Íslenskt sendiráð í Japan

Fimmtudaginn 27. febrúar 1997, kl. 15:05:33 (4064)

1997-02-27 15:05:33# 121. lþ. 81.6 fundur 297. mál: #A íslenskt sendiráð í Japan# þál., Flm. HG
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur

[15:05]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um íslenskt sendiráð í Japan. Tillagan er stuttorð, svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að koma á fót íslensku sendiráði í Japan á árinu 1998.``

Það er ekki í fyrsta sinn sem þetta mál kemur hingað inn í þingsali því að á 115. og 116. þingi, tímabilinu 1991--1993, var tvívegis flutt frv. um hliðstætt efni um íslenskt sendiráð í Japan, þá flutt af fjórum þingmönnum sem voru ásamt þeim sem hér talar hv. þáv. þingmenn Gunnlaugur Stefánsson, Jón Helgason og Kristín Einarsdóttir.

Nú er þetta mál tekið upp að nýju og ástæðan fyrir því er að ég hef verið þeirrar skoðunar, sem 1. flm. þessa máls á fyrri stigum, að það væri verðugt verkefni og nauðsynlegt sem liður í uppbyggingu okkar utanríkisþjónustu að koma upp sendiráði Íslands í Japan. Það eru mörg rök sem mæla með því að svo sé og má þar nefna viðskiptatengsl landanna sem eru veruleg og vaxandi og einnig samskipti á menningarsviði þótt um ólíka menningarheima sé að ræða sem auðgað geta hvor annan með samskiptum eins og þróast hafa nú um mörg ár en þar sem möguleikar eru jafnframt miklir til að treysta og efla þau samskipti.

Það varð að ráði hjá fyrrv. ríkisstjórn á árinu 1995 að opna sendiráð Íslands í Kína. Með flutningi þessarar tillögu er ekki verið að gera athugasemd við þann gjörning. Það voru vafalaust rök fyrir því að velja Kína á þeim tíma þó að áhersla þess sem hér talar hafi hnigið í aðra átt þegar litið var til Austur-Asíu og eðlilegra hefði verið að mínu mati að láta sendiráð í Japan hafa forgang. Mætti færa fram ýmsar ástæður fyrir því en ég legg áherslu á að með þessari tillögu er ekki verið að leggja til neina breytingu á stöðu íslensks sendiráðs í Kína. Það sendiráð hefur þegar unnið ýmislegt gagnlegt fyrir samskipti landanna og þar er um mikla framtíð að ræða gagnvart því stóra ríki sem þar á í hlut.

Það hefur heyrst víðar en frá þeim sem hér talar að ekki sé nægilegt að reka eitt íslenskt sendiráð í þessum heimshluta, heldur sé æskilegt að stíga það skref fljótlega að koma upp sendiráði í Japan. Í því sambandi er nauðsynlegt að fyrir liggi vilji Alþingis til málsins um leið og tekið er undir þær hugmyndir sem fram hafa komið af hálfu talsmanna ríkisstjórnar, þar á meðal af hálfu bæði hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. á þessum vetri að áhugi sé á því af hálfu stjórnvalda að koma upp sendiráði í Japan. Með flutningi þessarar tillögu og afstöðu Alþingis til málsins þá vinnst það bæði hvað tíma snertir að þingviljinn liggi fyrir í málinu og að stjórnvöld undirbúi málið fyrir sitt leyti.

Það er auðvitað vandasamt mál fyrir litla þjóð að halda uppi öflugri utanríkisþjónustu og sinna þeim mörgu hagsmunum sem Ísland á víða og samskiptum við aðrar þjóðir. Það er alveg ljóst að við þurfum að þróa okkar utanríkisþjónustu öðruvísi en verið hefur á liðnum tíma og hugsa til þess að koma upp útstöðvum utanríkisþjónustunnar í heimsálfum sem eru alveg út undan. Það má segja að það séu þrjár heimsálfur ef við teljum Suður-Ameríku sem slíka í hópi þeirra þó til Ameríku heyri en einnig í Afríku og Ástralíu þar sem ekki er um að ræða sendiráð af okkar hálfu. Þar er hins vegar ekki um sömu samskipti að ræða og við Japan enn sem komið er og ekki sömu hagsmuni þó ég geri alls ekki lítið úr því að það þarf nauðsynlegga að hugsa til þess að bæta þessi samskipti, hugsanlega jafnhliða því sem utanríkisþjónustan almennt verði endurskipulögð sem oft hefur vissulega komið til tals en lítið orðið úr framkvæmdum í því sambandi.

Í því efni má benda á að hugmyndir hafa komið fram um það, og ég þekki þær raddir m.a. úr mínum þingflokki, að hugsanlegt sé að halda úti fulltrúum utanríkisþjónustunnar án þess að um fullkomið sendiráð sé að ræða og slík skipan mála geti átt við á vissum stöðum. Ég hef síður en svo á móti því að slíkir möguleikar séu athugaðir. Ég tel hins vegar að í því tilviki sem hér um ræðir, þ.e. í Japan, þurfum við að koma upp fullveðja sendiráði þó að það óhjákvæmilega kosti talsvert vegna þess að kostnaður við slíkt er óvenjumikill, í Tókíó a.m.k., og menn þurfa að gera sér ljóst að talsverður kostnaður fylgir slíkri uppbyggingu.

Ég vil nefna það, virðulegur forseti, að viðskipti landanna hafa farið vaxandi og Japan mun nú vera í 4. sæti þeirra ríkja sem við höfum utanríkisviðskipti við, á eftir Bretlandi, Þýskalandi og Bandaríkjunum. Á árinu 1995 fluttu Íslendingar út vörur til Japans fyrir 13 milljarða kr. eða 11,3% af heildarútflutningi Íslendinga. Vöruskiptajöfnuðurinn milli landanna var mjög hagstæður okkur því að innflutningur frá Japan á sama ári nam aðeins um 5 milljörðum kr.

Af okkar hálfu voru það eðlilega fiskafurðir sem voru meginhluti útflutnings en innflutningur frá Japan einkum vélar, samgöngutæki og fatnaður. Þessi viðskipti er eflaust hægt að auka til muna af beggja hálfu og það er vafalaust áhugaefni beggja þjóðanna, Japana og Íslendinga, að styrkja samskiptin og auka þau, bæði á viðskiptasviði og eins á menningarsviði. Þó að fjarlægð sé mikil á milli landanna þá er sitthvað líkt með aðstæðum þessara þjóða. Báðar byggja eylönd, Ísland og Japan. Sjávarútvegur er mikilvæg atvinnugrein í báðum ríkjunum og ef litið er til náttúrufars, þá er sitthvað sem er líkt með þessum löndum, Japan og Íslandi, ekki síst eldvirknin og það sem henni fylgir, bæði jákvætt og neikvætt, ef svo má segja, og geta þjóðirnar þannig miðlað hvor annarri af reynslu í þeim efnum og hafa raunar þegar gert það.

Af menningarsamskiptum mætti ýmislegt nefna, t.d. að fyrrv. forseti lýðveldisins, Vigdís Finnbogadóttir, ræktaði mjög samskipti við Japan, fór í heimsóknir þangað og var tekið með kostum og kynjum og af hálfu Alþingis fór sendinefnd til Japans sumarið 1992 og ýtti það raunar við þeim sem stóðu að flutningi málsins um sendiráð í Japan, á tillögunni sem flutt var hér á Alþingi í framhaldi af þeirri heimsókn, en þar var um að ræða samskipti milli þjóðþinganna.

Ég vænti þess, virðulegur forseti, að máli þessu verði vel tekið, að málið fái efnislega umfjöllun í hv. utanrmn. og að við getum vænst þess að á allra næstu árum, helst á næsta ári eins og tillagan gerir ráð fyrir, verði komið á sendiráði í Japan og þá er tilgangi þessarar tillögu vissulega náð. Í kjölfarið þurfum við að vinna að traustari samskiptum sem hafa verið góð um langt árabil, en hægt er að efla bæði viðskiptalega og menningarlega.