Öryggismál fiskiskipa og stöðugleikamælingar

Fimmtudaginn 27. febrúar 1997, kl. 14:42:25 (4060)

1997-02-27 14:42:25# 121. lþ. 81.96 fundur 216#B öryggismál fiskiskipa og stöðugleikamælingar# (umræður utan dagskrár), Flm. KPál
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur

[14:42]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að leiðrétta hv. þm. Árna Johnsen. Ég sagði aldrei að öll öryggismál sjómanna væru í miklum ólestri. Ég hef fyrst og fremst verið að vitna í skýrslu sem Siglingastofnun Íslands hefur sent mér ásamt fleiri þingmönnum.

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson sagði að ekki ætti að tala um dauðagildrur. Ég get upplýst hv. þm. um fjölda skipa sem hafa farið vegna þess að menn sáu ekki sóma sinn í því að hafa öryggismálin í þeim í lagi. Ég ætla ekki að rifja það upp í þessum ræðustól en vil taka undir með hv. þm. Stefáni Guðmundssyni og þakka honum fyrir að koma með þá hugmynd að taka þetta mál upp í samgn. Þar er hægt að upplýsa um mörg viðkvæm mál sem hafa komið upp á undanförnum árum eingöngu vegna þess að menn hafa ekki staðið að þeim öryggiskröfum sem ætlast er til samkvæmt reglum eða þá menn hafa fengið undanþágur þó svo vitað hafi verið að skipin stæðust ekki neinar öryggisreglur. Þetta er staðreynd, hæstv. ráðherra.

Mér finnst mjög leiðinlegt að heyra hæstv. ráðherra segja að ég hafi átt að vita betur því ég sé í samgn. Ég minnist þess ekki nokkurn tíma að þetta mál hafi komið upp í samgn. eða það að hæstv. ráðherra hafi beðið samgn. um að taka öryggismál sjómanna fyrir. Ég hef aldrei heyrt það fyrr en í þessari skýrslu. Þetta hefði hæstv. ráðherra aftur á móti átt að vita sem yfirmaður þessara mála og láta gera eitthvað í málinu. Það er áfellisdómur að sjálfsögðu ef það getur verið að 80% af tilteknum bátahópi séu undir viðmiðunarmörkum. (Gripið fram í.) Það er áfellisdómur og ekki hægt að kalla það neinum öðrum nöfnum. Það er áfellisdómur ef 20% af þeim skipum sem eru yfir 25 metrar eru undir viðmiðunarmörkum.

Að segja, eins og hv. þm. gerði, að það rýri gildi skýrslunnar að mælipunktarnir séu fleiri en voru teknir (Forseti hringir.) finnst mér alveg út í hött. Það rýrir hana alla vega ekki að því leytinu til að hún lýsir ekki betra ástandi en það er. Það gæti hugsanlega verið verra. Hún lýsir ekki betra ástandi en er. Þess (Forseti hringir.) vegna vil ég ítreka, hæstv. forseti, þá kröfu mína til hæstv. samgrh. að hann upplýsi Alþingi um þau skip sem ekki uppfylla öryggiskröfur og hann gefi yfirlýsingar um að aðgerðaplan verði upplýst fyrir hv. samgn. þegar þar að kemur. (Gripið fram í: Það ætti þá að kalla þau í land.)