Úttekt á áhrifum Efnahags- og myntbandalags Evrópu

Fimmtudaginn 27. febrúar 1997, kl. 15:24:10 (4067)

1997-02-27 15:24:10# 121. lþ. 81.7 fundur 300. mál: #A úttekt á áhrifum Efnahags- og myntbandalags Evrópu# þál., Flm. ÁE
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur

[15:24]

Flm. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Á þskj. 556 hef ég borið fram till. til þál. ásamt hv. þm. Sighvati Björgvinssyni og Jóni Baldvini Hannibalssyni. Tillagan sjálf er stutt. Hún er svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að skipa nefnd til að gera úttekt á áhrifum Efnahags- og myntbandalags Evrópu á íslenskt efnahagslíf. Nefndina skipi sérfræðingar á sviði hagstjórnar. Hún skili niðurstöðum fyrir árslok 1997.``

Þó svo Evrópuumræðan hér á landi hafi fyrst og fremst snúist um efnahagslega þætti, þá eru Evrópumálin miklu víðtækari og ber að skilja þau miklu víðtækara en við höfum oft rætt um þau, þ.e. að Evrópusamrunaferillinn sem hófst upp úr stríði var fyrst og fremst markaður af þeim vilja forustumanna í Evrópu að reyna að búa til þá umgjörð sem gæti betur tryggt frið. Þetta er fyrst og fremst markað af fólki sem var þá nýkomið út úr seinni heimsstyrjöldinni og margt af því fólki hafði einnig barist í fyrri heimsstyrjöld. Þessir forustumenn stjórnmálaflokka og landa í Evrópu um miðja öldina þráðu sárlega frið í löndum sínum. Sú hugmyndafræði sem þeir lögðu upp með er nokkuð einföld en kom að miklum notum. Hún byggðist einfaldlega á því að reyna að búa til samstarf um efnahagslega þætti sem hófst með Evrópusamstarfi á sviði kola- og námusamstarfs, kola- og stálsamband Evrópu sem undanfari þess sem síðar hér Efnahagsbandalag Evrópu og kallað er núna Evrópusambandið.

Þeir forustumenn sem settu hvað mestan svip á þessa þróun voru Frakkar og Þjóðverjar. Vikið er að nokkrum nöfnum úr Evrópusögunni í grg. með tillögunni. Upphaflega koma þessar hugmyndir frá Frökkunum Jean Monnet og Robert Schuman og fylgt eftir á hinum pólitíska vettvangi af Charles de Gaulle og Konrad Adenauer í Þýskalandi og eftirmönnum þeirra François Mitterrand, Willy Brandt, Helmut Schmidt og Helmut Kohl svo nokkur nöfn séu nefnd úr Evrópusögunni, stjórnmálum Evrópu sem hafa fylgt þessari stefnu, þ.e. að stefna sífellt að nánara samstarfi á sviði efnahagsmála og pólitísku samstarfi og tryggt með því frið í álfunni. Það er merkilegt að hugsa til þess að einmitt tíminn frá seinni heimsstyrjöld til borgarastyrjaldarinnar í fyrrum Júgóslavíu, sem er ekki nema 40--46 ára tími, er lengsti friðartími í Evrópu. Það þarf eiginlega að fara aftur til tíma Rómverja til að finna sambærilegt friðartímabil og var nú ekki beint friður kannski á þeim tíma, enda erfitt að tala um sögu Evrópu í þessu sambandi vegna þess að hún var kannski ekki til í þeim skilningi sem við lítum á hana í dag.

Samt sem áður segir þetta okkur heilmikið um þá aðferðafræði að stuðla að friði með efnahagslegu og pólitísku samstarfi.

Þetta er sú umgjörð um Evrópusamstarfið sem mér finnst oft og tíðum gleymast í umræðu hér á landi. Hins vegar fjallar þessi tillaga einungis um einn þátt þessa samstarfs sem er um væntanlegt Efnahags- og myntbandalag Evrópu. Þetta er samstarf ríkja Evrópusambandsins og mun hefjast í ársbyrjun 1999. Það felur m.a. í sér eina mynt, evró, sameiginlega peningastefnu og einn sjálfstæðan seðlabanka. Þetta er mjög nákvæm stefnumörkun um efnahagslegt og stjórnmálalegt samstarf og það er mjög afdrifaríkt skref sem Evrópuþjóðirnar eru að stíga með þessu vegna þess að þetta krefst samstillingar mjög marga þátta sem áður voru í umsjá einstakra þjóðríkja.

Það er ekki hægt að fletta einu einasta blaði í Evrópu núna og hefur verið um nokkurt skeið svo ekki sé mjög ítarleg umræða um EMU og áhrif þess á viðkomandi þjóðríki. Þessi umræða hefur ekki verið mikil hér á landi, helst vakið athygli fyrir þann misskilning eða þekkingarleysi ráðamanna hér á landi að halda að við gerðumst aðilar að Efnahags- og myntbandalagi Evrópu og vanþekking forsrh. var e.t.v. skýrust í þessum efnum þegar hann sagði að hann teldi að við ættum ekki að gerast aðilar að þessu myntbandalagi og sá helstu kosti í þessum málum að þetta yrði einfaldara fyrir ferðamenn.

[15:30]

Ég man nú satt best að segja ekki eftir því að ráðamaður í Evrópu hafi farið slíkum orðum um þetta mál sem lýstu meiri vanþekkingu á því en einmitt hæstv. forsrh. Síðan átu nokkrir þingmenn þetta upp eftir forsrh., þ.e. um möguleika á aðild Íslendinga. En svo þetta sé nú alveg skýrt á slíkt efnahagssamstarf eða myntsamstarf vitaskuld einungis við ríki Evrópusambandsins og þá yrði Ísland fyrst að gerast aðili að Evrópusambandinu áður en það gerðist aðili að Efnahags- og myntbandalaginu. En það er önnur saga. Þessi umræða hér snýst ekki um hvort við eigum að gerast aðilar að Evrópusambandinu eða ekki heldur snýst hún um að setja í gang vandaða úttekt á áhrifum þessa myntsamstarfs á íslenskt efnahagslíf.

Það eru ströng skilyrði fyrir þátttöku einstakra ríkja. Þannig verður halli á rekstri ríkis og sveitarfélaga að vera innan við 3% af vergri landsframleiðslu, skuldir hins opinbera innan við 60% af landsframleiðslu, vextir ekki hærri en tveimur prósentustigum yfir lægstu vöxtum og verðbólga ekki meira en 1,5% yfir verðbólgu þar sem hún er lægst.

Ísland hefur uppfyllt flest þessi skilyrði og má segja öll skilyrðin nema vaxtaskilyrðið er líklega ekki lengur uppfyllt því að vextir eru 2--3% hærri en almennt gerist í Evrópu þó að mínu viti hafi ekki farið fram nákvæm úttekt á því. Það er einungis eitt ríki í Evrópusambandinu sem nú þegar uppfyllir öll þessi skilyrði. Það er Lúxemborg. Hins vegar er gert ráð fyrir aðlögun ríkja. Ef þau stefna í rétta átt geta þau orðið aðilar að Myntbandalaginu. Það hefur reynst einna erfiðast fyrir ríki Evrópusambandsins að uppfylla skilyrðin um skuldir og halla hins opinbera.

Það eru 15 ríki núna í Evrópusambandinu og það er ekki vitað nákvæmlega hve mörg þeirra verða með frá fyrsta degi, en það er talið að þau verði a.m.k. 8 talsins sem munu vera með strax frá byrjun. Það eru Austurríki, Belgía, Finnland, Frakkland, Holland, Írland, Lúxemborg og Þýskaland. Það er náttúrlega ekki vitað hvort öll þessi ríki verða með. Það er ekki búið að taka hina pólitísku ákvörðun alls staðar. Spánn og Ítalía gera mikið til að reyna að uppfylla hin efnahagslegu skilyrði en það er ólíklegt. Talið er að Bretland muni örugglega ekki vera með og ólíklegt að Danmörk, Grikkland, Portúgal og Svíþjóð muni taka þátt í Myntbandalaginu frá byrjun en þessi ríki geta gerst aðilar að því síðar.

Auðvitað kæmi til álita fyrir okkur, þó við gætum ekki gerst aðilar að þessu, að skoða áhrif þess á íslenska gengisstefnu og það væri hægt að tengjast Evrópumyntinni með einhliða yfirlýsingu. Slíkt þekkist og hefur þekkst í evrópskri hagsögu að þjóðir sem hafa ekki átt formlega aðild að samstarfi í myntbandalagi --- myntbandalag hefur verið mjög lengi við lýði, þó það hafi ekki verið í þessari mynd --- þá hafa menn tengst því með einhliða yfirlýsingu og lagað sína efnahagsstefnu að þeim skilyrðum. Finnar til að mynda gerðu þetta um tíma og aðrar þjóðir hafa einnig íhugað þessa möguleika.

Flest ríki í Evrópu og Íslendingar meðtaldir hafa undanfarin ár fylgt svipaðri efnahagsstefnu, þ.e. að halda verðbólgu niðri, stuðla að stöðugu gengi og ná þannig upp skilyrðum fyrir hagvöxt og freista þess að ná niður atvinnuleysi. Þetta hefur gengið misjafnlega í Evrópu en þessi efnahagsstefna sem við tókum upp um 1990 hefur reynst hér nokkuð vel. Alla vega hefur stöðugleiki verið hér mikill og hagvöxtur meiri undanfarin ár en oftast áður. Þetta skiptir verulega máli fyrir okkur Íslendinga einfaldlega vegna þess að helsta viðskiptasvæði okkar er Evrópa. 65% af vöruútflutningi fer á Evrópusvæðið og 60% af vöruinnflutningi þannig að áhrif myntsamstarfsins í Evrópu hefur mjög mikil efnahagsleg áhrif hér á landi.

Það má líka benda á að þetta hefur áhrif á vaxtastig hér á landi því talið er að vextir í Evrópu muni lækka í kjölfar myntsamstarfsins. Við skuldum núna 650 milljarða. Þannig er munur upp á eitt prósentustig hvorki meira né minna en 6,5 milljarðar bara ef maður tekur innlendu skuldirnar. Nú er vaxtamunurinn 2--3% og ef við bætist bara vegna Myntbandalagsins, þá sjá menn hvílíkar tölur við erum að tala um þannig að full ástæða er til, eins og segir í tillögunni, að gera vandaða úttekt á þessum efnum.

Það eru fleiri atriði sem rétt er að vekja athygli á. Þeir telja sjálfir að sameiginleg mynt þýði betri samanburð á verði milli landa, stækki innanlandsmarkað, lækki fjármagnskostnað, stuðli að meiri viðskiptum, auki samkeppni og fjárfestingar. Búist er við að þetta samstarf muni auka hagvöxt innan Evrópusambandsins nokkuð mikið auk hins pólitíska samstarfs sem fylgir í kjölfarið. Þetta þýðir að Evrópusambandsríkin munu ná viðskiptalegu forskoti á okkur Íslendinga eins og á aðrar þjóðir og það er það sem við þurfum að horfast í augu við. Við þurfum að meta hvernig þetta forskot hefur áhrif á inn- og útflutning. Það er mikilvægt að skoða, og nefnt sérstaklega í tillögunni, samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja, áhrif á önnur viðskiptaríki t.d. Bandaríkin og Japan, sem var í umræðu áðan en sá markaður er okkur mjög mikilvægur. Vitaskuld þarf að skoða áhrif á vaxtastig, vinnumarkað og atvinnuástand. Allt hefur þetta áhrif á okkar umgjörð sem rétt er að lögð sé vinna í að kanna ítarlega.

Sérstök ástæða er til að vekja athygli á einum þætti þessa samstarfs sem er hinn sameiginlegi Seðlabanki Evrópu. Settur er á laggirnar einn seðlabanki í Evrópu sem hefur mjög mikið frjálsræði við vinnu á faglegum forsendum að mótun peningastefnu út frá því markmiði að halda verðbólgu niðri og tryggja þannig möguleika til hagvaxtar. Þessi nýi seðlabanki er sniðinn eftir þeirri umgjörð sem þýski seðlabankinn hefur haft um áratuga skeið og hefur þótt reynast vel. Fram til þessa hefur efnahagslíf einmitt í Þýskalandi verið hvað sterkast í Evrópu þótt blikur séu á lofti nú sem stendur.

Það er mikilvægt í þessu sambandi að hin faglega úttekt sé gerð. Talað er um að skipa sérfræðinga á sviði hagstjórnar. Hér erum við að skoða hin hagrænu áhrif af myntsamstarfinu. Þótt einhver vinna sé í gangi t.d. innan Seðlabankans eða Lánasýslu nær hún ekki utan um þessa víðtæku úttekt sem tillagan gerir ráð fyrir. Ýmis vinna hefur þegar verið unnin í þessu sambandi og má þarf nefna umræðu sem var fyrir nokkrum árum um þróun og tengingu íslensku krónunnar við ECU og nýtist þessi fyrri athugun vitaskuld vel við þá úttekt sem hér er nauðsynleg.

Að lokum, herra forseti, má geta þess að nágrannaþjóðir okkar hvort sem þær ætla sér að gerast aðilar að myntsamstarfinu eða ekki, hafa sett í gang svipaða úttekt og gert er ráð fyrir, þ.e. faglega og ítarlega úttekt. Við tillögumenn gerum ráð fyrir að forsrh., sem fer með yfirstjórn efnahagsmála af hálfu framkvæmdarvaldsins, skipi þá nefnd sem hér um ræðir og niðurstöður muni liggja fyrir í lok þessa árs.

Að lokum, herra forseti, geri ég það að tillögu minni að málinu verði vísað til síðari umr. og til hv. efh.- og viðskn.