Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 27. febrúar 1997, kl. 14:48:49 (4062)

1997-02-27 14:48:49# 121. lþ. 81.4 fundur 268. mál: #A stjórnarskipunarlög# (nytjastofnar í hafi) frv., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur

[14:48]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Það frv. sem hér er til umræðu, frv. sem hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir mælti fyrir fyrir hádegisverðarhlé, snýst um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands til þess að tryggja sameignarákvæði laganna um stjórn fiskveiða. Hér er borin fram tillaga um það að breyta stjórnarskránni í þá veru að það verði alveg tryggt að fiskstofnarnir í hafinu séu sameign íslensku þjóðarinnar, ekki bara í orði heldur líka á borði. Eins og kom fram í framsögu hv. þm. er hér um að ræða mál sem virðist geta fagnað allvíðtækri samstöðu hér í sölum Alþingis sakir þess að það mun hafa verið áhugamál fyrrverandi ríkisstjórnar að mál sem þetta næði fram að ganga og sömuleiðis núverandi ríkisstjórnar. Við verðum því að ætla að hér sé komið fram mál sem verði samþykkt og að unnið verði að breytingum á stjórnarskránni í þessa veru.

Við getum velt því fyrir okkur af hverju bæði fyrrverandi ríkisstjórn og núverandi hafa áhuga á því að stjórnarskránni verði breytt í þessa veru og af hverju hv. þm. sér sig knúna til að drífa málið hingað inn í þingið. Þar er auðvitað um að ræða, herra forseti, viðbrögð við fiskveiðistjórnarkerfinu og framkvæmd þess. Viðbrögð við kerfi sem er talið afar hagkvæmt og á sinn þátt í því að útgerð er nú rekin með miklum hagnaði á Íslandi þó að skattgreiðslur gefi reyndar annað til kynna. En útgerðin á eins og menn þekkja nægar gamlar skuldir frá þeim tímum þegar kerfið bauð ekki upp á sömu hagkvæmni og nú. En það kerfi sem menn eru að bregðast við með því að vilja treysta eignarákvæðið er í rauninni þannig að menn geta selt, leigt og nú síðast stendur til að menn geti líka veðsett það sem samkvæmt lögunum um stjórn fiskveiða er talið sameign þjóðarinnar. Auðvitað hlýtur það að kalla á viðbrögð og jafnvel ótta fólksins í landinu og fulltrúa þeirra hér á hinu háa Alþingi, ótta við það að einn góðan veðurdag verði fiskstofnarnir skilgreindir eða kannski öllu heldur dæmdir eign þeirra sem nú hafa tímabundinn afnotarétt, til þeirra sem nú fá tímabundin veiðileyfi frá ári til árs samkvæmt lögunum um stjórn fiskveiða. Þessi tillöguflutningur endurspeglar ótta við það að eignarhaldsákvæðið haldi ekki ef ekkert verður að gert. Þessi ótti, herra forseti, hefur speglast í öðrum tillöguflutningi hér á Alþingi, tillöguflutningi okkar jafnaðarmanna um veiðileyfagjald. Rökin fyrir veiðileyfagjaldi eru ekki hvað síst þau að með því að leggja á veiðileyfagjald þá gætum við treyst sameignarákvæði laganna um stjórn fiskveiða. Og 75% þjóðarinnar virðast, herra forseti, vera sammála þessu, að það þurfi að staðfesta eign þjóðarinnar á auðlindinni með því að þeir sem fá afnotarétt greiði fyrir hann.

Í tillögu jafnaðarmanna um veiðileyfagjald eru talin upp tvenns konar rök fyrir veiðileyfagjaldi. Það eru annars vegar réttlætisrökin og hins vegar hin efnahaglegu rök. Ég ætla, með leyfi forseta, að leyfa mér að rekja hér þau efnisrök, réttlætisrök, sem þar eru fram borin:

Í fyrsta lagi að þjóðin á fiskimiðin. Og grundvöllur veiðileyfagjalds væri þá sú staðreynd að fiskstofnarnir í kringum landið eru eign allrar þjóðarinnar og því óeðlilegt að arður af þeim renni eingönu til fámenns hóps sem fær þennan afnotarétt.

Í öðru lagi væri setning veiðileyfagjalds staðfesting á þjóðareign. Það mundi staðfesta þjóðareign á fiskimiðunum og slík skipan mundi einnig stuðla að skynsamlegri framþróun í efnahagsmálum þó ég ætli ekki að gera það að sérstöku umræðuefni hér.

Það væri líka eðlilegt, herra forseti, og er hluti af réttlætisrökunum að allir greiddu veiðileyfagjald vegna þess að það þurfa nýir aðilar að gera núna. Því það verður að hafa í huga að nýir aðilar greiða veiðileyfagjald en þeir greiða hins vegar ekki til ríkisvaldsins eða almannavaldsins í landinu heldur til annarra útgerðarmanna sem fá eða hafa fengið þessum veiðiheimildum úthlutað ókeypis á hverju ári.

Fjórða röksemdin sem styður réttlætisrökin er sú að það er óásættanlegt að ríkið skuli skammta mönnum rétt til að selja eða hagnast á annarra manna eigum með þeim hætti.

Í fimmta lagi er ljóst að það særir réttlætiskennd manna að verslað sé með veiðiheimildir og að þeir sem fengu þeim úthlutað upphaflega geti hagnast á því að selja þær eða leigja því þeir hafa ekkert greitt fyrir þær, hvorki við úthlutun í upphafi né árlegt leigugjald. Og, herra forseti, eitt að því sem þar er nefnt til sögunnar er einmitt að það sé forsenda fyrir því að sátt náist um núverandi stjórn fiskveiða að lagt sé á veiðileyfagjald.

Þetta voru þau fimm atriði sem voru flokkuð sem réttlætisrök í þeirri tillögu sem jafnaðarmenn hafa lagt var fyrir Alþingi um upptöku veiðileyfagjalds.

Það eru margir fræðimenn sammála um að núverandi fiskveiðistjórnarkerfi sé mjög hagkvæmt en þeir eru líka margir á þeirri skoðun að til þess að útgerðin nái sáttum við þjóðina um þetta fiskveiðistjórnarkerfi þurfi að koma til greiðslur vegna afnotaréttarins. Við höfum heyrt útgerðarmenn og talsmenn þeirra lýsa kostum kvótakerfisins, og á því þreytast þeir seint, bæði kostum þess og mikilvægi þess fyrir velgengni útgerðarinnar í landinu. Þeir hljóta samt eins og ýmsir ónefndir stjórnmálamenn að finna þá undiröldu sem er gegn þessu kerfi. Þeir hljóta að vera sér þess vel meðvitaðir um að til þess að ná sáttum við eiganda auðlindarinnar þarf eitthvað að koma til.

Ég hef heyrt og lesið eftir tilteknum útgerðarmönnum að þeir vilji frekar gera kerfið aftur óhagkvæmt en að þurfa að greiða þjóðinni fyrir aðganginn. Vegna þess vil ég einungis segja það að veiðileyfagjald er ekki endilega bundið því kerfi fiskveiða sem nú er við lýði, hreint ekki. Þannig að þó svo að menn vildu, til þess að forðast það að greiða þjóðinni fyrir afnotin, gera kerfið óhagkvæmt á ný þá er það ekki undankoma þegar um það er að ræða að ríkið útdeili takmörkuðum gæðum og kalli þá á afgjald fyrir. En það sýnir okkur bara hversu langt einstaka menn eru tilbúnir til að ganga til þess að losna við það og þá réttlætiskröfu að greiða fyrir aðgang að hinni sameiginlegu auðlind. En það eru samt sem áður bæði til útgerðarmenn og þá ekki síður fræðimenn, og þeim er að fjölga, sem átta sig á því að það þarf að ná sáttum við þjóðina til þess að núverandi kerfi geti staðist.

Rögnvaldur Hannesson prófessor skrifaði grein í Morgunblaðið um síðustu helgi sem heitir Hagvöxtur og kvótakerfi. Eftir að hafa farið yfir kosti kvótakerfisins og mikilvægi þess við að stýra útgerðinni með sem fyllstri hagkvæmni, ef við ætlum að byggja framtíð okkar að stórum hluta á nýtingu þessarar sameiginlegu auðlindar, þá segir prófessor Rögnvaldur, með leyfi forseta:

,,Hinu skulu menn átta sig á að kvótakerfið er háð því að það sé fyrir hendi pólitískur vilji hjá þjóðinni til að halda þessu kerfi úti. Það er alls ekki nóg að kerfið sé skilvirkt og hagkvæmt, það verður líka að vera sæmilega réttlátt. Það særir réttlætiskennd flestra að menn séu að hagnast á verðmætum sem þeir hafa fengið gefins og reyndar eru skilgreind sem þjóðareign.

Séð í þessu ljósi, verður það að teljast furðulegt hve andsnúnir margir útgerðarmenn eru veiðigjaldinu svokallaða. Það er hvorki útgerðarmönnum né þjóðarheildinni í hag að kvótakerfinu verði kastað fyrir róða eða framsali kvóta settar svo þröngar skorður að það skili litlum sem engum árangri. Það þjónar að öllum líkindum langtímahagsmunum útgerðarmanna að sættast við þjóðina á hæfilegt veiðigjald. Sumum forystumönnum útgerðarmanna er þetta löngu ljóst.``

[15:00]

Herra forseti. Ég held að það sé nauðsynlegt í umfjöllun um nauðsyn þess að eignarhald þjóðarinnar á auðlindinni sé staðfest að hefja umræðu um það með hvaða hætti öðrum þarf að staðfesta eignarhald þjóðarinnar. Eins og fram kom í skoðanakönnun, og ég gat um áðan, eru 75% þjóðarinnar á því að það sé réttlætismál að útgerðarmenn greiði fyrir aðgang að hinni sameiginlegu auðlind. Áðan var vikið að því að það þarf pólitískan vilja til þess að halda úti svo umdeildu kerfi sem kvótakerfið er. Ef menn vilja treysta þann pólitíska vilja sem til þarf þá þurfa útgerðarmenn á Íslandi, forusta þeirra og talsmenn að hugsa þessi mál upp að nýju vegna þess, eins og ég sagði í upphafi máls míns, að sú hugsun sem liggur að baki þessu frv. til stjórnarskipunarlaga, bæði nú og áður, er sú að menn telja nauðsynlegt að bregðast við framkvæmd laganna um stjórn fiskveiða þar sem lýtur að eignarhaldi þjóðarinnar og meðferð á þeim lögum.