Öryggismál fiskiskipa og stöðugleikamælingar

Fimmtudaginn 27. febrúar 1997, kl. 14:28:43 (4054)

1997-02-27 14:28:43# 121. lþ. 81.96 fundur 216#B öryggismál fiskiskipa og stöðugleikamælingar# (umræður utan dagskrár), EKG
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur

[14:28]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Það mál sem við ræðum hér er í senn þýðingarmikið, viðkvæmt og margslungið og þess vegna gersamlega borin von að hægt sé að fjalla um það nema með afar yfirborðslegum hætti á þessum tveimur mínútum sem þingmenn hafa til ráðstöfunar. Það er mikil ástæða til að vara alvarlega við því að menn fjalli um þetta vandasama viðfangsefni í upphrópana- og ásakanastíl. Hér stöndum við einfaldlega frammi fyrir gríðarlega stóru verkefni og sjómenn, útgerðarmenn og stjórnvöld verða sameiginlega að koma að því að leysa það enda snertir það slíkt grundvallarmál sem öryggi sjómanna og allir hljóta að vera sammála um að þurfi að auka í hvívetna.

Ég vil í upphafi fagna því frumkvæði sem hin nýja stofnun, Siglingastofnun Íslands, hefur sýnt með útgáfu á skýrslu um þessi mál sem leit dagsins ljós nú í þessum mánuði en var hafin vinna við á sl. hausti. Ég vil enn fremur láta í ljósi stuðning minn við þau góðu vinnubrögð að kynna hana í siglingaráði með ósk um að þeir fagaðilar sem þar sitja taki hana til meðferðar í sínum hópum. Þessi vinnubrögð eru líklegust til að leiða til skynsamlegrar niðurstöðu.

Við skulum ekki gleyma því að þessir bátar sem nú er sagt að standist ekki stöðugleikakröfur voru almennt smíðaðir samkvæmt reglum sem Siglingamálastofnunin setti á sínum tíma og hafa siglt um með athugasemdalaus haffærisskírteini, ýmsir þeirra jafnvel áratugum saman. Eigendur þessara báta hafa þess vegna staðið í þeirri góðu trú að bátar þeirra uppfylltu öll skilyrði sem íslensk stjórnvöld setja á þessum sviðum. Í þessum bátum liggur í mörgum tilvikum afrakstur lífsstarfsins. Þetta er mikilvægt að hafa í huga þegar þau mál eru rædd vegna þess að svo háttar einfaldlega til að stærsti hluti trébátaflotans, sem á annað borð ekki uppfyllir þessar kröfur, er þannig að ekki er hægt að breyta honum að neinu viti til að uppfylla ýtrustu kröfur um stöðugleika að mati þeirra sérfræðinga sem ég hef rætt við. Það þýðir einfaldlega að eigendur þessara báta geta staðið frammi fyrir því að eignir þeirra, afrakstur lífsstarfsins, verða gersamlega verðlausar á einni nóttu. Þess vegna hvílir ótvíræð skylda á stjórnvöldum í þessum málum. Við viljum ekki að þessum flota verði útrýmt nema önnur sambærileg en örugg skip komi í staðinn. Ýmsir þessara báta gegna lykilhlutverki í atvinnulífi í mörgum sjávarplássunum og jafnframt því að við hljótum að sjálfsögðu að gera kröfur um öryggi og stöðugleika á þessum bátum, þá verðum við líka að hafa í huga þann bakgrunn sem ég hef reynt að gera hér grein fyrir í nokkrum setningum. Þessi mál verða ekki leyst nema í samstarfi sjómanna, útvegsmanna og stjórnvalda.