Öryggismál fiskiskipa og stöðugleikamælingar

Fimmtudaginn 27. febrúar 1997, kl. 14:26:19 (4053)

1997-02-27 14:26:19# 121. lþ. 81.96 fundur 216#B öryggismál fiskiskipa og stöðugleikamælingar# (umræður utan dagskrár), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur

[14:26]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. málshefjanda fyrir að hafa tekið þetta mál uppi á þingi. Ég get alls ekki verið sammála hæstv. ráðherra að þetta sé ekki mál sem eigi að ræða hér. Mér finnst þetta mjög alvarlegar upplýsingar sem koma fram í skýrslu Siglingastofnunar Íslands um stöðugleika íslenskra fiskiskipa. Allt að fjórðungur íslenskra fiskiskipa stenst ekki reglur um stöðugleika. Mér finnst þetta mjög alvarlegt og ég hefði gjarnan viljað spyrja hæstv. ráðherra: Hversu margir sjómenn eru á skipum sem ekki uppfylla reglur um stöðugleika? Hversu margir sjómenn eru á þessum skipum?

Það kemur einnig fram í þessari skýrslu að stór hluti íslenskra fiskiskipa er smíðaður fyrir gildistöku reglna um stöðugleika. Hvernig stendur á því að reglur eru ekki látnar gilda yfir öll íslensk skip sem eru á sjó? Mér finnst þetta svo alvarlegar upplýsingar sem koma hér fram að mér finnst að alveg skilyrðislaust eigi að ræða þetta hérna þegar við horfum líka til að þetta er einn aðalatvinnuvegur okkar, sjómennskan, og það á að huga að öryggi sjómanna.

Ég var að renna í gegnum þessa skýrslu og það fór um mig þegar ég sá hvernig ástandið hefur verið fyrir nokkrum árum. Það er verið að tala um átak sem var gert á Vestfjörðum og hæstv. ráðherra gerði að umtalsefni. Það voru kannaðir 44 bátar á Vestfjörðum og kom í ljós að af 44 bátum reyndist aðeins einn uppfylla öll gildandi stöðugleikamörk. Mér finnast þetta uggvænlegar upplýsingar og ég velti því fyrir mér að hefði svona skýrsla komið út í útlöndum, hvort viðkomandi ráðherra hefði bara ekki þurft að segja af sér við það að fá svona upplýsingar frá sinni stofnun um hvernig ástandið er.

En ég verð að segja að ég tel það löngu tímabært að tala um þessi mál og þakka fyrir úttekt Siglingastofnunar Íslands á þessum málum og vonast til að það verði tekið strax á þessum málum og reglurnar verði látnar gilda afturvirkt.