Íslenskt sendiráð í Japan

Fimmtudaginn 27. febrúar 1997, kl. 15:21:30 (4066)

1997-02-27 15:21:30# 121. lþ. 81.6 fundur 297. mál: #A íslenskt sendiráð í Japan# þál., Flm. HG
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur

[15:21]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég þakka stuðninginn sem fram kom í máli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar við það mál sem hér er flutt. Hv. þm. á sæti í utanrmn. þingsins og ég vænti þess að einmitt í þeirri þingnefnd þar sem um málið verður fjallað ríki svipaður skilningur. Ég vil taka undir það sem fram kom í máli hans varðandi þýðingu þess að standa vel að okkar utanríkisþjónustu og auka hana. Það er í rauninni sjálfsagt mál með auknum alþjóðatengslum. Við þurfum að gæta þess að skera þar ekki um of við nögl jafnframt því sem við reynum að gæta fyllstu hagkvæmni við rekstur hennar og meta það hverju sinni hvernig við verjum því fjármagni, að sjálfsögðu takmarkaða fjármagni, sem við getum lagt til þess arna. Þetta á ekki aðeins við um þjónustu í þjóðríkjum heldur á þetta jafnframt við um okkar fulltrúa sem vinna hjá alþjóðastofnunum mjög mikilvæg störf þar sem við þurfum að leggja í rauninni meira fram. Vegna breyttra aðstæðna í samskiptum okkar t.d. við hin Norðurlöndin og milli Norðurlandanna innbyrðis þurfum við Íslendingar að leggja meira af mörkum sjálfir en meðan við gátum stuðst meira við utanríkisþjónustur hinna Norðurlandanna, t.d. á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Að þessu þarf að hyggja jafnframt því sem við færum út okkar tengsl við aðrar þjóðir með stofnun sendiráða eða sendiskrifstofa og gætum þess að ná þar sem bestum árangri og vanda sem best til verka.