaplan þar sem því markmiði verði náð að öll skip standist reglur um smíði og búnað skipa. Til þess þarf að breyta reglugerð, gera ráð fyrir fjármögnun áætlunar, breytingar á úreldingarreglum skipa þurfa líka að koma til til að breytingar á sumum skipum séu mögulegar og margt annað.

Á meðan aðgerðir standa yfir fer ég fram á að hæstv. samgrh. geri opinberan lista yfir þau 191 skip sem ekki standast öryggiskröfur í dag. Þetta er krafa sem er gerð vegna þeirra sjómanna sem þar eru og fjölskyldna þeirra. Þennan lista hef ég ekki fengið þrátt fyrir ósk þar um og hvað sem veldur.

Herra forseti. Þegar ástand mála eins og hér um ræðir er svo lélegt sem raun ber vitni er það venjan að leita að sökudólgum. Að kenna einhverjum einum um ástandið tel ég mikla einföldun, enda margir sem koma að skipum án þess að stjórnvöld geti ein borið ábyrgð á því. Skipstjórnarmenn og útgerðarmenn verða sérstaklega að taka sér tak í þessu efni og bera ábyrgð á því að öryggi áhafna sinna sé ávallt í lagi. Ábyrgð samgrh. og Siglingastofnunar Íslands er fólgin í því fyrst og fremst á þessari stundu að láta hendur standa fram úr ermum og það strax. Það er krafa dagsins í öryggismálum þeirra hundruð sjómanna sem eiga líf sitt undir því að fyllsta öryggis sé gætt.